06.10.1944
Neðri deild: 60. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (4208)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. sjá, hefur fjhn. skilað áliti, sem er næsta skringilegt, af því að hún hefur í rauninni ekki komizt að neinni niðurstöðu um þetta mál. Það eina er, að hún hefur kallað hagstofustjóra á sinn fund. Hann hefur sagt við nefndina, að það væri gersamlega tilgangslaust að samþ. þau ákvæði, sem stæðu í þessu frv., því að þau væru óframkvæmanleg. Það eru upplýsingar, sem nefndin fær, áður en hún býst til að skila þessu nál., og þó áskilur hún sér rétt til að athuga þetta nánar, sem ég býst frekar við, að verði gert. Mér fannst eðlilegt, að byrjað væri á því strax að reyna að koma þessu frv. í það horf, að það mætti framkvæma þessi ákvæði, og það er því varla verjandi, að nefndin skuli leggja kapp á að hraða málinu áfram óbreyttu, þegar þessar upplýsingar eru komnar frá þeim stöðum, sem á að fela þessa endurskoðun vísitölunnar.

Við umr. þessa máls vildi ég ekki láta hjá líða að gera grein fyrir afstöðu minni. Það er sem sagt þarna verið að ganga inn á þá braut að binda nú til eins árs ákveðið, fast verð á landbúnaðarafurðum og þar að auki að skuldbinda ríkissjóð til að festa þetta þannig að borga útflutningsuppbætur, og eru þær ekki miðaðar við stríðslok,. heldur við 15. sept. 1945, og í þriðja lagi er verið að skuldbinda ríkissjóð með fjárframlögum til þess að halda óbreyttu útsöluverði á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði til 15. sept. 1945. Allir vita, að þetta mun kosta a.m.k. 20 millj. króna. Lægsta tala, sem nefnd hefur verið af hv. flm. þessa frv., er 20 millj., en mér þykir sennilegast, að það muni nema miklu meiri upphæð, og þó að mikil. áherzla sé á það lögð að hraða þessu máli, hefur ekkert verið gert til þess að athuga, hvernig á að afla þessa fjár. Við erum þarna komnir í mikla sjálfheldu af þessum miklu styrkgreiðslum til landbúnaðarins. Við erum komnir í svo mikla sjálfheldu, að við mættum gjarnan leggja þessi mál niður fyrir okkur. áður en þetta mál fer lengra, og gera okkur grein fyrir, í hvaða vanda við er 1567 Lagafrumvörp samþykkt. Dýrtíðarráðstafanir (frv. meiri hl. fjhn. Nd.). um komnir. Í útvarpsræðu, sem ég flutti um þetta efni, gerði ég grein fyrir því, hvað búið er að borga og hvað er áfallið af uppbótum, og væri ekki úr vegi að rifja það upp aftur. Búið er að greiða úr ríkissjóði í uppbætur á útfluttar afurðir okkar 57 millj. króna. Þar að auki hefur verð á innlendum markaði verið greitt niður, og hefur það fyrst og fremst verið gert fyrir framleiðendur í sveitum, a.m.k. eru það fulltrúar þeirra hér á þingi, sem hafa beitt sér fyrir þessum niðurgreiðslum. Nema þær greiðslur fyrir þetta ár 34 millj. króna. Allar þessar fúlgur fara forgörðum að því leyti, að það sést ekkert eftir af þeim, sem getur orðið til varanlegs gagns fyrir landbúnaðinn. Þessu fé er dreift milli manna, án þess að það sé notað til stórra átaka, að koma á. ýmsum framförum í sveitunum. Það er síður en svo, að þetta verði til þess að lækka verð á landbúnaðarafurðum á þann hátt, að framleiðsluafköstin verði aukin. Við getum ekki lækkað verðlag á landbúnaðarafurðum, nema með því að skerða kjör almennings og framleiðsluna í sveitunum, en við gætum aftur notað þetta fé til þess að auka framleiðslu okkar með mjög lítið auknum tilkostnaði og stórminnkuðum framleiðslukostnaði. Það er mikið kvartað undan því, að framleiðslan sé svo dýr, kaupið svo hátt, að við séum að útiloka okkur frá því að geta selt vörur okkar á erlendum markaði sambærilegu verði við aðrar þjóðir, sem selja sömu vöru á sama markaði. Við vitum það líka, að ef íslenzka þjóðin getur ekki selt vörur sínar á erlendum markaði, er illa farið fyrir henni og allt komið í strand. En við vitum það líka, að nærri því 2/3 af kaupgjaldinu og aðalástæðan fyrir þessu mikla verði á öllu eru innlendu landbúnaðarafurðirnar. 2/3 hlutar eru dýrtíðaruppbót, sem að 3/4 hlutum orsakast af innlendu vörunum, þannig að ef okkur tækist að minnka framleiðslukostnað innlendu varanna, kjöts og mjólkur, mundi kaupgjald af þeim ástæðum lækka þegar í stað, og það væri bezta ráðstöfun, sem hægt væri að gera, til að gera okkur samkeppnisfæra erlendis.

