28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (4194)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Styrjöldin hefur leitt yfir þjóðina mörg erfið viðfangsefni. Eitt hið erfiðasta af þeim er dýrtíðin og þau vandamál, sem af henni leiðir. Dýrtíð og verðbólga eru óumdeilanlegur ávöxtur styrjaldarinnar. Fyrir styrjöldina var þjóðin skuldug erlendis. Gjaldeyrir hennar hrökk naumast fyrir lífsnauðsynjum. Atvinna var hér af skornum skammti, svo að verkamenn margir hverjir höfðu tæplega nóg til að sjá sér og sínum farborða.

Eftir að styrjöldin brauzt út og erlent setulið kom hér, breyttist þetta fljótt. Setuliðið tók mikið af innlendum verkamönnum í þjónustu sína. Tekjur verkamanna hækkuðu, og afkoma þeirra batnaði. Í skjóli mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli var tímakaup verkamanna hækkað, ekki einu sinni, heldur oft þannig að nú er svo komið, að kaup verkamanna er margfalt, miðað við það, sem áður var. Það er vissulega gott, að verkamenn hafa bætt hag sinn, og það skal ekki harmað, þótt setuliðið hafi keypt innlent vinnuafl dýru verði. En þetta háa kaup hefur leitt til þess að gera innlendu framleiðsluna dýra og skapa innlendum atvinnuvegum mikla erfiðleika.

Bændur svöruðu kauphækkuninni á þann eina hátt, sem fært var, enda hefði landbúnaðarframleiðslan orðið að engu, ef verðlagsn. landbúnaðarafurða hefðu ekki skilið aðstöðu bændanna eftir hinar gífurlegu kauphækkanir.

Verkalýðsblöðin deildu fast á verðlagsn. landbúnaðarvara, eftir að þær höfðu sett verð á kjöt og mjólk í samræmi við kaupgjaldið. Verðlagsn. höfðu rétt hlut bænda og stuðlað að því, að þeir gætu þrátt fyrir mikinn tilkostnað framleitt matvæli fyrir þjóðina. Fulltrúar bænda vildu leysa deiluna um kaupgjaldið og afurðaverðið. Þess vegna var unnið að því á Alþingi 1943 að fá l. um sexmannan. samþ. Með störfum sexmannan. var fundinn réttur grundvöllur milli kaupgjalds og afurðaverðs. Fulltrúar bænda, verkamanna og annarra launþega urðu sammála um grundvöllinn. Þar með átti friður að vera tryggður í þessum málum. Sexmannan. staðfesti verðlagningu afurðanna frá haustinu 1942, þannig hækkaði hún kjöt til bænda um eina krónu kílógrammið og mjólkina 20–30 aura á lítrann.

Því hefur verið haldið fram, að kjötið hafi verið of hátt 1.942. Það verður ekki hjá því komizt að leiðrétta þann misskilning, sem virðist vera nokkuð almennur meðal bæjarmanna í þessu efni. Í umtali um þetta er gert ráð fyrir, að verð á kjöti 1942 hafi verið 6.40 kr. pr. kg í heildsölu, eins og það var verðlagt um haustið. En það hefur láðst að taka meðalverð á því kjöti, sem selt var það ár. Tveir þriðju af því kjöti, sem selt var árið 1942 í heildsölu, voru seldir á 3,60 kr. pr. kg, aðeins einn þriðji var seldur í sláturtíðinni og til ársloka fyrir kr. 6,40 kg. Meðalverð í heildsölu þetta ár verður því aðeins kr. 4,50. En það svarar til, að bændur hafi fengið kr. 3,80 fyrir kílógrammið að meðaltali. Er það mjög nálægt því, sem hagstofan telur, að þeim hafi borið, ef miðað er við grundvöll sexmannan. Allir, sem þekkja til landbúnaðarframleiðslu, sjá í hendi sér, að ekki er rétt að miða kjötverðið 1942 aðeins við það, sem seldist þrjá síðustu mánuði ársins, þar sem það var aðeins einn þriðji af heildarsölu ársins. Það er augljós skekkja, eins og það er vist, að bændur vinna að þessari framleiðslu allt árið.

