20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (4167)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Eiríkur Einarsson:

Ég tók eftir því í hinni glöggu og hógværu ræðu hæstv. fjmrh., að honum virtist, að hv. þm. Str. og ég værum á þeirri skoðun, að hæstv. ríkisstj. væri að slá um sig með því, sem þetta frv. fer fram á. Ég skoða, að því sé öðruvísi farið, því að aðalinnihaldið í ræðu hv. þm. Str, var einmitt það, — ef ég tók rétt eftir —, að hann taldi álitamál, hvernig ætti að haga þessum framkvæmdum og hvar ætti að byggja, svo að ég álít, að hann sé alls ekki frekar á móti því að byggja yfir Hæstarétt og ríkisskrifstofurnar heldur en hæstv. ríkisstj. sjálf og aðrir slíkir. Það er aðeins um að ræða, hvernig eigi að haga byggingunni. — Ég játa hins vegar á mig það brot, að ég gerði það að álitamáli, hvort við ættum að byrja á þessum framkvæmdum eða öðrum, sem að mínni skoðun eru enn nauðsynlegri, og það er einmitt það, sem ber á milli mín og þeirra, sem eru með þessu frv. — Ég held, að þeir, sem hér hafa tekið til máls, sbr. hv. þm. Str. og hv. þm. S.-Þ., sem ekki eru taldir sérlega jákvæðir stjórnarfylgifiskar, hafi báðir verið á sama máli um það, að það sé höfuðnauðsyn, að byggt yrði yfir ríkisstj. og Hæstarétt, þótt þá greindi á um, hvar eigi að byggja, og lítur frekar út fyrir, að ég sé einn á báti með mína skoðun. Ég tel hins vegar, að hér sé höfuðnauðsynin í sambandi við framkvæmdir heilbrigðismálanna og þau eigi að ganga fyrir öllum öðrum framkvæmdum. — Hæstv. fjmrh. sagði, að hér í Reykjavík væri svo þröngt á sumum skrifstofunum, að t.d. hjá vegamálastjóra yrðu 4 eða 5 menn að vinna saman á mjög þröngri skrifstofu. Þetta er alveg rétt, og úr þessu þarf að bæta. En ég verð að segja það, að þegar komið er með 4 eða 5 menn úti í strjálbýlinu, sem þurfa að leita til héraðslæknis síns, en fá hvergi inni, þá sé þar ekki síður þörf til úrbóta. Svona er heilbrigðismálunum hér á Íslandi komið — og ekki lengra.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ef till. mín yrði samþ., væri það hið sama og að vísa málinu frá. Ég get ekki verið hæstv. fjmrh. sammála um þetta atriði. Ég álít, að því minna, sem vantar upp á það, að því sé fullnægt, að heilbrigðismál þjóðarinnar komist í sæmilegt horf, því skemur þarf fullnæging þessa frv. að bíða.

Hv. þm. S.-Þ. talaði af mikilli tilfinningu um það húsnæði, sem Hæstiréttur hefur haft aðsetur sitt í, og taldi það heyra undir heilbrigðismálin, að honum yrði fenginn viðunanlegri samastaður. Er þetta allt rétt og ekkert við það að athuga. Einnig fór hann orðum um þetta tvíbýli, sem óneitanlega hvort nokkuð spaugilega út, þar sem Hæstiréttur er annars vegar, en fangar landsins hins vegar, og finnst honum. að við eigum að sjá þessari virðulegu stofnun fyrir samboðnum verustað nú, þegar Ísland er orðið fullvalda ríki, sem er komið svo hátt. En frumbyggjarnir byrja á að ryðja veginn og hinum „primitívu“ undirstöðuatriðum; eins er það vissulega höfuðatriðið hér, að ríkisstj. vor sé skipuð ágætum ráðherrum og Hæstiréttur skipaður réttlátum mönnum, — síðan koma húsakynnin næst í röðinni.

Mér er alveg ljós sú nauðsyn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og felist á þau rök, sem komið hafa fram í því sambandi, en tel hins vegar, að meiri nauðsyn sé til að drepa fæti gegn drepsóttum og öllu slíku, og einmitt af þeim ástæðum ber ég fram þessa brtt. mína.