01.02.1945
Neðri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (4130)

24. mál, atvinna við siglingar

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af brtt. þeirri, sem fram er komin frá fjórum meðnm. mínum í sjútvn.

Eins og menn rekur kannske minni til, flutti ég, þegar mál þetta var til umr. hér í hv. d., brtt., sem gekk í þá átt, að heimilað væri að veita þeim mönnum, sem hefðu í nokkur ár haft skipstjórn á smærri fleytum og hefðu fiskimannapróf, réttindi til þess að fara með skip í innanlandssiglingum allt að 120 smálestum að stærð. Ég var þá og er enn samþykkur meginstefnu þessa frv., þ.e., að sjómannsnáminu verði komið í það horf; sem þar er gert ráð fyrir. Hins vegar benti ég á það þá, að á fiskiflotanum væri talsvert af hæfum skipstjórnarmönnum — og sumir, sem farnir eru að reskjast, en hafa fengið mikla reynslu og æfingu, — sem mér fyndist eðlilegt, að fengju leyfi til þess að fara með stærri báta en þeir hafa haft með höndum undanfarið, og það án þess að ganga í skóla eða námsskeið. Var það með það fyrir augum, að þessir menn hefðu þá fengið svo þýðingarmikla reynslu, að það væri alveg óhætt að veita þeim þann rétt. Till. mín um það efni var felld hér í hv. d. En í hv. Ed. var samþ. brtt., sem gekk a.m.k. að sumu leyti skemmra og að sumu leyti lengra. Þar er gert ráð fyrir, að menn, sem eru 40 ára eða eldri, fái þennan rétt til þess að fara með skip, sem séu allt að 150 rúml. að stærð. Ég sé ekki, að ástæða sé til þess fyrir hv. Nd. að taka þetta út úr frv. Ég tel, að eins og frv. liggur fyrir nú, sé það í raun og veru hæfilegur meðalvegur í þessu máli, sem hefur verið nokkurt þrætumál. En um leið er leyst hið erfiða spursmál um þá menn, sem hafa fengið æfingu og vilja halda áfram við skipstjórn og geta komið því við að geta stjórnað stærri bátum. Bátarnir geta farið stækkandi, án þess að vandinn vaxi við að stjórna þeim á fiskimiðunum. En hins vegar eru ýmsir örðugleikar á því fyrir menn, sem farnir eru að reskjast, að setjast á skólabekk á nýjan leik.

Ég skil vel, að mönnum, sem hafa menntazt vel í sjómannafræðum, sé illa við, að aukin réttindi séu veitt, án þess að meira skólanám komi til. En mér finnst, að í þessu efni sé farið hóflega í sakirnar í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og mér finnst, að sá meðalvegur, sem farinn er í þessu frv.. sé hin rétta lausn málsins.

Það er rétt, sem menn hafa haldið fram fyrr og síðar, að það er ekki tekinn réttur af neinum með þessu frv., þó að till. verði samþ. En ég tel ástæðu til þess að veita aukin réttindi þessum mönnum, sem ég hef nefnt. Og ef þessir eldri formenn vilja svo fá full réttindi, bæði til innanlandssiglinga og til þess að sigla til annarra landa, verða þeir að fara á þessi námsskeið. En það ekki nema sjálfsagt, því að þá er hægt að færa glögg rök fyrir því, að þá þurfi þeir á meiri þekkingu að halda til þess að ráðast í slíkar siglingar. Og ég vona, að sem allra flestir þessara eldri formanna færu á slík námsskeið og fengju sér þessi fullu réttindi. En mér finnst ástæðulaust að amast við því, að þeir, sem hafa fengið þessa miklu reynslu, geti fengið réttindi til þess að stjórna bátum við strendur landsins við fiskveiðar án þess að setjast á skólabekk á ný. Mér finnst, að fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem hafa beitt sér fyrir þessu máli af miklum dugnaði, ættu að sætta sig við þetta frv., eins og það er. Stefna þeirra er sú, sem verður til frambúðar, en hér er aðeins verið að fara fram á undanþágu fyrir þá eldri menn, sem unnið hafa að þessu starfi í mörg ár, en hverfa smám saman úr hópnum. En svo koma þeir, sem hafa fengið þessa fullkomnu bóklegu menntun, og taka við.

Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta. Ég vil ekki tefja þetta mál að neinu leyti, því að ég veit, að mikil nauðsyn mun vera á því, að það nái framgangi, svo að sú nýja skipun á menntun sjómanna geti komizt í kring, um leið og þetta veglega hús er að verða tilbúið, sem til þeirra hluta er ætlað.