19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (4112)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég held, að ég verði að gefa hv. þm. Str. tækifæri til að jórtra upp staðhæfingar sínar aftur. Hann hefur ekki komið fram með neitt nýtt í málinu, en er alltaf með sömu tugguna.

Hér er ekki um að ræða missi réttinda. Þessir. menn halda sömu réttindum og þeir hafa og fá engin ný réttindi, ef frv. fellur. En mér þykir leitt að þurfa að vera að bera þetta á borð fyrir hv. þm. Str., þar sem hann er lögfræðingur og ætti því að kunna skil á þessum efnum. Hann heldur, að mesta öryggið til að fara eftir sé það, ef hægt er að benda á einhverja, sem farið hafa miklar svaðilfarir, og heldur sig hafa komið þar með hið mesta þjóðráð. Ég er á allt öðru máli. Ég tel það síður en svo til fyrirmyndar, þótt einhverjir séu svo vitlausir að steypa sér út í tvísýnu, þótt þeir kunni að slampast einhvern veginn af. Hann taldi það mjög öruggt að láta slíka menn vera við skipstjórn, en ég held, að ef fara á eftir svoleiðis kompás, verði ekki um mikið öryggi á sjónum að ræða.

Ég heyrði á máli hv. þm. Str. og eins á ræðu hv. forseta (StgrA), að þeir vildu ekki fylgja fyrri till. Hv. þm. Str. finnst ekki þurfa að vera að reyna að fá þetta ákvæði sett inn í l. Mér virðist það furðu gegna, að maður, sem ekki hefur meira vit á þessum málum en hv. þm. Str. virðist hafa, skuli leyfa sér að taka slíka afstöðu gegn þeim, sem kunnugir eru þessum málum.

Svo vil ég gjarnan spyrja hv. þm. Str. og hv. 4. landsk.: Hvað halda þeir, að þetta hafi í för með sér, ef þetta verður samþ. óbreytt? Vafalaust hefur það ekkert annað í för með sér en að allur sá aragrúi vélstjóra, sem hefur orðið að fá undanþágu, mundi koma og krefjast þess að búa við sömu l. og fá full réttindi, ekki aðeins fyrir að hafa siglt fimm ár, heldur þeir, sem hafa siglt í 20 ár. Sá hópur manna, sem nú stundar vélgæzlu, mundi koma og óska eftir réttindum eins og skipstjórar. sem hafa siglt fimm ár. Hafa hv. þm. Str. og hv. 4. landsk. athugað, hvað það kunni að kosta útveginn eða þjóðina sjálfa, ef farið væri inn á þessa braut? Og ég tel ekki hv. þm. Str. færan um að bera ábyrgðina á slíkum lagaákvæðum, ef þau væru samþ. En það er ekki hægt að neita því, þegar farið er að semja l., að þau eiga ekki að gilda fyrir sérstaka menn, heldur fyrir allt landið og landsmenn. En hér vill hv. þm. Str. það ekki. Hann er því í fullkomnu samræmi við þessi l., fyrri liðurinn um að veita undanþágu. Og þegar hv. þm. Str. sagði, að meðal annars hefðum við viðurkennt, að þessir menn eigi að fá að halda áfram starfi sínu, þá er það rangfærsla. Það er aðeins neyðarúrræði til þess að bjarga því verðmæti, verði ekki á annan hátt hægt að bjarga því. Og það er sett það öryggisákvæði, að umsögn komi frá Skipaskoðun. ríkisins, sem hefur tvo þaullærða skipstjórnarmenn sér við hlið til þess að ráða þessum málum. Svo er því haldið fram, að sú stofnun hafi miklu minna vit á þessu máli en hv. þm. Str. Þar að auki á að koma til samþykki Farmanna- og fiskimannaráðsins, sem í eru eintómir sjómenn, er hafa langa lífsreynslu í þessum málum.

Ef reyna á að bjarga með undanþágu, þegar bjarga þarf, þá hygg ég, að ekki sé betur hægt að búa um það en gert er með þessu móti. En ef þetta er samþ., að hafa undanþágu með réttindi, þá torveldar það, að komizt verði úr þessu öngþveiti, því að það er til nóg af þessum mönnum í landinu. Og ef frv. er samþ. þannig, að felld er burt þessi síðasta málsgr., þá mundu þessir menn ljúka námi og verða búnir að því, áður en við þurfum á þeim að halda vegna innkaupa nýrra skipa inn í landið.

Hv. þm. Str. sagði, að það væri nokkurn veginn víst, að Farmannaráðið hefði fyrir fram ákveðna skoðun í þessu máli. Það er rétt. Það hefur þá skoðun, að það hefði ekki átt að veita nein réttindi fyrst og fremst og ekki heldur undanþágur, nema brýna nauðsyn bæri til þess. En þeir telja ekki, að á þessu stigi málsins sé sú nauðsyn fyrir hendi. Hins vegar verð ég að lýsa yfir því, að Farmanna- og fiskimannaráðið hefur svo mikla þekkingu á farmálum þjóðarinnar, að ef ráðh. kæmi og sýndi þeim fram á, að hér þyrfti að bjarga verðmætum og veita undanþágu, til þess að hægt sé að bjarga þeim, þá mundi það ekki streitast á móti, heldur benda á öruggustu leið til þess að gera það. Og engir menn hafa betri skilyrði til þess að geta dæmt um þetta en Farmanna- og fiskimannaráð og Skipaskoðun ríkisins, enda er þetta í fullkomnu samræmi við það, sem ákveðið er í l. um vélstjórn og vélgæzlustarf.

Það er hægt að þæfa þetta mál, en ekki að koma með rök gegn því, að brtt. eigi að samþ. Ég vil því enn fastlega mælast til þess, að fyrri liðurinn verði samþ. í till. eins og hann liggur fyrir, en ef svo skyldi ekki verða, þá a.m.k., að síðari liðurinn verði samþ. til þess að kippa ekki alveg burt öllu öryggi í þessum málum, því að það er hvorki Alþ. til sóma né landinu til gagns. Og hv. þm. Str. og hv. 4. landsk. eru ekki búnir að sjá fyrir endann á því tjóni, sem þeir kunna að skapa í þessum málum, með því að halda svo fast við mál sitt sem þeir gera, og ef það verður samþ.