28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (4197)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bjarni Ásgeirsson:

Ég hef ekki margar athugasemdir við ræður þeirra hv. þm., sem töluðu á undan mér. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) taldi upp, hvernig verðbólgan og dýrtíðin hefðu aukizt í landinu. Ég tók ekki eftir, að hann teldi upp einn lið, sem kemur mikið við sögu, en það eru vinnulaunin, sem munu vera um 90% af öllum kostnaði.

Stefán Jóh. Stefánsson ræddi um, að álit sex manna n. hafi verið hagstætt bændum, en ég vil aðeins segja hv. þm., að ég lít allt öðruvísi á málið, og þó að bændur falli frá að taka þá hækkun, sem þeim ber skv. l., þá er það ekki af þeirri ástæðu, að þeirra hlutur hafi verið of hár skv. sex manna n. álitinu, heldur hinu, að þeir eiga kröfu, sem vafasamt er, að verði tryggð betur á annan hátt en með því boði, sem lagt var fram.

Þegar rætt er um frv. það, sem hér liggur fyrir, verður ekki hjá því komizt að ræða nokkuð ýtarlega afskipti Búnaðarfélags Íslands af málum þeim, sem það fjallar um, þar sem það er vitað, að þau afskipti hafa orðið til að koma þessari hreyfingu á málið og ráðið mestu um þá bráðabirgðalausn, sem að er stefnt. Mun ég einkum snúa mér að þessari hlið málsins.

Eins og öllum er kunnugt. hvarf Alþ. árið 1942 frá þeirri skipan, er þá hafði staðið um skeið, að binda með lögum tvö hin veigamestu atriði verðlagsmálanna, sem sé verkalaun og verð innlendra afurða, eða eins og líka má orða það: kaup verkamanna og bænda.

Þá þegar var tekin sú stefna, þó að hún væri ekki fastmótuð fyrr en síðar, að freista þess að halda þessum tveim áhrifamestu þáttum verðbólgunnar í skefjum með frjálsum samningum við aðila þá, er hér áttu hlut að máli, verkamenn og bændur. Mál þessi komu mjög til umræðu á Alþ. 1943 í sambandi við dýrtíðarfrv. ríkisstj. Þegar frv, það var lagt fyrir þingið, voru í því nokkur ákvæði um lögbindingu verðlags og kaupgjalds. En í meðferð málsins á þinginu kom fljótlega í ljós, að ekkert meirihlutafylgi var þar fyrir því að ákveða neina lögbindingu kaupgjalds, og kom þá ekki til greina að binda verðlag landbúnaðarvara eitt út af fyrir sig. Í umræðum um mál þessi voru þá uppi margar raddir bæði á Alþ. og í blöðum um, að eina leiðin til að stöðva aukningu verðbólgunnar, hvað þessi atriði snertir, væri sú að fá með frjálsum samningum við bændur og verkamenn gagnkvæma lækkun verðlags og kaupgjalds, eða að minnsta kosti fulla stöðvun hækkana frá því, sem þá var orðið. Af framkvæmdum í þessa átt varð þó ekkert lengi vel.

Meðan þessu fór fram á Alþ., sat hér á rökstólum búnaðarþing, er fylgdist með málum þessum og tók þau til meðferðar hjá sér. — Var þá m.a. rædd aðstaða landbúnaðarins í þessu sambandi, en hann hafði þá ekki á að skipa neinum heildarhagsmunasamtökum fyrir bændastéttina, þar sem launastéttirnar hins vegar höfðu fastskipulagðan félagsskap, Alþýðusamband Íslands, til forsvars og samninga fyrir þeirra hönd, en Búnaðarfélag Íslands hafði til þess tíma nær eingöngu látið hin faglegu mál stéttarinnar til sín taka. Niðurstaða þessara umræðna og athugana varð sú, að búnaðarþing ákvað, að Búnaðarfélag Íslands skyldi nú taka í sínar hendur forystuna í hagsmunasamtökum bændastéttarinnar fyrst um sinn, þar sem búnaðarfélög væru eini stéttarfélagsskapur bændanna, er væri þannig skipulagður, að hann næði til allra bænda landsins. Var um þetta gerð sérstök ályktun á búnaðarþinginu og stjórn Búnaðarfélagsins falið að hafa með höndum framkvæmd þessara mála á milli þinga. Auk þessa samþykkti búnaðarþing sérstaka ályktun í verðlagsmálum, er skyldi vera eins konar starfsgrundvöllur fyrir stjórn félagsins að halda sér eftir.