Á síðasta þ. farmanna og fiskimanna var rætt um afkastagetu atvinnuveganna til sjávar og sveita. Ég hef ekki séð ályktun þ. um þetta, en mig minnir, að fram kæmi, að hjá sjómönnum væri afkastageta sjötugföld á við bændur. Ég veit ekki, hvort þessi tala er rétt, en hins vegar er enginn vafi á því, að afkastageta sjávarútvegsins er að minnsta kosti þrítugföld á við afköst landbúnaðarins. Þó að við höfum að vísu ekki fullkomnustu tæki í sjávarútveginum, erum við þó sambærilegir við menningarþjóðirnar í því efni, en vinnubrögðin í landbúnaðinum eru aftur á móti neðan við allar hellur, svo að við erum í rauninni ekki færir um að flytja út landbúnaðarvörur. Þetta er hið mikla vandamál landbúnaðarins, þó að fulltrúar bænda virðist ekki sjá aðra hlið á því en ímyndaða nauðsyn þess að spenna upp verðið á landbúnaðarafurðum. Þeir hafa aldrei séð annað ráð til að bæta kjör bænda en hækka verðið og láta ríkissjóð borga mismuninn, en þeim hefur aldrei dottið í hug að gera stórfelldar skipulagsbreytingar. Ég get sagt það fulltrúum bænda á Alþ., að þetta er siður en svo að gera bændastéttinni greiða. Það er reyndar ekki von, að bændur neiti að taka við t.d. 50 þús. kr. úr ríkissjóði, 1568 ef þeir eiga þess kost. Það er ekki nema mannlegt. En ég held, að þeir geri sér yfirleitt ljóst, að þetta er stílað upp á atkv. þeirra. Er enginn vafi á, að bændur eru flestir svo greinagóðir menn, að þeir sjái, að þetta getur ekki gengið svo til lengdar, að það er engin varanleg lausn á vandamálum þeirra, að ausið sé tugum millj. úr ríkissjóði. Það er verið að greiða stórar fúlgur úr ríkissjóði til að stöðva alla atvinnuþróun í landbúnaðinum, og þetta kemur svo auðvitað niður á bændum sjálfum seinna. Á búnaðarþ. því, sem kom saman fyrir nokkru, var samþ. að falla frá þeirri 9,4% hækkun, sem ganga átti í gildi í sept., en jafnframt var gert að skilyrði. að greiddar yrðu verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. En það er nú komið fram, að það, sem bændur slepptu með því að afsala sér þeirri hækkun, sé allmiklu minna en það, sem þeir krefjast að fá greitt úr ríkissjóði í staðinn. Og þegar málið kemur inn í Alþ., er það svo lagað til og sett ýmis ný skilyrði, sem bændur hafa gleymt, en ekki fulltrúar þeirra, þ.e. bændur fallast á nærri því 10% lækkun, en svo er bætt við í Alþ. skilyrði um, að ríkisstj. borgi niður verðið í 1 ár, sem kostar áreiðanlega upp undir 20 millj. kr. Þetta skilyrði kemur ekki fram í samþykkt Búnaðarfél. Búnaðarfél. hefur áður lýst sig andvígt því, að innl. framleiðsla yrði borguð niður úr ríkissjóði, og meðal annars fundið upp heitið neytendastyrk fyrir það, þó að það sé vitað, að þeir fjármunir, sem ríkissjóður ver til þessa, eru að níu tíundu hlutum teknir af bæjarbúum.

