17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (4101)

24. mál, atvinna við siglingar

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Þessi brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 4. landsk., er í sjálfu sér mjög eðlileg, og samsvarandi ákvæði og þar er farið fram á hafa oft verið í l., þegar kröfur til menntunar hafa verið auknar.

Þegar hert hefur verið á ákvæðum um menntun, hefur yfirleitt verið reynt að forðast, að l. kæmu þannig niður í framkvæmd, að menn, sem búnir eru að vera í þessu starfi, svo að árum skiptir, þurfi frá því að hverfa, heldur sé þeim heimilað að halda því áfram.

Það er vitað mál, að á fiskiskipum er ekki alveg nóg að vera fiskifróður maður. Það er líka mjög margt annað, sem útheimtist til þess að vera góður fiskiskipstjóri, og mjög mikið lagt upp úr því að ná í menn, sem hafa þá hæfileika til að bera. Til er fjöldi manna, sem eru mjög siglingafróðir, en hafa reynzt alveg ómögulegir fiskimenn.

Það, sem hér er farið fram á, er ekki annað en það að skapa fullorðnum mönnum möguleika til að halda áfram starfi sínu, án þess að þeim sé skipað að setjast á skólabekk. Eru ákvæði þessi aðeins til bráðabirgða. Verður að vera búið að sækja um það innan fimm ára, því að eftir þann tíma fær enginn slíka undanþágu, og verður þá málið að ganga sinn gang samkv. frv. því, er hér liggur fyrir.

Ég vil tjá hv. d., að það eru tilmæli ríkisstj., að þessi undanþága verði sett inn í frv. í eitthvað svipuðu formi og kemur fram í brtt. hv. 4. landsk. Er aðeins verið að skapa erfiðleika við byrjunarframkvæmdir á þeim stóru breyt., sem áformað er að gera á siglingunum, ef undanþáguákvæðið er ekki sett. Og í því formi, sem það liggur hér fyrir, held ég, að enginn þurfi að óttast það.

Komið hefur hér fram sú fjarstæða, að þetta sé hugsað til þess að kaupa sér atkvæði fyrir. En eins og hv. þm. Str. benti á, eru það sennilega fjöldamörg atriði, er heyra undir hin ýmsu ráðuneyti og auðveldara væri að misbeita en þessari heimild. Þetta ákvæði er beinlínis nauðsynlegt til þess að forðast vandræði. Það er líka ósanngjarnt gagnvart mönnum, sem hafa verið skipstjórar í 10–20 ár, að koma til þeirra og segja: Nú hættið þið að sigla sams konar bátum.

Það hefur verið gert kauptilboð í sænska báta. Þeir eru 80 tonn, en minna prófið er miðað við 75 tonn. Þá er óeðlilegt, að þessum mönnum sé ekki hiklaust veitt leyfi til að stjórna þessum bátum, þegar þeir fá þá, þó að þeir séu lítið eitt stærri. Ég vil því eindregið leggja til, að d. samþ. þessa till. eða eitthvert annað ákvæði svipaðs efnis.