Í ályktun þessari segir svo, að búnaðarþing telji ekki viðunandi. að lögbundið sé verðlag á landbúnaðarvörum, án þess að jafnframt sé tryggt, að vinna sú, sem lögð er fram við framleiðslu landbúnaðarvara, verði eins vel launuð og önnur sambærileg vinna í landinu.

Þá ályktar búnaðarþingið að lýsa því yfir fyrir hönd bændastéttarinnar, að það geti eins og þ á er ástatt fallizt á, að verð það, sem var á landbúnaðarvöru 15. des. árið áður. verði fært niður, ef samtímis fer fram hlutfallsleg lækkun á launum og kaupgjaldi.

Búnaðarþingið tók sér með þessu fyrir hendur nýtt verkefni, er það hafði ekki áður haft með höndum. Varð ekki annars vart en að bændur létu sér þessa ákvörðun yfirleitt vel líka.

Þegar búnaðarþing samþykkti ályktun þessa, var ástandið á Alþ. ekki ósvipað því, sem nú hefur verið undanfarið. Dýrtíðarmálin höfðu þá um langt skeið legið í nefnd og virtust komin í eins konar sjálfheldu. Enda grípur nú Alþ. óðara ályktun búnaðarþingsins sem björgun til bráðabirgðalausnar í málunum og afgreiðir þau í samræmi við tillögur Búnaðarfélags Íslands. Ákveður það nú að skipa nefnd fulltrúa frá Búnaðarfélagi Íslands, Alþýðusambandinu og Starfsmannafélagi ríkis og bæja, ásamt tveim sérfróðum mönnum um verðlagsmál, — hina svokölluðu sex manna nefnd, — til þess að leita að réttu hlutfalli verðlags og kaupgjalds á grundvelli búnaðarþingssamþykktarinnar. Starf nefndarinnar og niðurstöður eru öllum kunnar, og hafa þær síðan verið sá grundvöllur í verðlagsmálum landbúnaðarins, sem á hefur verið byggt. Er þannig ekki ofsagt, að búnaðarþing hafi með aðgerðum sínum í verðlagsmálunum 1943 átt drýgstan þáttinn í að leysa þau úr þeirri flækju, sem þau voru komin í á Alþ., og hjálpa til að fleyta þeim fram á þennan dag.

Með niðurstöðu sex manna nefndarinnar var leystur annar liður þeirrar ályktunar, sem ég skýrði frá, að gerð hefði verið á búnaðarþingi 1943. Þá var enn eftir að reyna til þrautar hitt atriðið, sem var tilboð um gagnkvæma niðurfærslu launa og afurðaverðs til lækkunar dýrtíðarinnar.

Hinar jákvæðu niðurstöður af starfi sex manna nefndarinnar voru nauðsynlegur liður, svo að ekki sé sagt undirstöðuatriði, þess, að gagnkvæmir samningar gætu tekizt um frjálst samkomulag þessara stétta, bænda og verkamanna, um stöðvun eða niðurfærslu verðbólgunnar. Nú átti deilunni á milli þessara aðila um hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags að vera lokið, svo að nú var orðið einfalt reikningsdæmi að ákveða, hvað væri hlutfallsleg lækkun hjá hverjum fyrir sig, ef samkomulag næðist um að fara þá leið.

Hitt hlaut öllum hugsandi mönnum að vera ljóst, að næðist ekkert samkomulag um stöðvun eða lækkun kaupgjaldsins, þegar búið var að binda afurðaverðið við það með lögum, hvað þá ef grunnkaupið héldi áfram að hækka, þá væru lögin um sex manna nefndar verðið orðin sjálfvirk, lögvernduð hækkunarskrúfa, sem fyrr eða síðar hlyti að sprengja allar stíflur gegn verðbólguflóðinu í loft upp og fara sjálf í mola um leið. Þetta sáu allir menn, sem höfðu opin augu. Spurningin var aðeins um það, hversu langt yrði þangað til allt brysti, ef þannig væri fram haldið.