Þótt sexmannan. hafi orðið sammála og grundvöllur lagður fyrir friðinn í verðlags- og kaupgjaldsmálum, tókst samt nokkrum óhappamönnum að spana verkamenn upp í verkfall og eyðileggja það samkomulag, sem gert hafði verið. Þessir óhappamenn komu dýrtíðarhjólinu enn af stað og knúðu fram kauphækkun, sem nam 16 af hundraði. Sú hækkun leiddi af sér samkvæmt l. hækkun á verði landbúnaðarafurða. Hefur hagstofan reiknað þá hækkun út, og nemur hún 9,4 af hundraði. Samkvæmt áliti sexmannan. bar bændum að fá fyrir s.l. ár sex krónur áttatíu og tvo aura fyrir kílógrammið af dilka- og geldfjárkjöti, þrjár krónur og fimmtíu aura fyrir hvert kílógramm af gærum, eina krónu tuttugu og þrjá aura fyrir mjólkurlítrann. En eftir nýju vísitölunni hafa bændur rétt til að fá nú 1,34 kr. fyrir mjóikurlítrann, 7,76 kr. fyrir kjötið, 2,80 kr. fyrir kílógrammið af gærum. Hafa gærurnar verið lækkaðar frá því, sem þær voru s.l. ár, en kjötið hækkað sem því nemur.

Réttur bænda til þess að fá þessar hækkanir er óvéfengjanlegur. En stjórnmálamennirnir, sem undanfarin ár hafa barizt fyrir hag bænda og munu gera það áfram, hafa gert sér ljóst, að eins og nú horfir er mjög erfitt að tryggja bændum það verð, sem þeir hafa fullan rétt til að fá. Því hefur frv. það, sem nú er til fyrstu umr., verið lagt fram hér á Alþingi. Samkvæmt því er lagt til, að bændur falli frá hækkuninni yfir næsta verðtímabil og sætti sig við sama verð og s.l. ár, en fái verðtryggingu fyrir útflutningsafurðunum.

Undanfarin ár hefur ríkissjóður varið miklu fé til þess að halda dýrtíðinni niðri. Það hefur verið gert af nauðsyn, til þess að útgerðin, frystihúsin og aðrir atvinnuvegir gætu starfað. Nú, þegar komið er að stríðslokum og sá tími nálgast, er fiskurinn fellur á erlendum markaði og enn meiri erfiðleikar steðja að atvinnuvegunum, kemur það ekki til greina; að ábyrgir stjórnmálamenn sleppi dýrtíðinni lausri og leiði hrun yfir allt atvinnulífið. Ég veit, að allir hugsandi menn vilja taka þann kostinn að forðast hrun, meðan auðið er. Ef hætt væri að greiða niður vörur innan lands, mundi vísitalan fara strax upp í 300–330 stig og halda áfram að hækka, unz krónan væri lítils eða einskis virði.

Þótt niðurgreiðslur á vörum innan lands geti ekki talizt lækning á sjálfri dýrtíðinni, verður þó ekki komizt hjá að halda þeim áfram. Þannig mun það verða, þangað til kaupgjald og annar tilkostnaður við atvinnureksturinn verður færður niður. Útflutningsverð sjávarafurða og landbúnaðarafurða þolir ekki hina raunverulegu dýrtíð, sem hér er. Eina raunhæfa lækningin á dýrtíðinni er því niðurfærsla á kaupgjaldi annars vegar og afurðaverði hins vegar. Þar sem launastéttirnar hafa ekki enn skilið þetta og bændur einir boðið lækkun, verður enn að halda niðurgreiðslunum áfram og á þann hátt gera atvinnuvegunum fært að starfa.

Menn mega ekki mögla, þótt þeim virðist mikið af þeim heimtað til þess að halda vísitölunni niðri. Við útgerðarmenn og aðra atvinnurekendur vil ég segja þetta: Ef hætt er að kaupa niður vísitöluna, verða opinberir skattar léttari en áður, en þótt það væri gert, er hagur atvinnurekenda verri en áður, því að tilkostnaður við atvinnureksturinn verður það mikill, að ekki verður kleift að halda rekstrinum áfram. Þér, sem eigið peninga, stynjið og berið yður illa yfir því að greiða skatta til að borga vísitöluna niður, en ef það verður ekki gert áfram, verða innieignir yðar, áður en langt liður, lítils virði. Þér ættuð því með góðu geði að leggja yðar skerf til, svo að eignir yðar megi sem lengst hafa fullt verðgildi. Verkamenn! Velferð yðar er undir því komin, að þér hafið trygga atvinnu. Yður ber því að sýna þegnskap eins og öðrum í þjóðfélaginu og gera ekki hærri kröfur til atvinnuveganna en þeir þola að standa undir. Stöðug vinna, trygg vinna, hjá heilbrigðu atvinnufyrirtæki er happadrýgri fyrir verkamennina en óstöðug vinna, þótt tímakaupið kunni að vera hátt.

