01.02.1945
Neðri deild: 119. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (4136)

24. mál, atvinna við siglingar

Sigurður Kristjánsson:

Mér hafa brugðizt vonir um, að ekki yrðu miklar umr. um þetta mál. Þess vegna verð ég að endurtaka það í fám orðum, að frv. var ekki ágreiningsmál milli meiraprófsmanna og minnaprófs, heldur gengið frá því með samkomulagi aðila, og það var samið af skólastjóra Stýrimannaskólans, sem var hlutiaus aðili og svo greindur, skyldurækinn og einarður maður, að hann verður ekki vændur um annað en að hann hafi viljað fara þarna þá miðlunarleið, sem hann taldi öllum fyrir beztu. Þess vegna er brtt. flutt til að hindra skemmdir á frv. Ég hef talað við marga minnaprófsmenn, sem óska þess eins, að frv. verði flýtt, svo að þeim gefist tækifæri til að taka meira prófið. en óska ekki eftir, að undanþága sé gerð sín vegna. Og munu þeir, sem svo hugsa, miklu fleiri en hinir, sem aðeins eru fáir menn í rauninni og vilja fá skilyrði til mikilla hagsmuna án þess að hafa neitt fyrir því. Ágreiningurinn kom upp, þegar þeir höfðu á þann hátt, sem hv. 2. landsk. nefndi, náð sér í ötula talsmenn hér í þinginu. Hér hafa þeir dregið fyrir með botnvörpu og aflað dálítið.

Hæstv. atvmrh. komst svo að orði, að með þessari brtt. vildum við bola ýmsum færustu fiskiskipstjórunum burt af flotanum. Það fannst mér nokkuð frekt til orða tekið og ekki alls kostar samhljóða sannleikanum. Ekki eru tekin réttindi af neinum manni. Minnaprófsmenn halda réttinum til að fara með skip allt upp í 75 rúmlestir. Það, sem hann meinti, var, að vegna þess. að skipin verða stærri en tíðkazt hefur, geti þessir menn ekki próflaust stjórnað skipi við sömu veiðar og áður. Það er rétt, ef Íslendingar halda áfram að stækka skip, sem t.d. eru til línuveiða ætluð, bara til þess að hafa þau stór. Hitt er svo annað, hvaða vit sé í þeirri stefnu. Ég held, ef farið er til þeirra, sem eiga að bera fjárhagsábyrgð skipanna, að þeir álíti þau ættu að vera miklum mun minni, kostnaðar vegna verði ekki hægt að gera þau út svona stór, nema á síldveiðar. Vafasamt er að hækka réttindamarkið vegna þessarar stundartízku einnar saman.

Hæstv. ráðh. sagði um prófin, að þau virtust eiga að verða til málamynda. Ég hef talað við skólastjóra Stýrimannaskólans um þau, og áleit hann fjögurra mánaða námsskeið mundu duga flestum skipstjórum til að ná prófinu. En hitt er fjarstæða, að hann hugsi um það sem málamyndapróf. Kennslu verður ekki hagað eins og fyrir unglinga, heldur reynt á allan hátt að kenna við hæfi manna, sem komnir eru af venjulegum skólaaldri. Ráðh. sagði, að ríkisstj. mundi verða að veita heimildarlausar undanþágur frá l., ef brtt. yrði samþ. En til hvers væri að veita manni undanþágu, ef enginn fæst til að gera út skip undir hann né nokkur maður til að ráðast á skip hjá honum? Undanþágur í trássi við vilja sjómannastéttarinnar hafa lítið gildi. Veittar hafa verið undanþágur fyrir eina ferð, e.t.v. eina vertíð. Eðlilega hefur ríkisstj. gert þetta, veitt þessa undanþágu þvert ofan í l., til þess að forða atvinnuvegunum frá tjóni, eins og ráðh. gat um. að legið gæti við. En hann hefur fengið þessi meðmæli einmitt til þess að tryggja það, að þeim manni. sem valdur væri, væri trúandi fyrir slíkri ábyrgð. Og jafnframt fengi hann meðmæli frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands til þess að geta haft einhvern bakhjari, ef stj. væri kærð fyrir verknaðinn.

Mér skilst, að hæstv. ráðh. hafi í hyggju að veita mönnum réttindi ævarandi, sem þeir geta ekki fengið eftir l. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að það er skoðun manna, sem um þetta mál hafa fjallað, að það verði engin þörf fyrir undanþágur, hvorki lengri né skemmri tíma. Það er kunnugt, að fjöldi manna, sem hafa hið minna fiskimannapróf, bíður eftir því að fá að taka hið meira fiskimannapróf. Það eru ákaflega litlar líkur til þess, að það verði vöntun á mönnum með þessi próf, eftir að þessi l. hafa staðið í fimm ár. Þetta vil ég sérstaklega taka fram til þess að eyða þeim misskilningi, að hér sé verið að brjóta lög á mönnum eða bola þeim burt af fiskiflotanum. Annað, sem ég vildi benda á, er það, hversu mikill misskilningur það er, að þessi ákvæði, ef þau verða að l., neyði ríkisstj. út í aðra eins fjarstæðu og þá að veita mönnum réttindi, sem þeir geta ekki öðlazt að lögum.

Ég sé ekki hv. 2. landsk. hér, sem raunverulega var með allmikil mótmæli gegn þessari brtt. En ræða hans gekk að heita mátti öll í þá átt að halda því fram, að þekking og reynsla gætu ekki farið saman. Hann talaði sífellt um, að það væri verið að skipta á reynslu og bókþekking ætti að koma í staðinn. En þetta er alger misskilningur. Það er ætlazt til þess, að bæði þekking og reynsla séu fyrir hendi. Og eftir l. um siglingar er krafizt langs siglingatíma af mönnum, áður en þeir öðlast réttindi til að fara með skip. Hversu há próf í bóklegri þekkingu sem þeir hafa, geta þeir ekki á bóklegri þekkingu einungis fengið skipstjórnarréttindi. Þeir verða einnig að hafa reynslu.

Ég held, að það sé ekki ástæða fyrir mig að segja neitt til andmæla því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði. Hann gerði svipaða grein fyrir þessu máli nú og þegar frv. var til umr. í fyrra skiptið, og andsvörin, sem þá komu fram, eru í sama gildi nú og þau voru þá. Hann fór hóflega í þetta mál. En ég vil að lokum vara þessa hv. d. alvarlega við því að minnka kröfurnar um þekkingu og reynslu við jafnábyrgðarmikið starf og það er að vera skipstjóri á fiskiskipi hér við land, eins og þeim siglingum er háttað. Ég vil enn fremur vekja athygli d. á því, að þessi undanþága er aðeins bundin við siglingar innan lands. Ég skil ekki, að nokkur maður hafi gagn af því að stjórna skipi, ef hann má ekkert fara nema rétt í kringum landið, því að sé skipið stórt, er það sjálfsagt ætlað til utanlandssiglinga.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, áður en ég lýk máli mínu, að hann hagi málsmeðferð þannig, að sem flestir dm. geti verið viðstaddir, svo að áreiðanlegt sé, að ótvíræður vilji d. komi fram.