Þetta var fulltrúum bænda í Búnaðarfélagi Íslands ljóst. Þess vegna lögðu þeir tilboð búnaðarþings frá 1943 um gagnkvæma lækkun verðlags og kaupgjalds fram í hinni síðari sex manna nefnd, er skipuð var um haustið 1943 fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands að tilhlutun ríkisstjórnarinnar, sem þá mun hafa viljað reyna til þrautar, hvort unnt yrði að stöðva eða lækka dýrtíðina eftir hinni frjálsu leið með samkomulagi þessara, stétta. Lagði nú félagið álit sex manna nefndarinnar til grundvallar, enda var það nú orðið lögleg sáttagerð í máli þessu.

Fulltrúar Búnaðarfélagsins buðu 5–10% lækkun á landbúnaðarvörum gegn sams konar lækkun á kaupgjaldi til þess að taka broddinn af hækkunarskrúfunni. Þessu tilboði var með öllu hafnað af fulltrúum Alþýðusambandsins, og þar með var þessari tilraun lokið.

Síðan hélt skrúfan áfram. Grunnkaup hækkaði í ýmsum greinum, framfærsluvísitalan hækkaði og verðlagsvísitala landbúnaðarvara í beinu áframhaldi af því.

Þegar svo Alþ. kom saman hinn 2. sept. síðast liðinn og búið var að reikna út hina nýju verðlagsvísitölu landbúnaðarvara, sem sýndi hækkun um 9,4% frá því, sem áður hafði verið, stóð ríkisstjórnin ráðþrota um framkvæmd dýrtíðarlaganna. Skýrði hún þinginu frá því, að nú væri ekki nema um tvennt að gera, að lækka verðlag á landbúnaðarvörum og kaupgjald með lögum, fyrst það tækist ekki öðruvísi, eða að sleppa dýrtíðinni lausri. Lagði hún svo fram frumvarp, sem nú er kunnugt orðið og sem eins og hið fyrra frumvarp hennar hafði inni að halda ákvæði um nokkra bindingu afurðaverðs og kaupgjalds.

Það kom enn í ljós, að enginn meiri hluti var fáanlegur í Alþ, með frumvarpi þessu og enn síður fyrir því að binda eða lækka kaupgjaldið með lögum. Afleiðingarnar þekkja allir. Ríkisstjórnin sagði af sér, og flokkar þingsins voru til þess kvaddir af forseta að gera tilraun um lausn málanna, myndun ríkisstjórnar og ákvarðanir í dýrtíðarmálunum. — Áður en þetta gerðist, höfðu þingflokkarnir kosið þrjá menn hver til viðræðna um mál þessi. hina svo kölluðu tólf manna nefnd, og tók hún nú við hinu nýja vandamáli. Tólf manna nefndin tók nú upp að nýju leið hinna frjálsu samninga milli stéttanna um kaupgjald og afurðaverðið. Sneri hún sér til Alþýðusambandsins sem fulltrúa launamanna, Vinnuveitendafélagsins sem fulltrúa atvinnurekenda bæjanna og Búnaðarfélags Íslands sem fulltrúa bændanna.

Það hefði óneitanlega verið ábyrgðarminnst og vandaminnst fyrir Búnaðarfélag Íslands að víkja sér með öllu undan frekari afskiptum af málum þessurri og segja við Alþ. sem svo: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“ — En það taldi stjórn þess þó ekki fært eins og málum var komið.

Búnaðarþingið hafði eins og fyrr er sagt ákveðið að láta mál þessi til sín taka og falið stjórn félagsins forsvar þeirra. Og Alþ. hafði með dýrtíðarlögunum frá 1943 lögfest félagið sem aðila um þessi mál fyrir hönd bændastéttarinnar, og það hafði þegar haft af þeim margvísleg afskipti bæði í skipun og störfum sex manna nefndarinnar og á annan hátt. Hvaðanæva af landinu höfðu borizt álitsgerðir frá bændum og félögum þeirra, er lýstu ánægju sinni yfir þessari nýjung í starfsháttum félagsins. Þetta allt, ásamt eðli málsins, varð þess valdandi, að stjórn Búnaðarfélagsins áleit ekki fært að víkja sér undan þessum vanda, en taldi hins vegar sjálfsagt að kalla saman sér til fulltingis fulltrúa búnaðarþingsins utan af landi, þar sem henni var ljóst, hver alvara hér var á ferðum. Þegar svo búnaðarþingsfulltrúarnir fóru að kynna sér viðhorf þessara mála, komust þeir fljótt að raun um það, hversu ástandið var orðið alvarlegt. Að sumu leyti var það svipað og á vetrarþinginu 1943, er búnaðarþing hjálpaði til að skera á hnútinn með tillögum sínum, þeim er áður getur. Málið var nú búið að liggja um sinn í nefndum hjá þingflokkunum, en engin lausn eygjanleg. En þó var allur sjúkdómur þessa máls kominn á stórum hærra stig nú en þá.

