20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (4166)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég veit varla, hvort sumum hv. þm. er ljóst, hvað hér er á ferðinni, og á ég þar við hv. þm. Str. og hv. 2. þm. Árn. Það lítur helzt út fyrir, að þeim finnist, að ríkisstj. sé að slá um sig og ætli að fara að koma upp stórkostlegum skrifstofubyggingum til þess að berast á. En það er öðru nær en svo sé, því að sannleikurinn er sá, að það húsnæði, sem stjórnarskrifstofurnar ráða yfir, er svo ófullnægjandi, að ekki er við unandi. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt um, eru stjórnarskrifstofurnar dreifðar út um allan bæ. Fyrst og fremst eru tvær stjórnarbyggingar í bænum: stjórnarráðið og Arnarhvoll, Viðskiptaráðið uppi á Skólavörðustíg, stjórnardeildir við Fríkirkjuveg og vestur í Garðastræti, stofnanir í Tjarnargötu og við Amtmannsstíg, Tóbakseinkasalan og Áfengisverzlunin sitt á hvorum stað, og svo má lengi telja. Geta allir séð, hve hentugra fyrirkomulag það væri að hafa samstarf milli stjórnarskrifstofanna, því að þar þarf oft að vera náið samband á milli. Það versta er þó, að sumar af skrifstofunum hafa svo ófullkomið húsnæði og slæm vinnuskilyrði, að ekki er unnt fyrir þá menn, sem vinna á skrifstofunum, að inna af hendi þau störf, sem þeim eru ætluð. Á skrifstofu vegamálastjóra er ástandið þannig, að 4 eða 5 menn vinna saman í einu litlu herbergi. Þetta er ósköp svipað eins og á meðan dómsmrn. hafði minna húsnæði: Þá höfðu fulltrúarnir þar ekkert annað skrifborð en gluggakistuna, og ef maður þurfti að hafa tal af skrifstofustjóra, var ekki annað fyrir mann að gera en að lesa af penna þeirra, sem voru að reyna að vinna eitthvað þar inni. En eins og mönnum er kunnugt um, er þetta ríkisstórbákn stöðugt að færast út ár frá ári. Ekki er langt síðan lögmannsembættinu var skipt í tvennt, í embætti borgardómara og borgarfógeta, og afleiðingin varð sú, að hvor skrifstofa þurfti að fá aukið húsnæði. Hér er einnig nýstofnað Nýbyggingarráð, sem eru ætluð mikil og margvísleg störf, og er óhjákvæmilegt að ætla því allmikið húsnæði. Hefur orðið að neyðast til að taka á leigu mjög dýrt húsnæði til þess að koma því einhvers staðar inn. Það er því ekkert annað En brýn nauðsyn. sem knýr ríkisstj. til þess að bera fram þetta frv., sem heimilar henni að koma upp skrifstofubyggingu áfastri við Arnarhvol. — Hv. þm. Str. sagði, að þetta væri ekki rétta leiðin. Það, sem gera ætti, væri að koma upp stórbyggingu, sem hann ætlast til, að byggð yrði milli Bankastrætis og Amtmannsstígs. Hv. 1. þm. Reykv. mun nú þegar hafa svarað þessu og skýrt frá, hvernig þar horfði við, og hlýtur það að liggja í augum uppi, að undirbúningur þess skipulags og byggingin sjálf mundi taka svo langan tíma, að ekki væri unnt að bíða eftir því. Því er ekki að neita, að það eru mikil vandkvæði á því að þurfa að ráðast í stórbyggingar í þeirri dýrtíð, sem nú ríkir, en þegar svo er komið, að ríkið verður að taka á leigu mjög dýrt húsnæði í nýbyggðum húsum til þess að geta komið stofnunum sínum einhvers staðar niður, þá er ekki betra að sjá í það við ríkið, að það komi sjálft upp byggingu fyrir skrifstofur sínar, þrátt fyrir háan byggingarkostnað.

Það má að sjálfsögðu deila um það, hvort hægt væri að láta Hæstarétt vera í nokkur ár enn í því húsnæði, sem hann hefur haft um aldarfjórðungs skeið. Það má segja, að húsnæðið sé ekki verra en það hefur verið. Hitt er játað af öllum, sem nokkuð hafa um þetta mál hugsað, að það er hrein vanvirða fyrir þjóðina að hafa Hæstarétt í þessu húsnæði. Mér sýnist þess vegna, ef unnt er að koma því þannig fyrir, að Hæstiréttur fái bráðabirgðahúsnæði í þessari fyrirhuguðu skrifstofubyggingu, þá sé ekkert út á það að setja, þótt heimilt sé að gera það. Ég vildi fyrir mitt leyti ekki fórna miklum fjármunum til þess og vil, að byggingunni yrði hagað þannig, ef um bráðabirgðahúsnæði yrði þar að ræða fyrir Hæstarétt, að hún bæti komið að fullum notum án stórkostlegra breytinga, þótt Hæstiréttur flytti þaðan aftur. Hitt er alveg víst, að þótt byggð yrði allstór bygging við Arnarhvol, þá verða full not fyrir hana, jafnvel þótt síðar yrði reist stórhýsi á lóð ríkisins milli Bankastrætis og Amtmannsstígs. Ég geri ráð fyrir því, að stjórnardeildirnar allar verði fluttar í það hús við Lindargötu, og sennilega yrði því hagað svo, að Hæstarétti yrði fengið húsnæði í þessari byggingu, en fyrir utan stjórnardeildirnar eru margar stofnanir, sem ríkið þarf að sjá fyrir húsnæði, sem ekki mun verða rúm fyrir í þessari byggingu. Ég get því ekki séð, að það sé neinn skaði skeður, þótt byggt verði við Arnarhvol, því að það verða áreiðanlega not fyrir þá viðbyggingu. Ef menn hugsa um það mikla húsnæði, sem ríkið hefur skrifstofur sínar í úti um allan bæ og hversu ófullnægjandi margar þeirra eru, munu menn komast að raun um það, að það munu verða not fyrir allmikið húsnæði til viðbótar, þótt reist verði stjórnarbygging á lóð ríkisins milli Bankastrætis og Amtmannsstígs.

Um brtt. hv. 2. þm. Árn. er það að segja, að það er sama sem að vísa þessu máli frá, ef brtt. hans verður samþ., því að það má lengi um það deila, hvenær byggingu sjúkraskýla og heilbrigðismálunum er komið í það horf, sem menn eru ánægðir með, og vitanlega dregst það í fjöldamörg ár. —Mér sýnist, að það verði að líta á þetta mál frá tveim sjónarmiðum. Fyrst og fremst frá því sjónarmiði, að ríkið verður að láta þeim stofnunum, sem því tilheyra, í té viðunanlegt húsnæði, og hins vegar frá því sjónarmiði, hvort hagkvæmara og ódýrara verður fyrir ríkið að koma sér sjálft upp skrifstofubyggingu eða að leigja húsnæði fyrir stofnanir sínar úti um bæinn, fyrir þá húsaleigu, sem óhjákvæmilega er borguð nú. Ef menn vilja athuga þetta, geri ég ráð fyrir, að flestir muni komast að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir háan byggingarkostnað verði hagkvæmara að ráðast í byggingu, sem ríkið sjálft eignast, heldur en að halda áfram að leigja víðs vegar úti um bæ, ekki hvað sízt, þegar athugað er, hve vinna þeirra manna, sem starfa hjá ríkinu, notast miklu betur, ef skrifstofurnar eru í sömu byggingu og geta þannig haft náið samband sín á milli.