21.02.1945
Efri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (4171)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Þetta frv. er ekki nema að forminu til flutt af fjhn. d. Það er í raun og veru stjórnarfrv. Eins og stendur í grg. frv. áskilja einstakir nm. sér að hafa óbundnar hendur um einstakar brtt., sem fram kynnu að koma við frv. og málið í heild. Það er því ekki nema eðlilegt framhald af þessu, að ég hef leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., og ég segi ekkert um það á, augnablikinu, hvort ég muni endanlega fylgja þessu frv. eða ekki. Það fer sjálfsagt að einhverju leyti eftir því, hvernig fer um þá brtt., sem ég hef flutt.

Þetta frv. hefur inni að halda tvenns konar heimild til ríkisstj. Í 1. gr. er henni heimilað að byggja hér í Reykjavík fyrir skrifstofur ríkisins og stofnanir þess. Í 2. gr. er henni heimilað að taka lán til þessara framkvæmda. Ríkisstjórnir hafa nú áður fengið heimildir til að byggja hús hér í Reykjavík, og stundum hefur sú heimild verið notuð og stundum ekki. Það er því engin trygging fyrir því, að úr framkvæmdum verði, þótt slík heimild sé gefin með l. M.a. var með l. nr. 9 13. febr. 1943 heimilað, að byggt yrði eða keypt hús, þar sem þeir þm., sem eiga heima utan Reykjavíkur, gætu dvalizt, meðan þeir sætu á þingi. Það má sjá á þessu frv., að það var eindregin ætlan Alþ., að þetta hús yrði byggt, þótt lagaákvæðið væri orðað sem heimild til ríkisstj. Það stendur í l., að meðan þetta hús væri ekki byggt eða keypt, þá væri Ríkisstj. heimilað til bráðabirgða að leigja húsnæði handa þessum þm. Á þessu er það augljóst, að það var tilgangur Alþ. með þessari lagasetningu, að slíkt hús yrði byggt ellegar keypt eða þá í þriðja lagi, að einhver húseign ríkisins yrði tekin til þessara nota. En það er ekki einasta það, að fyrir liggi ein ályktun um þetta efni. Alþ. hefur ekki gefið viljayfirlýsingu einu sinni um það, að slíkur þingmannabústaður yrði byggður, heldur hefur það tvisvar sinnum gert það. Í fjárl. fyrir 1944 var sérstök heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að verja fé úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. Að vísu var þessi heimild á 22. gr. fjárl. ekki bein fjárveiting, en samt verður að líta á það sem viljayfirlýsingu Alþ. um þetta efni.

Nú fannst mér rétt að hreyfa þessu máli í sambandi við frv., sem hér liggur fyrir og er um aukið húsnæði í þarfir ríkisins og stofnana þess. Það er ekki hægt að neita því, að slíkur þm.- bústaður er í þágu stofnana ríkisins. Það er óþarfi að bera fram brtt. við 1. gr. frv. um að heimila ríkisstjórninni að byggja þetta hús, því að eins og ég hef getið um, er þessi heimild til. En hitt fannst mér rétt að bæta við 2. gr. frv. heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka einnig lán til þess að koma þessu húsnæði upp, nefnilega þingmannabústaðnum. Og brtt. á þskj: 1175 er um það.