Upplýsingar lágu fljótlega fyrir fulltrúum þingsins, er glögglega sýndu, hve hér var komið í óvænt efni:

Upplýsingar lágu fyrir um það, að ríkisstjórnin hefði í allt sumar unnið að því að koma saman fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, en væri ekki búin að leggja það fyrir enn, þó að þingið hefði nú setið um þrjár vikur, vegna erfiðleika við að fá á því viðunandi niðurstöður. Þó hafði svo mikið frétzt um fjármálaástandið, að heildargreiðslur yfirstandandi árs muni nema um 115 milljónum króna, eða nær sexfaldri þeirri upphæð. sem útgjöld ríkisins námu fyrir styrjöldina, og að útgjöldin færu síhækkandi.

Enn fremur var það þá þegar vitað, að á hinu nýja fjárlagafrumvarpi væri gert ráð fyrir 10 millj. króna hækkun á rekstrarútgjöldum ríkisins og að tekjur og gjöld stæðust þar á með því, að allmikið væru niður skornar verklegar framkvæmdir frá því, er væri á fjárlögum þessa árs, og að ekki væri gert ráð fyrir neinum tekjum til að mæta niðurgreiðslu vegna dýrtíðarinnar né til útflutningsuppbóta, en þessi útgjöld munu nema um 20 millj. kr. á þessu ári.

Þrátt fyrir þetta væru útgjöldin miðuð við framfærsluvísitölu 250.

Allt þetta liggur nú fyrir í hinu nýja fjárlagafrumvarpi.

Þá er einnig vitað, að hver 6 stiga hækkun á vísitölu hefur í för með sér einnar millj. króna hækkun á rekstrarútgjöldum ríkisins.

Upplýsingar lágu fyrir um það, að ef halda ætti framfærsluvísitölunni niðri á sama stígi og hún er nú og greiða áætlaðar útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur miðað við hið nýskráða verð, þyrfti til þess fullar 30 millj. króna eða um 50% hærri fjárfúlgu en öll fjárlögin námu fyrir stríð.

Upplýsingar lágu fyrir um það, að útilokað væri, að meiri hluti fengist á Alþ. fyrir því að samþykkja þessi útgjöld að öllu óbreyttu og að afla tekna til þeirra.

Í þessu sambandi er rétt að gera sér þess grein, hver er almennastur skilningur manna á rétti bænda til að tryggja sér verðlag sex manna nefndarinnar. En hann er þetta:

Ef verðið á innlenda markaðnum er sett fast fyrir tilstuðlan stjórnarvaldanna, eins og verið hefur undanfarið, er það skylda ríkisins að bæta bændum upp það, sem á vantar, að þeir fái það verð, er þeim ber samkvæmt sex manna nefndar álitinu bæði á innlendum og erlendum markaði. Neiti ríkið hins vegar að bæta upp verð það, sem fyrir vöruna fæst á erlendum markaði, þannig að það nái sex manna nefndar verðinu, er skýlaus réttur bænda að setja það verð á vöruna á innlenda markaðnum, að sex manna nefndar verðið fáist fyrir alla vöruna í heild bæði á útlenda og innlenda markaðnum.

Þannig leit kjötverðlagsnefnd á þetta mál haustið 1943 og neitaði því að ákveða útsöluverð á innlendum markaði, fyrr en vitneskja fengist um það, hvort uppbætur yrðu greiddar á útflutningsvöruna. Þannig lítur sama nefnd á málið enn, með því að hún hefur nýskeð gefið út reikningslegt yfirlit um það, hve hátt verðið þyrfti að vera á innlenda markaðnum til þess að tryggja bændum sex manna nefndar verðið, ef engar útflutningsuppbætur yrðu greiddar og engar niðurborganir ættu sér stað.

