20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (4160)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Eiríkur Einarsson:

Það er fjarri mér að ætla að ræða þetta frv. og því síður, þar sem það er flutt af heilli og sterkbyggðri n. í þessari d. og ræðir um slíka nauðsyn, sem ég geri ráð fyrir, að sé fyrir hendi í samræmi við efni frv. En jafnframt því, sem ég mæli mjög ákveðið með þessari framkvæmd, sem frv. mælir um, þá vil ég ekki láta þess ógetið, að fyrir mér vakir það, um leið og ég játa húsnæðisþörf ríkisins og stofnana þess og aðkallandi nauðsyn, að það er ekki takmarkalaust fé fyrir hendi til að bæta úr húsnæðisþörf hins opinbera á ýmsum sviðum. Og þá er skylt, að menn geri sér grein fyrir, á hverju skuli byrja af því, sem nauðsynlegast er, ef fé er takmarkað. Og þó að ég álíti mikla nauðsyn á að byggja yfir Hæstarétt og aðrar merkar stofnanir eins og stjórnarráðið sjálft, þá er annað fyrir hendi. sem ég álít, að kalli enn þá meira að. Ég meina, að heilbrigðismálin í landinu, nauðsyn hinna þjáðu, eigi að setja í nr. 1, en aðrar nauðsynjar í nr. 2. Þetta þarf svo ekki frekari skýringa.