Í n. var nokkur ágreiningur um skilning á orðalagi frv. Í upphaflega frv., sem samið er af 3. þm. Reykv., er talað um að reikna út hækkunina á landbúnaðarafurðum mánaðarlega sem svaraði grunnkaupshækkuninni, og virðist þetta vera sem næst skilningi búnaðarþ., en í ályktunum þess segir svo um þetta atriði: „Tilboð þetta er gert í trausti þess, að hér eftir fari fram hlutfallslegar kauplækkanir í landinu. Fari hins vegar svo, að samræmingar verði gerðar í kaupgreiðslum, skal hagstofunni falið að afla jafnóðum gagna til að reikna út“ o.s.frv. Þetta vildi ég og sjálfsagt fleiri telja, að þarna sé átt við samræmingu, sem gerð yrði fyrir atbeina félagssamtaka verkalýðsins, að kauphækkanir kæmu út sem hækkun verðs eftir nánari útreikningi hagstofunnar. Í frv. segir: „Verði hækkun á kaupgjaldi á tímabilinu 15. sept. 1944 til 15. sept. 1945, sem áhrif hefur á vísitölu landbúnaðarafurða, ... skal verðlagið hækkað í samræmi við það.“ En maður getur líka sagt sem svo, að hækkun kaupgjalds orsakist af vísitöluhækkun. Það var gerð fyrirspurn til hv. þm. V.-Húnv. á fundi n. um það, hvort átt væri við vísitöluhækkunina eingöngu, en hann vildi ekki gefa nein ákveðin svör. En ef átt er við það, að verðið eigi að hækka í hvert sinn, er vísitalan hækkar, þá eru þeir búnir að fá þetta skrúfað svo upp, að það verkar mánaðarlega í stað þess að verka árlega. Með því væri verið að skipuleggja dýrtíðina einmitt á tímum, er menn geta gert sér vonir um lækkun hennar vegna áhrifa frá útlöndum í sambandi við stríðslokin. Um þetta atriði fengust, sem sagt, engin skýr svör í n., þó að mikið væri um það rætt, en ég vona, að n. gefi málið ekki frá sér, heldur haldi áfram að starfa og setji málið skýrar fram en gert er í þessu frv. Ég álít frv. mjög varhugavert, eins og það er, nema því fylgi full skýring á því, við hvað er átt, svo að allur vafi sé af tekinn. Í dýrtíðarl. 1943 var ákveðið að setja á stofn n., sem skipuð væri 3 fulltrúum neytenda og 3 fulltrúum bænda. Ef n. kæmi sér saman, átti það verðlag, sem hún féllist á, að leggjast til grundvallar. Þegar búið var að skila álíti síðar haustið 1943, var því haldið fram af miklum hluta þm., að skilja bæri ákvæði dýrtíðarl. svo, að ríkissjóði bæri skylda til að greiða bændum þetta ákveðna verð fyrir alla þeirra framleiðslu, hvort sem þjóðin hefði þörf fyrir hana eða ekki, þannig að fyrir það kjöt, sem framleitt væri um fram það, er þjóðin þarfnast og selt væri á erlendum markaði fyrir lítið verð, fengju bændur sama verð og fyrir það, sem selt væri á innlendum markaði, en mismunurinn greiddur úr ríkissjóði. Þá stóðu uppi tveir hópar manna á Alþ., og hélt annar fram þessum skilningi, en hinn taldi, að slíkur skilningur næði engri átt. Til þess að fyrirbyggja svipaðan misskilning að þessu sinni tel ég óhjákvæmilegt, að gerð sé frekari grein fyrir því, við hvað sé átt í þessu frv., og vænti þess, að hv. fjhn. gangi þannig frá málinu. Það hefur síðar komið á daginn, að sá skilningur, að ríkissjóður ætti að ábyrgjast alla framleiðslu landbúnaðarins samkv. dýrtíðarl. og verðbæta allar landbúnaðarvörur að fullu, var ekki annað en leikaraskapur, því að formaður Framsfl., HermJ, hefur lýst yfir því, að enginn hafi skilið þetta þannig, þó að Framsfl. geri þann skilning að sinni aðalröksemd í málunum. Það er í sjálfu sér gott, að þetta er komið fram. Það getur reyndar verið, að þó að þetta frv. yrði samþ. svona óljóst, fengjum við slíka skýringu síðar meir, en ég held, að bezt væri, að aldrei hefði komið til slíks misskilnings og Alþ. gæti verið sammála um skilninginn frá upphafi.