Til viðbótar þremur áðurgreindum atriðum lágu fyrir upplýsingar frá kjötverðlagsnefnd, sem hér segir:

Ef greiddar væru útflutningsuppbætur á kjötið, en engar niðurgreiðslur á innlendum markaði, þyrfti að selja hvert kjötkg í smásölu á innlendum markaði á 11.07 kr., en af því fengju bændurnir hinar tilskildu 7,76 kr., á kg. Kostnaðurinn við að koma hverju kg kjöts í peninga er samkvæmt þessu 3,31 eða kostnaðurinn á 15 kg skrokk um 50 krónur.

Eða með öðrum orðum: Ef kjötverðið væri nú ekki nema tvöfalt við það, sem var fyrir stríð, þá mundi það ekki einu sinni borga slátrunar- og sölukostnað lambsins.

Enn fremur upplýsti kjötverðlagsnefnd, að ef haga ætti verðinu á innlenda markaðnum með tilliti til þess, að hvorki væru greiddar útflutningsuppbætur né niðurfærslur verðs á innl. markaði, yrði að setja á hvert kjötkg útsöluverð, sem næmi 18–19 krónum, til þess að framleiðendur fengju hið lögákveðna verð, eða því sem næst eins og sæmilegur dilkur lagði sig fyrir styrjöldina.

Það lágu fyrir fulltrúunum upplýsingar um það, að ef nú yrði hætt að greiða niður vöruverð á innlendum markaði, þá hefði það í för með sér eftir hinu nýja verðlagi á landbúnaðarvörum, að framfærsluvísitalan færi samstundis upp í full 300 stig, enda þótt ekkert tillit væri tekið til verðjöfnunar á útflutt kjöt í innanlandsverðinu. Ef framkvæma ætti um leið verðjöfnun fyrir útflutningsafurðirnar þannig, að kjötverð innanlands færi upp í 18–19 kr. á innanlandsmarkaðnum eins og kjötverðlagsnefnd hafði gert ráð fyrir, þá færi framfærsluvísitalan samstundis upp í 340–350 stig, sem síðan hækkaði bráðlega upp í 360–370, eftir að þessar hækkanir færu að hafa áhrif á verðlagið, og sæi enginn fyrir þann endi.

Þegar menn athuga þessar upplýsingar, þá sjá þeir þegar í hendi sinni, að sú stund, sem allir hugsandi menn höfðu búizt við, hlyti að koma fyrr eða síðar að öllu þessu framferði óbreyttu, að allt þetta fjármálakerfi hlyti að sprengja sig sjálft í loft upp áður lyki. Þessi stund var nú komin. Sprengingin var og dyndi á næstu daga, ef hvergi væri dregið úr þrýstingnum.

Og afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar. Mikill hluti atvinnulífs landsmanna hryndi í rústir á skammri stundu. Sjómönnum yrði fyrirmunað að afla fiskjar, þannig að nokkur von væri til, að sú starfsgrein gæti borið sig, þótt enn um stund kynnu þeir að eiga völ á hinum bezta markaði, sem heimurinn hefur þekkt fyrir þá vöru. En þar með var hruninn grundvöllurinn undan utanríkisviðskiptum þjóðarinnar.

Útgjöld ríkisins á rekstrarkostnaði einum saman mundi hækka viðstöðulaust á sama tíma og tekjur ríkisins minnkuðu með hverjum degi sökum stöðvunar á atvinnurekstri og vinnutekjum almennings.

Geta ríkisins til þess að halda áfram verklegum framkvæmdum hlaut því að stöðvast, jafnframt því sem almennt atvinnuleysisástand skapaðist í öðrum starfsgreinum landsins.

Peningainnstæður þjóðarinnar þynntust upp og hyrfu eins og mjöll í leysingu í réttu hlutfalli við hina hækkandi verðbólgu. En á meðan allt þetta væri að gerast, yrði svo þjóðinni kastað út í harðsnúnar kosningar í byrjun vetrarins, en viðurstyggð eyðingarinnar ynni óhindruð að því að leggja þjóðfélagið í rústir.

Þetta var í stórum dráttum myndin, sem blasti við á næstu mánuðum, ef ekkert yrði að gert. Nú lá fyrir búnaðarfulltrúunum þessi spurning:

Hvað viljið þið leggja til fyrir bændanna hönd í þessu vandamáli? Hvaða fórnir viljið þið leggja til, að þeir færi til að freista þess að komast hjá þessum afleiðingum. sem hér hefur verið lýst, fyrir þjóðfélagið og sjálfa sig?