Bændur hafa skilið, hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðarheildina að færa niður dýrtíðina. Því hefur búnaðarþing fyrir löngu boðið hlutfallslega lækkun á afurðaverði og kaupgjaldi. Þegar það fékkst ekki framkvæmt fyrir skammsýni launþeganna, samþ. búnaðarþing á ný, að bændur skyldu falla frá þeirri hækkun á landbúnaðarvörum, sem þeim ber samkvæmt l. Bændur gera þetta í trausti þess, að aðrar stéttir komi á eftir og sýni aukinn þegnskap og þjóðhollustu. Þjóðin mun fylgjast með því, sem nú gerist, það mun verða tekið eftir því, hvað kaupkröfustéttirnar aðhafast, hverju þær svara drengilegri og skynsamlegri tilslökun frá hendi bændanna.

Þjóðfélag vort er lítið. Velferð þess og afkoma er undir því komin, að hver stétt og einstaklingur gegni sínu hlutverki. Stéttirnar mega ekki halda togstreitunni áfram. Það hlýtur að leiða til þess, að þjóðin verður aftur fátæk og ósjálfstæð. Lýðveldi vort, sem vér erum stoltir af, þarfnast þess, að kraftarnir séu sameinaðir, en ekki sundraðir. Það heyrist oft kastað hnútum að Alþingi fyrir þá sundrung, sem þar ríkir. Þjóðin hefur dæmt Alþingi hart fyrir það að hafa ekki myndað þingræðisstjórn. Það er leitt, að það hefur ekki tekizt. En alþjóð verður að skilja það, að í vegi fyrir stjórnarmyndun hafa verið og eru ýmsir erfiðleikar. Enginn flokkur í þinginu er nógu sterkur til þess að mynda ríkisstjórn. Sjálfstfl. er stærstur, hefur 20 þm., en hann getur þó ekki myndað stjórn nema með samstarfi við einn eða fleiri flokka. Þótt enn hafi ekki tekizt að mynda ríkisstjórn, hafa samkomulagsumleitanir stöðugt farið fram milli flokkanna. Kemur það oft fram, að ýmsir þm. vilja í einlægni greiða fyrir aukinni samvinnu í þinginu. Þm. gera sér margir grein fyrir því, að þjóðfélag vort er illa á vegi statt. Verkföll, almennar kaupdeilur og ósanngjarnar kröfur á hendur atvinnuvegunum eru á leið með að reka allt í strand. Þegnskapur þeirra, er standa fyrir kaupkröfum, virðist vera á lágu stigi, enda höfnuðu þeir tilboði búnaðarþingsins um gagnkvæma niðurfærslu á afurðum og kaupgjaldi. Mörg verkföllin eru framkölluð af níu manna ráði Alþýðusambandsins og stjórnað af því. Fulltrúar bænda á Alþingi hafa gert sér ljóst, að frá hendi bænda má vænta meiri þegnskapar og betri skilnings á vandamálum þjóðfélagsins en hjá níu manna ráði Alþýðusambandsins: Þess vegna hafa þm. Sjálfstfl. og Framsfl. þorað að ræða um það sem möguleika, að bændur gengju á undan öðrum stéttum og byðust til að falla frá þeirri hækkun á landbúnaðarvörunum, eins og áður hefur verið minnzt á.

Búnaðarþing var kvatt saman til þess að ræða um þetta. Það samþ. næstum einróma till., sem alþjóð eru nú kunnar, eftir að hafa lesið blöðin og hlustað á útvarpið. Raddir hafa heyrzt um það, að með því að fylgja þessum till. sé verið að svíkja málstað bænda. En finnst bændum það trúlegt, að fulltrúar þeirra á Alþingi og búnaðarþingi vilji svíkja málstað þeirra? Trúir því nokkur bóndi, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn á Alþingi hafi í því róti og ósamkomulagi. sem talið er, að ríki innan þingsins, komið sér saman um það eitt að svíkja bændastéttina? Ég held, að fáir bændur verði til að trúa því. Fulltrúar bænda munu ekki leggja til, að þeir falli frá þeirri hækkun á framleiðslunni. sem þeim ber, af því að þeir sitji á svikráðum við stéttina, heldur munu þeir gera það til þess að framkalla þegnskap hjá öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Það mun verða gert til þess að skapa vinnufrið og gera Sjálfstfl. og Framsfl. fært að mynda tveggja flokka stj., ef verkalýðsflokkarnir fást ekki til samstarfs nema með afarkostum. Framrétt hönd bændanna mun slá vopnin úr höndum öfgamannanna og gera þeim erfitt að framkalla verkföll eða halda þeim áfram. Almenningsálitið mun deyfa svo eggjarnar hjá þeim, sem standa fyrir kaupkröfum og verkföllum, að þeir munu verða áhrifalitlir.

