06.10.1944
Neðri deild: 60. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (4207)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir því frá sjónarmiði okkar flm., sem líka erum meiri hluti hv. fjhn. þessarar deildar. Síðan hafa farið fram útvarpsumræður um málið, sem allir þingflokkar hafa tekið þátt í, og er því ástæðulaust að fara um þetta mörgum orðum, enda skal það ekki gert af minni hálfu. Meiri hl. fjhn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ., en hefur óbundnar hendur um till., sem fram kunna að koma, og eins og tekið er fram í nál. á þskj. 384, áskilur nefndin sér rétt til að hafa málið áfram til athugunar. Það, sem sérstaklega veldur því, að nefndin hefur þennan fyrirvara, er, að það mun þurfa að breyta eitthvað orðalagi, a.m.k. í 2. lið 1. gr. Fjhn. kallaði hagstofustjóra á sinn fund. og taldi hann mjög örðugt að framkvæma það, sem þarna er tiltekið, eins og það er orðað í þessum 2. lið gr. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið, nema tilefni gefist til þess síðar Um brtt. á þskj. 391 skal ég ekki segja neitt, fyrr en hv. flm, hafa mælt fyrir henni, en ég vil óska, að þessu máli verði flýtt. Það er búið að dragast of lengi frá því, að það var til umr., og væri gott, að það gæti komizt áfram sem fljótast.