Búnaðarþingið gat svarað þessu á ýmsa vegu. Það gat sagt: Bændurnir eiga ekki meira í húfi en aðrar stéttir, þótt illt eigi að ske. Við höfum boðið að færa fórnir jafnt öðrum til lausnar máli þessu, og neiti þeir að fórna nokkru fyrir sínar stéttir, þá er bezt að lofa þessu öllu að ganga sinn gang. Við eigum löglega. kröfu til að fá hina umtöluðu hækkun á afurðum okkar, við getum samkvæmt lögum sett kjötið upp í 18–19 krónur, já jafnvel 30–40, ef þess þarf með. Við förum svo sem ekki að gefa eftir af okkar löglegu kröfum. - Þetta gat búnaðarþingið sagt, en það gerði það ekki. Það óskaði ekki eftir, að bændastéttin væri leidd inn í þann dans, sem nú væri fram undan, þótt svo kynni að vera, að ýmsir stéttarbræður þeirra hefðu hug á því að leika enn um stund í þessu „bíói“ á fossbrúninni.

Þeir tóku því að leita bráðabirgðaúrræða í samráði við þingflokkana. Og niðurstaða þeirra samtala er nú orðin kunn, en hún er í aðalatriðum þessi :

Búnaðarþing leggur það til fyrir hönd bændanna, að fallið sé frá kröfunni um þá hækkun afurðaverðs, sem gekk í gildi hinn 15. sept. s.l. og var 9.4%, ef Alþingi með því sæi sér fært að halda dýrtíðinni í skefjum með þeim ráðum, sem það hefur til þess, þar á meðal því að borga niður dýrtíðina á svipaðan hátt og verið hefur, svo að atvinnulifið geti haldið áfram ólamað, a.m.k. á meðan erlendar markaðsástæður koma ekki í veg fyrir það. Skilyrði fyrir því, að inn á þetta sé gengið af hálfu búnaðarþings, er það, að veitt sé trygging af hálfu ríkisins fyrir greiðslu verðuppbóta á útlendum markaði á sama hátt og gert var s.l. ár, svo að bændur hafi tryggingu fyrir hinu umsamda verði, þ.e. sama verði og var síðast liðið ár. Þetta er gert í trausti þess, að aðrar stéttir þjóðfélagsins veiti á eftir samsvarandi tilhliðranir. En skyldi svo fara, móti vonum manna, að enn verði ekki spornað með öllu gegn hækkun launa og auknum kostnaði við framleiðsluna, þá verði sú nýja hækkun bætt bændum mánaðarlega með hækkuðu verði á landbúnaðarvörunum.

Að þessum tilboðum og skilyrðum búnaðarþings virðist nú Alþ. ætla að ganga, og er frumvarp það, sem nú liggur hér fyrir, vottur þess. Búnaðarþing hefur þannig tvisvar á tveim árum orðið til þess með tillögum sínum að greiða úr flækjum verðlagsmálsins á Alþ., sem í bæði skiptin virtust nærri óleysandi, og í þetta skipti með því að leggja til, að bændur færðu fyrstir þá fórn á kjarabótum, er óskað hefur verið eftir af þingi og stjórn undanfarin ár, en aðrar stéttir hafa neitað að færa til þessa dags.

Ég hef orðið þess var, að ýmsir menn véfengja þann rétt, er búnaðarþing hafi til ályktana sem þessara. En þó hygg ég, að þeir verði fleiri meðal bænda, sem líti þannig á, samkvæmt forsögu málsins, að búnaðarþingsfulltrúunum hafi borið ekki aðeins réttur, heldur og skylda, að láta álit sitt uppi um mál þessi, er til þess var leitað, og þá bar þeim vítanlega að leggja það eitt til, sem þeir álitu þjóðinni í heild, og þar með bændastéttinni, affarasælast.

