19.02.1945
Neðri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (4144)

24. mál, atvinna við siglingar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að rifja mikið upp forsögu þessa máls. Það er búið að ræða það svo mikið, að ég held, að þess gerist ekki þörf. Ég vil aðeins skýra frá því, ef það kynni að vera fyrnt, að málið var upphaflega flutt af okkur, sem erum nú flm. að þessari brtt., sem nú er hér fram komin á þskj. 1147, að viðbættum varamanni, sem kom inn í n. í staðinn fyrir hv. 4. þm. Reykv. Þessi flutningur okkar kom upphaflega til af því. að brýn þörf var á að breyta til um rétt við siglingar, og það var komið samkomulag, eftir því sem við bezt vissum, milli þeirra manna, sem þar eiga réttinda að gæta, og í öðru lagi var það samþ. af skólastjóra Stýrimannaskólans, sem mest hefur um þessi mál að segja. Nú vissum við ekki, að um þetta gæti orðið ágreiningur, fyrr en nú síðla þings, að þessi ágreiningur rís upp milli þeirra manna, sem hafa hið meira og hið minna siglingapróf. Út af þessum ágreiningi komst inn breyt. í Ed. á þann hátt að veita undanþágu mönnum, sem náð hafa vissu aldurstakmarki, frá l. að öðru leyti. Þetta hefur okkur virzt vera nokkur afturför frá þeim kröfum, sem gerðar hafa verið um öryggi við siglíngar, og þegar við erum að ljúka smiði sjómannaskólans, sem kostar nokkrar millj. króna, þá finnst manni það ekki vera vel samrýmanlegt, að á sama tíma séu mönnum veitt aukin réttindi og aukin ábyrgð án aukinnar þekkingar. En þetta mál er þannig, að nauðsynlegt er að fá þar samkomulag. Það er, eins og við vitum, að þegar um sérstök hagsmunamál og sérréttindamál er að ræða, þá eru þau sótt af nokkuð miklu kappi.

Við flm. frv. ætlum því að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til að þetta mál megi ljúkast með samkomulagi, en þó gætt þess öryggis, sem krefjast verður við siglingar. Við höfum því, meiri hl. sjútvn. þessarar d., flutt brtt. í þá átt að fella niður þessa undanþágu, sem sett var inn í frv. í Ed. Vonum við, að ágreiningslítið muni verða um málið, ef í stað brtt., sem er á þskj. 1012 og er hin upphaflega brtt., yrði samþ. brtt. á þskj. 1147, sem nýlega var verið að útbýta í d. og nú hafa verið samþ. afbrigði fyrir. Hún er á þá leið, að réttindi hinna svokölluðu minnaprófsmanna, sem nú eru miðuð við 75 rúmlesta skip sem hámark, færist upp í 85 rúmlesta skip með svo nokkrum öðrum skilyrðum. Þetta er sérstaklega miðað við það, svo sem kunnugt er, að nú eru í smíðum allmargir bátar, sem eru sumpart ætlaðir mönnum, er hafa ekki réttindi til að stjórna stærri bátum en 75 rúmlesta. Þessir bátar eru stærri en því nemur eða 80 og jafnvel allt upp í 85 rúmlestir. Þetta eru sérstaklega hinir svokölluðu Svíþjóðarbátar. Með því að samþ. þessa brtt. á þskj. 1147 er komin brú fyrir þessa menn, og frá sjónarmiði skólastjóra Stýrimannaskólans og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands mun till. einnig verða viðunanleg. Ég skal taka sérstaklega fram, að mál þetta hefur verið sent skólastjóra Stýrimannaskólans, sem mest hefur um þessi mál hugsað og hefur allra manna mesta ábyrgð á kunnáttu farmanna og fiskimanna. Hefur hann í bréfi, dags. 17. þ. m., svarað mjög greinilega. Ég ætla ekki að lesa það bréf hér, en þar leggst hann mjög alvarlega gegn því að veita þá undanþágu, sem komst inn í frv. í Ed., og telur, að það sé ósamrýmanlegt því öryggi. sem krefjast verði á sjó. Einnig er hann ósammála því, að slík undanþága. verði veitt tímabundið, því að þá muni sömu. menn krefjast með nokkrum rétti að fá framlengingu á sinni undanþágu. Hins vegar telur hann, án þess að um nokkra verulega hættu geti verið að ræða, að óhætt sé að ganga til móts við minnaprófsmenn, eins og hér er greint í brtt., þannig að réttur þeirra hækki um það, að þeir hafi rétt til að stýra 10 rúmlesta stærri skipum en lög mæla nú fyrir.

Ég geri ekki ráð fyrir, að um þetta þurfi að verða miklar deilur, af því að nú virðast allir fá nokkuð af því, sem þeir hafa krafizt, en málið er þannig vaxið, að það verður að leysast. Það mundi valda stórkostlegum vandræðum, ef málið yrði ekki leyst nú á þessu þingi, m.a. sökum þess, að það þurfa að koma í kjölfar þess breyt. á öðrum l., sem verða að fást með afbrigðum, helzt á einum eða tveim dögum, en það kemur ekki til þess, nema þessu máli verði strax lokið.

Einnig vil ég taka fram, að ef ekki verður gert út um þetta mál á þessu þingi, þá sést ekki annað en að annað tveggja verði að gera, beinlínis að brjóta l. og veita undanþágur, sem þá yrði kært yfir og kannske gerð alvarleg uppreisn á móti, eða þá að ýmis skip, sem eru yfir 75 rúmlestir að stærð, yrðu skipstjóralaus.

Ég vil því alvarlega fara fram á það við hv. þdm., að þeir ljái þessari miðlun fylgi til að afstýra vandræðum.