Ef frv. það, sem hér um ræðir, verður samþ. og bændur falla frá þeirri hækkun, sem þeir hafa rétt til að fá, þá gera þeir það af þjóðfélagslegri nauðsyn. Það er ekki tilviljun, að bændur sýna þjóðhollustu á undan öðrum stéttum þjóðfélagsins. Það gildir sama á þessum tímum og þegar Jón Sigurðsson lifði og starfaði fyrir þjóðina. Hann setti sitt traust fyrst og fremst til bænda, gerði meiri kröfur til þeirra en annarra, vegna þess að hann taldi þá líklega til góðs þegnskapar.

En þótt hér hafi verið talað um fórn af hálfu Bænda, mun ég rökstyðja, að þetta verður þeim fyrir beztu, og mun það síðar koma í ljós. Bændur vilja ekki láta dýrtíðarvísitöluna hækka. Ef þeim er ætlað að fá þá hækkun á afurðunum, sem þeir hafa rétt til, og vísitölunni verður með niðurgreiðslum haldið niðri um leið og útflutningsverð landbúnaðarvaranna er tryggt, þarf ríkissjóður í því skyni ekki minna en 30 millj. króna. Fjárlfrv. fyrir árið 1945 var nýlega lagt fram á Alþingi. Samkvæmt því er gert ráð fyrir greiðsluhalla í sjóðsyfirliti. Þó eru útgjöldin, launagreiðslur og annað. miðuð við verðlagsvísitöluna 250, en hún er nú, eins og kunnugt er, 272 stig. Útgjöldin verða því til muna hærri en fram kemur í frv. Í frv. er ekkert ætlað til niðurgreiðslu á innlendum vörum. Ekkert er ætlað til þess að tryggja útflutningsverð landbúnaðarafurða. Þar er ekkert í þær 30 millj. króna, sem ég áðan nefndi. Það mun margur vilja spyrja um það, hvort auðvelt sé að innheimta 30 millj. króna til viðbótar við þau skattal., sem nú eru í gildi. Sumir munu segja, að stríðsgróðamennirnir séu nógu margir til þess að láta þetta af hendi. En allt hefur sín takmörk, líka stríðsgróðinn. Þegar frv. um eignaraukaskattinn var borið fram í fyrra, gerðu flm. sér von um, að tekjurnar af honum næmu sex til sjö millj. króna. Verðlækkunarskatturinn, sem kvartað var undan á sínum tíma, gaf sex millj. króna tekjur. Af þessu má ljóst vera, að nauðsynlegt er að komast hjá að innheimta 30 millj. til viðbótar þeim sköttum, sem fyrir eru.

Þegar þessi mál eru vel athuguð, verður mönnum því ljóst. að um tvær leiðir er að velja í þessum efnum. Sú fyrri er að hætta niðurgreiðslum á innlendum vörum og láta vísitöluna fara upp í 300–330, en hin seinni, að bændur gefi eftir 9,4% hækkunina á landbúnaðarvörunum gegn tryggingu á útflutningsvörunum, en það sparar ríkissjóði um 10 millj. króna. Þarf þá ekki nema 20 millj. króna til þess að tryggja verð útflutningsvaranna og halda útsöluverði landbúnaðarvara óbreyttu.

