20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (4161)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Hermann Jónasson:

Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. verði samþ. Það er sjálfsagt til meiri hluti fyrir því hér á þinginu að taka þessa stefnu upp í byggingarmálum ríkisins. En ég vil taka það fram, um leið og þetta frv. verður afgreitt, að ég tel þetta ekki rétta stefnu. Það var kosin n. fyrir, ég held, tveim árum, til þess að undirbúa byggingar ríkisins við Lækjargötu. Það ætti að vera Alþt. 1944. B. (63. Löggjafarþingi vorkunnarlaust fyrir þá. n. að hafa lokið undirbúningi að þessu, svo að hægt væri að byrja að byggja við Lækjargötuna. Það er vitað mál, að þótt byggt verði við Arnarhvol, þá verður það ófullnægjandi húsnæði fyrir skrifstofur ríkisins. Eins og ég gat hér um daginn í umr. um annað mál, er ástandið þannig nú, að skrifstofur ríkisins er u hér og þar um bæinn, svo að það er ekki á færi annarra en gagnkunnugra manna að finna þær. Og nú er verið að taka húsnæði á leigu í tveim húsum við — Tjarnargötuna fyrir skrifstofur ríkisins. Þær eru nú þegar við Fríkirkjuveg, uppi í Arnarhvoli. í gamla stjórnarráðshúsinu og í kumbaldanum, sem stendur á lóðinni við Lækjargötu og Amtmannsstíg, og sjálfsagt miklu víðar. Það, sem á að gera, er að byggja myndarlegt hús við Lækjargötu, þá mundi það borga sig og margborga sig. Auk þess væri það afar mikið hagkvæmisatriði að hafa allar skrifstofurnar á sama stað. Annars er það einkennilegt, að ekki skuli vera búið að ganga frá teikningum og öðrum undirbúningi, þar sem 2 ár eru liðin síðan n. var kosin til að hafa þessi mál með höndum. Þarna við Lækjargötuna á að byggja. Gamla stjórnarráðsbyggingin á að hverfa, það er ekki hægt að láta hana standa, þótt þetta sé gömul bygging. Það má byrja að byggja við hinn enda götunnar og nota gamla stjórnarráðshúsið á meðan. Menn verða að athuga það, að byggingin við Arnarhvol verður engin bráðabirgðabygging, hún mun kosta eins mikið og bygging við Lækjargötu. Þetta verður enginn kumbaldi, sem gengið verður frá á óvandaðri hátt en gert er yfirleitt. Ef svo á að innrétta bygginguna fyrir Hæstarétt. þá er það geysilegur tilkostnaður, þar sem húsnæðið verður fyrst innréttað sem skrifstofupláss. Það er því ekki eins og þetta húsnæði verði ónýtt, þar sem hæstiréttur á að fá það síðar meir, en þetta er bara mjög kostnaðarsöm tilhögun. Og þetta er því röng stefna í málinu. Þess má líka geta, að þessi bráðabirgðaráðstöfun verður sennilega til þess að draga á langinn, að byggt verði á lóðinni við Lækjargötu, en það hefur dregizt of lengi. Ég vil skjóta því til þeirra manna, sem standa að þessu máli, hvort ekki sé hægt að taka málið upp til athugunar við ríkisstjórnina með það fyrir augum, að byggt verði á lóðinni við Lækjargötu. Það er alvarlegur misskilningur, sem er allt of mikið ríkjandi í þessum bæ, að allar lóðir séu byggðar í miðbænum. Miðbærinn má heita óbyggður. Það eru nokkur hús hér við Austurvöll, sem munu standa til frambúðar, hitt eru hús, sem munu hverfa og eiga að hverfa sem fyrst. Ríkið á nú að byrja að byggja á lóðinni við Lækjargötu, fyrst og fremst af þeim ástæðum, sem ég hef rakið hér á undan.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vildi aðeins, að þessi skoðun kæmi fram, þótt ég búist ekki við, að framgangi málsins verði afstýrt, því miður.