Búnaðarþingið hefur áður boðið fram lækkun á því afurðaverði, sem bændur áttu rétt til samkvæmt lögum. Réttur þess til að gefa slíkt tilboð hefur ekki verið véfengdur svo að mér sé kunnugt um, og nú er það tilboð af sumum talið eins konar goðsvar, sem aldrei megi breyta, en því fylgdi það skilyrði, að aðrar stéttir færðu samtímis fórnir á móti með tilsvarandi lækkun kaupgjalds. En hafi Búnaðarfélagið haft rétt til að bjóða slík boð áður, þó að skilyrðin væru þá nokkuð önnur en nú, þá hefur það tvímælalaust sama rétt til að bjóða lækkun þá, sem hér um ræðir, þótt önnur skilyrði fylgi. Á tilboðum þessum er stigmunur, en enginn eðlismunur. Í bæði skiptin liggja fyrir tilboð um nákvæmlega það sama, það er fjármunalega fórn af hálfu bænda. Í bæði skiptin, er boðið upp á að slaka til á löglega ákveðnu verði landbúnaðarvara, verði, sem ákveðið hefur verið með tilliti til framleiðslukostnaðar liðins tíma, og það án þess að bændur sjálfir fengju nokkrar beinar bætur fyrir. Hvort tveggja var gert í þeim tilgangi fyrst og fremst að koma fjárhagsmálum alþjóðar á öruggari grundvöll. Hin fjármunalega fórn bænda var sams konar í bæði skiptin. Hinu neitar enginn, að árangurinn hefði orðið tvöfaldur um lagfæringu á ástandinu, ef færð hefði verið um leið sambærileg fórn af öðrum aðilum, enda var það líka sjálfsögð réttlætiskrafa.

Nú hefur búnaðarþing, þegar sýnt var, að engin leið var að fá fullnægt hinu fyrra skilyrði um kauplækkanir samtímis á móti, og þegar allt var að komast í óefni, stigið feti lengra og boðið af hálfu bændastéttarinnar, að hún byrjaði að færa sínar fórnir, í trausti þess, að aðrir komi á eftir. Og það hefur gert þetta boð með nákvæmlega sama rétti og í nákvæmlega sama tilgangi og hið fyrra.

Hitt er svo annað mál. að þetta kann að særa metnað sumra manna fyrir hönd bændastéttarinnar, að þeim skuli fyrstum allra stétta ætlað að falla frá réttmætum kröfum sínum.

Ég mun sízt gera lítið úr heilbrigðum stéttametnaði bænda og tel, að hann þurfi að vera á ýmsum sviðum miklu meiri en hann er. En metnaðurinn er svo misjafn og margháttaður og ekki aliur jafneftirsóknarverður. Ég tel það til dæmis ekki metnað til fyrirmyndar, þegar tveir menn á sökkvandi skipi sitja og metast á um það til eilífðar nóns, hvor þeirra eigi að byrja á að ausa.

Hallgerður og Bergþóra höfðu þann metnað að láta drepa æ því fleiri menn hvor fyrir annarri, sem lengur leið, og höfðingjar Sturlungaaldarinnar höfðu margir svipaðan metnað hver gegn öðrum. Allir vita, til hvers sá metnaður leiddi. Hallur á Síðu og Þorgeir Ljósvetningagoði settu hins vegar metnað sinn í það að setja niður deilur og afstýra þjóðarvandræðum. þó að þeir sjálfir yrðu að færa nokkrar fórnir.

Búnaðarþingið kaus íslenzkum bændum heldur til handa metnað þeirra Halls og Þorgeirs en metnað Hallgerðar og Bergþóru og höfðingja Sturlungaaldarinnar.

En svo að lokum þetta:

Það var sameiginleg sannfæring þeirra búnaðarþingsfulltrúa, er að samþykkt þessari stóðu, að allir, — einnig bændurnir sjálfir, sem þessa umtöluðu fórn færðu, — mundu bera fjárhagslega meira úr býtum með þeirri lausn, sem hér var valin, en ella hefði verið kostur, enda þótt þeim hefði tekizt að bjarga einhverju af verðmætum sínum undan rústum þjóðfélagsins í því hruni sem virtist óumflýjanlegt, ef þeir hefðu tekið aðra ákvörðun en þeir tóku.

Ég hygg, að aðrir bændur þessa lands muni komast að sömu niðurstöðu, ef þeir hugsa mál þessi rólega og hleypidómalaust.

Og fleiri stéttum þessa þjóðfélags væri hollt að hugleiða þessi sannindi, að því aðeins geta kröfur þeirra og kjarabætur orðið stéttinni til farsældar, er til lengdar lætur, að þær séu í samræmi við hagsmuni þess þjóðfélags, sem hún er hluti af. Þar hitta menn allt af sjálfa sig fyrir að lokum.