Ég vil þá koma að því, hvort er hyggilegra fyrir bændur að slaka til á þennan hátt eða fá vísitöluna hækkaða. Ef bændur fá hækkunina á landbúnaðarvörunum, en vísitalan er látin fara upp í 300–330 stig, verða þeir að búa við þessa háu vísitölu í heilt ár og borga kaup eftir henni án þess að geta hækkað framleiðslu sína fyrr en 15. sept. 1945. Ég held að þá verði orðið lítið eftir af 9,4% hækkuninni hjá mörgum bændum. Auk þess má fullyrða, að ef vísitölunni væri sleppt lausri. þá fengist ekkert greitt með útflutningsafurðunum. því að ríkissjóður væri ekki aflögufær, ef þannig væri haldið á málunum. Bændur mættu því gera sér að góðu það, sem fæst fyrir vörurnar á erlendum markaði. Þá má einnig benda á það, að l. um sexmannan. gilda aðeins til stríðsloka. Sennilegt er, að stríðið sé senn á enda, og gæti þá svo farið, að þeir bændur, sem nú láta sér detta í hug, að fulltrúar þeirra séu of linir í sókninni fyrir þeirra hönd, vilji síðar þakka fyrir hagstæða samninga fyrir hönd bændastéttarinnar. Hyggnir bændur munu fljótlega fallast á þá samninga, sem nú er í ráði að gera fyrir þeirra hönd. Hinir munu þreifa á því áður en lýkur, að fulltrúar þeirra á Alþingi og búnaðarþingi unnu ekki illa fyrir þeirra málstað. Það er víst, að um leið og bændur skapa lofsvert fordæmi með því að afsala sér þeirri hækkun, sem þeim ber að fá fyrir framleiðsluna, hafa þeir um leið tryggt sjálfum sér betri afkomu og verndað þau verðmæti, sem þeir hafa undir höndum. Þeir hafa eigi að síður gert sitt til þess að forðast hrun atvinnuveganna, með því að tilslökun þeirra gerir ríkissjóði mögulegt að halda verðlagsvísitölunni niðri.

Það er einnig mikils virði, að bændur hafa með tilboði sínu lagt grundvöll að nánara samstarfi og betri skilningi milli stéttanna. Sú tortryggni, sem oft ríkir milli neytenda og framleiðenda, þarf að víkja. Það er jafnnauðsynlegt fyrir báða aðila. Eins og neytendur geta ekki verið án þess að fá landbúnaðarvörurnar, enda sárt kvartað. þegar þær eru ekki á markaðnum, svo er einnig nauðsynlegt fyrir bændur að hafa tryggan markað fyrir framleiðsluna. Það mun ekki síður vera nauðsynlegt eftir styrjöldina. Það er einnig á öðrum sviðum, sem skilningur og samvinna milli stéttanna er nauðsynlegur. Það er vandamál fyrir bæjarfélögin. þegar fólkinu fjölgar þar meira en atvinnuskilyrði leyfa. — Það er hætt við, að sú staðreynd blasi við eftir styrjöldina, að fólkið í bæjunum verði fleira en atvinnutækin þar taka á móti. Því er það skylda bæjarfólksins að hindra óeðlilegt aðstreymi til kaupstaðanna. En það verður bezt gert með því að rétta fulltrúum sveitanna lið og hjálpa til aukinnar ræktunar og framfara í sveitum landsins. Ísland er enn lítt ræktað land, en hefur mikil og góð skilyrði. Fossarnir eru enn óbeizlaðir og orka þeirra því ónotuð. Það er ekkert efamál, að möguleikarnir, ef vér höfum vit á að hagnýta þá, eru ótrúlega miklir.

Það er af ódugnaði og skorti á viðsýni, ef vér á næstu árum byggjum ekki upp þróttmikið atvinnulíf, sem leiðir til þess, að vor fámenna þjóð þarf ekki að kvíða atvinnuleysi eða sulti. Þjóðin hefur ekki efni á því að láta stóra hópa manna ganga atvinnulausa. Hún þarf að nota allt það vinnuafl, sem fáanlegt er í landinu, til þess að byggja upp atvinnulífið, skapa nýjar atvinnugreinar, auka útgerð og siglingar, rækta jörðina og nota hið tröllaukna afl fossanna til iðnaðar og aukinna þæginda fyrir landsmenn í sveit og við sjó. Þetta verður allt létt í framkvæmd, ef vér hættum togstreitunni, ef vér hættum að vinna hver á móti öðrum. hættum að tortryggja hver annan, en vinnum saman af heilindum í því skyni að gera þjóðfélagið sterkt og sjálfstætt.

Á undanförnum árum hefur efnahagur þjóðarinnar batnað. Hún er nú ekki lengur skuldug erlendis. Hún hefur eignazt miklar innistæður í erlendum bönkum, og mun það koma í góðar þarfir. En þótt efnahagurinn sé góður eins og nú standa sakir, megum. vér ekki gleyma því, hvernig aðstaðan var fyrir styrjöldina. Gerum oss grein fyrir því, hvers vegna þjóðin var skuldug erlendis og hafði tæplega gjaldeyri fyrir lífsnauðsynjum. Gerum oss grein fyrir því, hvers vegna atvinnuleysið var. Og gerum oss grein fyrir því, hvernig innistæður vorar erlendis hafa myndazt síðustu árin. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu. Þá fyrst er von til, að menn sameini kraftana til nauðsynlegra framkvæmda fyrir þjóðina.