Ég hef tvisvar sinnum áður gert grein fyrir þessu máli hér á Alþ. Í annað skiptið hér í hv. d. fyrir rúmum tveim árum, þegar ég flutti það frv., sem síðan varð að l. nr. 9 1943. Í hitt skiptið á Alþ. 1943, þegar ég flutti brtt. við fjárl. fyrir árið 1944 um það að heimila fé úr ríkissjóði til að byggja þetta húsnæði fyrir þm. utan Reykjavíkur. Þar sem engar kosningar hafa farið fram síðan og sömu menn eiga sæti á þingi og þá var, þá skal ég ekki fara langt út í málið nú, en vísa til þess, sem ég hef áður sagt um þetta mál. Þegar þetta frv. var hér til fyrstu umr., þá var haft á orði bæði af fjmrh. og einnig af frsm. fjhn., að sennilega yrði sparnaður fyrir ríkið að byggja þetta fyrirhugaða hús fyrir skrifstofur ríkisins í stað þess að leigja húsnæði fyrir þær úti um allan bæ. Ég get búizt við, að segja megi sama um þetta mál, sem ég ber fram. Það verður beinlinis sparnaður fyrir ríkissjóð, ef þessi brtt. verður samþ. Samkv. l. eiga þm. utan Reykjavíkur að fá frítt húsnæði. Alþ. og ríkisstj. hafa framkvæmt það lagaákvæði þannig að útvega þm. herbergi á hóteli, og allir vita, að hótelherbergi eru dýr. Ég veit ekki, hvað þetta hefur kostað undanfarið, en veit, að það er allmikil upphæð. Og býst ég ekki við, að það væri mikill útgjaldaauki að borga vexti og rekstrarkostnað af því húsnæði, sem ég fer hér fram á, að verði komið upp. Það er nú komið svo, að töluverður meiri hluti þm. er búsettur í Reykjavík, og ég veit náttúrlega ekki, hve mikinn skilning þeir hafa á aðstöðu utanbæjarþm., þótt ég skuli viðurkenna það, að í þau tvö skipti, sem þessu máli hefur verið hreyft hér og Alþ. hefur látið vilja sinn í ljós, þá hefur ekki borið á neinu skilningsleysi Reykjavíkurþm. Öllum ætti að vera það skiljanlegt, að það er orðið ákaflega miklum erfiðleikum bundið, að menn utan af landi eigi sæti á Alþ. Í fyrsta lagi er það nú vegna þess, að þm. utan af landi verða að fara frá einhverjum störfum og fá menn til að gegna þessum störfum fyrir sig. Þetta er afar mikill erfiðleiki, eins og þinghald hefur verið undanfarið, að það hefur staðið meiri hluta ársins. Þm. verða, á meðan þing situr, að bera ábyrgð á starfi úti á landi og kosta starfrækslu þess. Þetta er aðalerfiðleikinn, en ekki bætir það úr skák að vera á hrakhólum með það, hvar maður getur fengið inni, þegar til bæjarins kemur. Það kann vel að vera, að ýmsum finnist vera vel búið að þessum þm. með því að vista þá í því hóteli landsins, sem talið er fremsta hótel þess. Það er síður en svo, að ég ætli að fara að lasta þetta hótel, ég ætla ekkert um það að ræða, hvernig stofnun það er sem hótel. En lítill skilningur er það, ef menn ekki skilja, að þótt þetta geti verið ágætt fyrir ferðamenn, sem dveljast þar í nokkrar nætur og daga sem gestir, þá þarf það ekki að vera góð aðstaða fyrir menn, sem þurfa að vera við starf hér meir en helming ársins. Ég ætla ég þurfi ekki að lýsa nánar, hvernig sú aðstaða er, t.d. hvað vinnuskilyrði snertir, þegar þess er gætt, að vinnuskilyrði hér á Alþ. eru þannig, að ég held, að allir alþm. kannist við, að þau eru næsta léleg. Þm. þurfa því að hafa vinnuskilyrði þar, sem þeir búa. Eins og ég gat um áðan, eru Reykvíkingar í miklum meiri hluta á Alþ. En ég gat einnig um það, að þeir hafa tvisvar sinnum sýnt skilning á þessu máli. Ég man ekki eftir nokkurri andstöðu gegn þessu máli í þau tvö skipti, sem það hefur verið tekið hér fyrir áður. Ég vænti því, að þessi brtt. mín fái góðar undirtektir, því að hún er ekkert annað en framhald af því, sem Alþ, hefur áður gert í þessu máli. Þetta yrði þá þriðja viljayfirlýsing Alþ. um þetta mál. Og ég vona fastlega, ef þetta yrði samþ., þá léti hæstv. ríkisstj. ekki undir höfuð leggjast að koma þessum bústað upp nú í sumar, þannig að hann gæti tekið til starfa, þegar næsta reglulegt Alþ. kæmi saman 1. okt.

Ég er búinn að sitja hér á Alþ. yfir 20 ár og er orðinn aldraður maður, og eru litlar líkur til þess, þó að þetta kæmist í framkvæmd, að ég mundi njóta þess, nema þá mjög takmarkaðan tíma. Ég býst því við, að menn skilji það, að ég er ekki að berjast fyrir þessu máli hér ár eftir ár sjálfs mín vegna, heldur lít á þetta sem nauðsynjamál, hvort sem ég á nokkurn tíma eftir að líta þangað inn eða ekki, því að það skiptir vitanlega ekki máli um einstaka menn. Hins vegar hef ég meiri þekkingu á þessu máli en menn úr Reykjavík, vegna þess að ég hef að baki 20 ára þingsetu og alltaf verið búsettur utanbæjar, og af þeim ástæðum hef ég viljað beita mér fyrir þessu. Það kann að vera sagt, að það sé dýrt að byggja núna, en mér hefur komið ýmislegt í hug í þessu sambandi. Ríkið á beinlínis hús hér í Reykjavík, fleiri en eitt, eftir því sem ég bezt veit, sem ég álít, að vel gætu komið til greina í þessu efni. Mér er kunnugt um, að hæstv. forsrh. býr ekki í þeim bústað, sem undanfarin ár hefur verið ætlaður forsrh., og kvað þetta hús nú vera notað eitthvað til veizluhalda. Mér finnst hins vegar, að það ætti eins vel við að nota Hótel Borg til veizluhalda, en taka þetta hús fyrir þingmannabústað. Að öðru leyti var frv. á döfinni hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum um að gera hæstv. ríkisstj, mögulegt að koma leigjendum út úr húsnæði, sem ríkið á. Heyrði ég, að það væri sérstaklega átt við eitt hús hér í bæ, sem ríkið á,, og álít ég, að það hús gæti vel komið til mála sem slíkur bústaður fyrir alþm., svo að ég er ekki viss um, ef haglega væri á þessu haldið, að það þyrfti að verða sérstaklega mikill kostnaður af þessu, þótt þessu yrði komið í kring. Þætti mér fróðlegt að heyra undirtektir hæstv. ríkisstj, um þetta atriði. þótt ég geti vel skilið, að hún geti ekki fullyrt neitt um það í augnablikinu, hvað hún myndi gera í þessu máli. Mér þætti samt talsvert undir því komið að heyra, hvort hún væri því mótfallin, að þessu væri bætt inn í frv., og ef svo yrði gert, hvort hún mundi ekki taka þetta mál til vinsamlegrar athugunar og einna helzt nú þegar á sumri komanda, eins og ég hef áður tekið fram.