Þetta mál hefur verið mjög rætt í sambandi við stjórnarmyndunina, og minn flokkur hefur lýst yfir því, að hann muni, vegna þeirrar nauðsynjar, sem fyrir hendi er, ekki láta stjórnarmyndun stranda á þessum kröfum bænda um 25 millj. Þetta er að vísu mikil upphæð, en þegar athugað er, að bæjarbúar eru þegar búnir að láta af hendi 70–80 millj. til þessara hluta, og þegar það er athugað, að þeir eiga mest í húfi, að gengið sé þannig frá atvinnumálunum, að fólkið geti haft örugga atvinnu, þá er ekki rétt að horfa í þessar 25 millj., ef þær geta orðið til þess, að samkomulag geti skapazt meðal þjóðarinnar og hægt geti verið að endurskipuleggja atvinnulífið þannig, að öllum landsmönnum sé tryggð atvinna. Þannig er okkar afstaða til málanna. En sé það hins vegar ætlunin að gera ekkert til að tryggja atvinnulífið og ef ýmsir valdamenn þjóðfélagsins reyna heldur að draga atvinnuna saman en hitt, þá horfir málið öðruvísi við, — þá veitir ríkissjóði ekki af þessum peningum til að forða fólkinu frá hungri. Ef þjóðin gengur einhuga að því að nýskapa atvinnulífið, þá eru þessar 25 millj. kr. smámunir, en ef hins vegar á að fara að draga saman atvinnulifið og láta allt molna niður, þá hefur þjóðin ekki efni á því að láta þessar milljónir. Það er óþarfi að fara út í það, hversu ójafnt þessum milljónum er skipt niður á bændur. Þeim er úthlutað eftir þeim reglum, að sá stærsti fær mest, en sá minnsti lítið og stundum ekkert. Það er vitað, að tekjumestu mennirnir í sveitunum hafa fengið tugi þúsunda úr ríkissjóði sem uppbætur á sína framleiðslu. Fulltrúar bænda neita að gefa nokkra skýrslu um, hvernig þessum fjárfúlgum er skipt niður. Á síðasta þ. kom fram þáltill. um þetta, og hef ég sjaldan séð þessa hv. fulltrúa öllu æstari en þegar till. kom fram yfir því, að farið var fram á að fá að vita nánar um þetta. Þeim fannst það hámark ósvífninnar að krefjast reikningsskila um það, hvernig 80 millj. upphæð úr ríkissjóði væri skipt upp. Þessar upphæðir eru afhentar framkvæmdastjórum S.Í.S., og þeir annast útbýtinguna. Ef einhver kallar ekki eftir því fé, sem honum ber, virðist það verða innlyksa hjá S.Í.S., en það aldrei krafið uppgjörs.

Ég vil að lokum mælast til við hv. fjhn., að frv. verði rækilega endurskoðað, að orðum verði hagað þannig, að ekki geti valdið misskilningi og það komi greinilega fram í nál., við hvað er átt í ýmsum gr. þess.