Þjóðin var skuldug og vantaði erlendan gjaldeyri fyrir styrjöldina, af því að framleiðslan var of lítil. Atvinnuleysið í þjóðfélaginu stafaði einnig af því. Fiskiflotinn, siglingaflotinn, iðnaður og fleiri atvinnugreinar voru ekki reknar í nægilega stórum stíl til þess að skapa nóga atvinnu og nauðsynleg verðmæti í þjóðarbúið. Þegar setuliðið hættir að nota innlent vinnuafl og færa á þann hátt erlendan gjaldeyri inn í landið, verður þjóðin að setja nýtt líf í innlenda atvinnuvegi. Þetta verður að gerast vegna verkamannanna, sem þurfa að vinna fyrir sér og fjölskyldum sínum. Og það þarf ekki síður vegna þjóðarheildarinnar, til þess að hún sökkvi ekki aftur í skuldir og vandræði.

Mönnum má ljóst vera, að þjóðin lifir fyrst og fremst á framleiðslunni. Því er nauðsynlegt, að þeim fjölgi, sem framleiðslustörf stunda. Verði framleiðslan og útflutningsverðmætin ekki aukin frá því, sem var fyrir styrjöldina, má fullyrða, að fljótt gengur á þær innistæður erlendis, sem nú hafa safnazt. Þann gjaldeyri má ekki nota til greiðslu á venjulegum innflutningsvörum landsmanna. Þann gjaldeyri má aðeins nota til greiðslu vegna aukningar atvinnutækjanna. Vér getum strax að styrjöldinni lokinni hafizt handa í því skyni að auka atvinnutækin.

Það eru því verkefni næstu ára að auka fiskiflotann og stækka siglingaflotann, að byggja áburðarog sementsverksmiðjur og skipasmíðastöðvar o.fl., að virkja fossana og taka rafmagnið í víðtæka þjónustu fyrir landsmenn, að hefja stórfelldar ræktunarframkvæmdir og keppa að því, að bændabýlum fjölgi og innan fárra ára verði aðeins nytjað ræktað land. Allt þetta mun bezt vinnast með því, að einstaklingarnir fái að njóta sín, sjálfsbjargarviðleitnin og framkvæmdahvötin verði glædd. Það er ekki ástæða til þess að vera bölsýnn á framtíð þjóðarinnar, þótt styrjöldin og ósamkomulag stétta og þingflokka hafi gert útlitið ískyggilegt um sinn.

Mörgum er nú ljóst, að ef sættir takast ekki milli stétta og flokka, þá muni hefjast hér ný Sturlungaöld. Sú augljósa staðreynd mun hvetja menn til samstarfs og vekja ábyrgðartilfinningu margra. Bændur hafa byrjað og rétt höndina fram til sátta, þeir hafa boðizt til að slá af því afurðaverði, sem þeim ber samkvæmt lögum. Þeir gera það, vegna þess að þeir meta framtíðarheill þjóðarinnar meira en stundarhag fyrir sig. Þeir gera það til að greiða fyrir samkomulagi innan þings og utan. Það er því krafa bænda, krafa mikils hluta þjóðarinnar, að þingið myndi nú þegar ríkisstjórn. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. eiga nú þegar að ganga til samstarfs í því skyni. Sjálfsagt er, að Sósfl. eigi þess kost að taka þátt í myndun ríkisstj. En fari svo, að sá flokkur vilji ekki vera með í ríkisstj. án skilyrða, sem menn með borgaralega hugsun geta ekki gengið inn á, verður Sósfl. að vera utan við stjórnina. Næstu dagar skera úr um það, hvað skeður í þessum efnum. Þjóðin bíður og vonar. að heilbrigð stjórnarsamvinna takist. Það skal ekkert fullyrt um það, hvað verða vill. en óhætt er að segja, að andrúmsloftið hefur breytzt til batnaðar innan þingsins, og líkurnar fyrir samvinnu tveggja flokka eða fleiri hafa aldrei verið meiri en nú.

Niðurfelling á hækkun afurðanna verður samþ. af mér og fleiri fulltrúum bænda í þeirri trú, ég segi ekki vissu, að nú verði mynduð stjórn, stjórn, sem hefur þingmeirihluta að baki sér og líkleg er til að taka vel á aðsteðjandi vandamálum.