17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Þetta mál hefur talsvert verið rætt hér áður og þess vegna leitt að þurfa að endurtaka það, sem um það hefur verið sagt. En viðkomandi því, að það geti verið hættulegt, að ráðh. hafi slíkt vald í höndum, vil ég segja það að ef ráðh. hefðu ekkert vald í höndum fyrir kosningar, sem auðveldara væri að misbeita en þessari heimild, væri ekki mikið að óttast. Sannleikurinn er sá, að ráðh. hefur einmitt slíka heimild viða í lögum. Og það sýnir bezt samræmið í öllu þessu tali, að í sjálfu frv. er einmitt heimild fyrir ráðh. til að veita undanþágu. Þar stendur m.a.:

„Atvinnumálaráðherra er heimilt, þegar skortur er á vélstjórum, að veita æfðum kyndurum leyfi til þess að gegna undirvélstjórastarfi við eimvél í skipum allt að 300 hestafla og aðstoðarmannsstarfi á eimskipum með vél allt að 800 hestafla.

Áður en undanþága er veitt, skal leita umsagnar skipaskoðunarstjórans og Vélstjórafélags Íslands.“ Hér er talað um, að ráðh. hafi þessa heimild, þegar skortur er á vélstjórum. En nú hefur verið um það deilt, hvort dómur ráðh. í slíkum tilfellum sé réttur. Í annan stað er það alveg óviðeigandi að beita þeim rökum gegn máli eins og þessu. að sníða verði þannig ákvæðin í l. hér á Alþ., þegar þau eru afgreidd, að ráðh. geti ekki misbeitt valdi sínu fyrir kosningar. Ráðh. geta alltaf misbeitt valdi sínu á ýmsum sviðum, og verður að gera ráð fyrir, að slíkir menn geri það ekki. Verður eigi hjá því komizt að fá ráðh. í hendur margs konar vald, sem hægt er að faxa með á mismunandi heiðarlegan hátt, og mér kemur ekki til hugar annað en þessu valdi verði beitt þannig, að við það megi una.

Hitt, sem hv. þm. Barð. sagði, að með þessu sé verið að rýra öryggið á sjónum, er vitanlega mesta firra. Það er búið að sýna fram á það hér áður, að þessum skipum, sem sækja á sömu slóðir og stærri skipin, hvort heldur það eru Svíþjóðarbátarnir eða önnur skip, verður beitt á sömu slóðum og minni bátunum. Það hefur verið sýnt fram á það hvað eftir annað og ekki verið hrakið, að þeir menn, sem nú eiga að fá rétt til að stjórna stærri skipum en þeir hingað til hafa haft, lenda í svipuðum vanda, að því er siglingar snertir, og önnur skip, þótt stærri séu. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að maður, sem siglt hefur skipi hér við strendur landsins — segjum í fimm ár og við það öðlazt mikla reynslu, er ráðsettur maður og kominn yfir fertugt, — er ekki síður þeim vanda vaxinn að sigla skipi, sem er 80 tonn, en skipi, sem er 15–30 tonn, á sömu fiskislóðum og áður. Ég vildi gjarnan fá að heyra, hvaða rök mæla með því, hver er vandinn meiri.

Þá verður einnig að taka tillit til þess. að þau fiskiskip, sem sækja hér á miðin, hafa alltaf verið að stækka og eru enn þá að stækka. Verður einnig að sníða löggjöfina eftir því, eins og margsinnis hefur verið bent á í þessari umr. Er leitt að verða að endurtaka þetta, og mun ég því ekki segja meira, nema tilefni gefist til.