20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (4162)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Það mál, sem hér um ræðir, er náttúrlega eilíft álitamál. Ég vil geta þess, eins og hv. þm. Str. minntist á, að fyrir tveim árum var skipuð n. til að athuga þessi mál, og hafði ég þann heiður að vera form. hennar. Hún hélt nokkra fundi og lét gera áætlun um það húsnæði, sem stjórnarráðið hefur nú, og áætlun um, hvað það mundi þurfa. Það er langt síðan þetta var gert, og er ég farinn að gleyma því. En n. hætti störfum, án þess að skila formlegu áliti. Hún var alltaf að bíða eftir að fá að vita, á hverju ætti að byrja og á hvaða lóð ætti að byggja. Þótt ríkið hafi tryggt sér lóðir frá Hverfisgötu og allt suður að Amtmannsstíg og hafi menntaskólalóðina og hús við Bókhlöðustíginn. þá er ekki enn búið að segja neitt um það. hvernig byggja skuli á þessum lóðum. Það er mikill ágreiningur um það, hvar húsin skuli standa. Sumir vilja, að gerð verði megingata í framhaldi af Kirkjustræti upp Amtmannsstíg og út í lóðirnar báðum megin upp á Hverfisgötu. Aðrir vilja láta þessar lóðir halda sér heilar suður fyrir Bókhlöðustíg og setja aðalgötuna nokkru innar en Bókhlöðustígur er nú. Það er svo mikill reginmunur á því, hvernig þessu er hagað til, að meðan ekki er búið að ákveða neitt um það, er ekki hægt að gera áætlun um önnur atriði. Ég veit ekki, hve fljótt þessi mál verða leyst. Eftir því sem gengið hefur með þessa skipulagningu, má búast við, að á því geti orðið talsverð bið. En þegar búið væri að komast að niðurstöðu um þetta. er eftir að gera teikningar. Þetta er mikið hús og ekki vít að leggja út í byggingu á svona húsi, nema fram hafi farið gagngerð rannsókn á því, hvernig húsið skuli vera, hverju á að koma fyrir í því, hvar það á að standa, og svo útlitið. Þetta hús á að setja svip á miðbæinn. Þar kemur til greina að efna til samkeppni bæði innanlands og erlendis. Það þekkist víða í löndum, sem hafa fleiri húsameistara en við. Og ef málið er undirbúið á mjög góðan hátt með samkeppni fleiri þjóða, þá má búast við, að mörg ár líði, þangað til þetta hús er komið upp. Og það er ómögulegt að byrja að byggja það, fyrr en búið er að komast niður á, hvar húsið á að standa. Það má vera öllum ljóst, að þetta er svo veigamikið mál, að ekki dugar að hrinda því af stað í flýti, — það verður að undirbúast vel.

Ég er hv. þm. Str. sammála um það, að ekki dugar að byggja bráðabirgðahúsnæði við Arnarhvol, sem hróflað er upp í því augnamiði að rífa aftur. Ég hef ekki heldur skilið orðið bráðabirgðahúsnæði þannig, heldur að um væri að ræða bráðabirgðahúsnæði fyrir stjórnarráðið, og það yrði ekki ónýtt, þótt stjórnarráðið hætti að vera þar. Og þótt þarna væri salur, sem ætlaður er sem dómssalur síðar, þá ætti hann ekki að þurfa að vera mjög frábrugðinn öðrum sölum að öðru leyti en að innréttingu til. Þar þurfa að vera áhorfendastúkur, sæti fyrir dómara og vitnastúkur og fleira þess háttar. En salurinn sjálfur ætti að geta verið nothæfur fyrir margt fleira.

Ég held því, að nauðsynlegt sé að samþ. þetta frv. Og ég er alveg á sama máli og hv. þm. Str., að þessi bygging á ekki að tefja fyrir því, að ný og fullkomin bygging verði reist. Enn þá er ekki vitað, hvað stríðið muni standa lengi, menn vona, að því ljúki innan mjög langs tíma. En það er mjög óheppilegt, eins og ástandið er nú í heiminum, að byrja á þessari stórbyggingu nú. Byggingarvörur eru yfirleitt verri og lélegri að öllu leyti nú. Og menn spá því, að upp úr stríðinu muni koma ákaflega merkilegar nýjungar einmitt í byggingartækni, sem sjálfsagt væri að taka til notkunar í slíkri ríkisborg sem þarna á að rísa af grunni. Það á fyrst og fremst að gæta þess að vanda til þessarar byggingar af fremsta megni.