06.10.1944
Neðri deild: 60. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (4209)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sveinbjörn Högnason:

Ég hef flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 391 ásamt hv. 1. þm. Árn. Hún er þess efnis, að við frv. verði bætt nýrri gr., er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir sama tímabil og til er tekið í 3. tölulið skal ríkisstj. kosta kapps um, að verðlagsvísitalan fari ekki yfir 272 stig, enda skal ríkisstj. heimilt að verja í því skyni fé úr ríkissjóði, eftir því sem með þarf.“ Það mun hafa verið tilætlunin, eins og kemur fram í till. búnaðarþ., að þessi framlagseftirgjöf, sem þeir samþ., yrði til að varna því, að dýrtíðin hækkaði úr því, sem er, og er tekið fram, að ætlazt er til, að tilsvarandi lækkun komi annars staðar að, svo að dýrtíðin fari lækkandi, en ekki hækkandi. Ef þessi l. eru samþ. án nokkurrar tryggingar fyrir því, að verðlagsvísitalan haldist það tímabil, er þau eru í gildi, er ekki að öllu breytt eftir því, sem til er ætlazt, er bændur bjóðast til að falla frá þeirri hækkun, sem þeim bar. Það er því ekki nema sjálfsagt, að þessu fylgi ákvæði um, að verðlagsvísitalan haldist niðri þetta tímabil. Ég held, að ekki þurfi fleiri orð um þetta, svo augljóst sem það er.

Ég get ímyndað mér, að hv. þm. yfirleitt líti á mál bænda með meiri sanngirni en hv. síðasti ræðumaður, og ég get ekki látið hjá líða að víkja nokkrum orðum að ræðu hans. Málflutningur hv. þm. Siglf. er þannig, að erfitt er að halda sér við veruleikann eins og hann er í málinu. Öfgarnar eru svo miklar og firrurnar eru svo miklar, að það er alger óþarfi til skilningsauka fyrir hv. þm. að fara að ræða þau atriði, sem hann hefur flutt, vitanlega í þeim tilgangi að koma þeim í þingtíðindin og endurtaka nógu oft, ef einhverjir yrðu þá til að trúa þeim. Hv. þm. Siglf. talar af hita um, að ýmis atriði frv. séu óframkvæmanleg. Væri æskilegt að vita, hvaða ákvæði frv. hann á við, því að vitanlega eru þessar umræður gerðar til þess að skýra fyrir hv. þm., hvernig ýmis atriði skuli orðuð. — Þá segir hv. þm., að tilboð það, sem bændur hafa gefið, með því að gefa eftir 9,4% hækkun á söluverði framleiðsluvara þeirra, og þeim ber samkvæmt l., muni kosta ríkissjóð sennilega 20–25 millj. króna. Þetta er mjög skilmerkilegur og drengilegur málflutningur! Í ræðu, sem hv. þm. Siglf. hélt við útvarpsumræður hér um daginn, sagði þessi sami hv. þm., að eftirgjöf bænda mundi nema 10 millj. króna, en nú eru þessar 10 millj. orðnar að 20–25 millj., sem ekki er eftirgjöf. heldur krafa frá bændum á ríkissjóð. Er því nokkuð erfitt að samræma núverandi ummæli við fyrrverandi málflutning þessa hv. þm., enda vitað, að þessi eftirgjöf bænda á hækkun á afurðaverði þeirra, sem þeir bjóða fram, er þeim heimil frá 15. september síðast liðnum til 15. september 1945. Eins er það vitað, að ef bændur hefðu haldið fram þessari kröfu, hefði sú fjárhæð, sem þyrfti til þess að halda niðri verði á innlendum landbúnaðarafurðum, numið miklu meira en 20 millj. króna, ef bændur hefðu átt að geta fengið svipað verð fyrir afurðir sínar og samkv. álíti sex manna nefndarinnar. Þetta er því vægast sagt hæpinn málflutningur, svo að ekki séu viðhöfð sterkari orð hér á Alþ. — Ég ætla mér ekki að deila við hv. þm. Siglf. um það, að niðurgreiðslur landbúnaðarafurða séu fyrst og fremst fyrir bændur. Bændur hafa sjálfir afbeðið á ýmsan hátt, að niðurgreiðslur fari fram, ef hægt væri að komast hjá þeim, ekki aðeins þeirra vegna, því að þeir hafa verið svo víðsýnir, að þeir hafa ekki horft aðeins á sinn hag, þar sem þeir vita, að þeirra hagur er bundinn við almenningsheill og að ef atvinnulíf landsmanna hrynur, þá er það þeirra hrun og allrar þjóðarheildarinnar. Þannig má það til sanns vegar færa, að þessar niðurgreiðslur séu gerðar fyrir bændastéttina, því að þær eru gerðar fyrir alla landsmenn. Hins vegar vill hv. þm. Siglf. koma óorði á bændur með þessu, því að þeir eru víðsýnni heldur en hann og aðrir þeir, sem hann vinnur fyrir. — Ég ætla mér ekki að fara mikið út í þá sálma, að framleiðslukostnaður landbúnaðarafurða sé svo mikill, að ekki sé hægt að reka hann, og að 2/3 eða 3/4 dýrtíðarinnar, ég man ekki hvort heldur hann sagði, stafi af framleiðslukostnaði landbúnaðarafurða. Hins vegar hef ég heyrt, að reiknað hafi verið út, að dýrtíðin stafaði að hálfu leyti af söluverði landbúnaðarafurða, en veit þessi hv. þm., að 90% af framleiðslukostnaði vísitölunnar er kaupgjald, sem hann telur sjálfsagt að hækka? Furðar hann sig á því, þegar búið er að setja upp sexfalt kaupgjald samanborið við kaupgjald í nágrannalöndum vorum, þótt söluverð landbúnaðarafurða hér á landi sé hátt? Hann undrast einnig yfir hlutfallinu milli afkasta landbúnaðarins og sjávarútvegsins, en það má vera, að sjávarútvegurinn sé rekinn með nýrra sniði, þótt margt sé þar einnig útrelt, og segir, að hlutfallið sé þar 1:70 með sama vinnuafli. Nú er það vitað, að framlög landbúnaðarins hljóta að vera yfir 100 milljónir króna, ef tæplega 10% eftirgjöf bænda á söluverði framleiðsluvara þeirra er 10 milljónir króna, eins og hv. þm. Siglf. hélt hér fram við útvarpsumræður, og nema þá framlög sjávarútvegsins 7 milljörðum króna samkv. ofangreindu hlutfalli. Kannske koma einhverjar slíkar tölur inn á reikninga hjá hans flokki, þótt ég hafi hvergi séð þær annars staðar eða nefndar, og jafnvel þótt hann slái af þeim um helming eða niður fyrir helming og niður í þrítugfalt, þá fæ ég ekki heldur séð, að framlög sjávarútvegsins séu svo mikil. Þannig er þessi samanburður því alveg út í loftið og er aðeins til þess að níða þá menn, sem landbúnað stunda, eins og hann og hans fylgifiskar hafa reynt að gera hér gagnvart þeim mönnum. sem flytja frv. þetta. Mun það verða lærdómsríkt að sjá. hvernig þessir menn líta á afstöðu landbúnaðarins, eftir að þeir sjálfir eru búnir að ráða við 90% vísitölunnar, sem er kaupgjaldið, þannig að margir framleiðendur eiga orðið erfitt með að standa undir sínum atvinnurekstri. — Hv. þm. Siglf. sagði, að fulltrúar bændastéttarinnar hefðu aldrei haft augun opin fyrir öðru en að pressa upp verð landbúnaðarafurða, þrátt fyrir að búnaðarþingið hefur nú boðið fram 9,4% eftirgjöf á hækkun á söluverði framleiðsluvara bænda. Hins vegar er þessi hv. þm. og fylgifiskar hans að heima hækkun til handa verkamönnum í öllum félögum, hvar sem er í landinu. Ég verð að segja, að það þarf talsverða dirfsku til að tala svona af þessum hv. þm., og hygg ég, að margir myndu kalla, að það þyrfti talsvert blygðunarleysi til undir þeim kringumstæðum, sem hér eru fyrir hendi, þó að vitað sé. að þetta er sú vinnuaðferð, sem fulltrúar verkamanna og ekki hvað sízt forkólfar Sósfl. hafa eingöngu notað enn þá í sinum vinnubrögðum, sem sé að hækka krónutöluna hjá verkamönnum, hvað sem það kostar mikið fyrir þjóðfélagið og hversu hátt sem dýrtíðin fer upp. Það er hins vegar vitað, að landbúnaðurinn framleiðir miklu meira með minna vinnuafli en hann gerði fyrir 10–20 árum, þrátt fyrir það að hann hafi misst mikið af verka fólki sínu til kaupstaðanna, enda þótt mér heyrist, að söngurinn úr þessum sósíalistahúsum sé stundum á þann veg, að fulltrúar bænda séu ekki að hugsa um annað en að hækka verð landbúnaðarafurða og geri freklegar kröfur til verðuppbóta í sveitunum og sé ekkert vit í því, hversu mörgum millj. þurfi að verja til þessara framkvæmda í sveitunum. — Þá talaði hv. þm. Siglf. um það, að með þessu frv., sem hér er lagt fyrir, væri verið að hjálpa til, að dýrtíðin hækkaði örar en áður, og er þar með augljóst, hvern hug hann ber gagnvart tilboði bænda um 9,4% eftirgjöf á hækkun á söluverði framleiðsluvara þeirra, en í því segir með leyfi forseta:

„Tilboð þetta er gert í trausti þess, að hér eftir fari fram hlutfallslegar kauplækkanir í landinu.“ Hins vegar segir svo, að sé þessi skilningur ekki fyrir hendi, vegna öfugra starfsaðferða fulltrúa verkamanna, óski þeir eftir, að hækkanir fari þar með fram mánaðarlega, ef það reynist svo, að allar aðrar stéttir reyni ekki að standa við dýrtíðinni. Eftir að bændur vilja tryggja sig fyrir þessu, þá segir hv. þm. Siglf., að þetta ákvæði sé aðeins til þess að gera auðveldara um hækkun dýrtíðarinnar, og er þá augljóst, hvað hann hefur í huga gagnvart dýrtíðinni, og þar sem komið hefur í ljós, að hann vill halda áfram kröfum um kauphækkanir, þótt stærsti framleiðandinn, bændur, séu búnir að bjóða fram sinn hluta, eins og kunnugt er. Kannske heldur hv. þm. Siglf., að æskilegra hefði verið til þess að hægt hefði verið að níðast á bændum, að verð á afurðum þeirra mætti ekki hækka fyrr en eftir allt árið, þótt allar aðrar stéttir hækki kaupgjald sitt mánaðarlega? Annars er gott að heyra hug manna um þessi efni og hvort þeir vilja taka höndum saman við bændastéttina um að lækka dýrtíðina. En hv. þm. Siglf. hefur lýst því mjög vel, að hann og hans flokkur hugsa til áframhaldandi viðnáms. Það kemur bændum hins vegar ekki á óvart, þótt þessir menn hugsi á þessa leið, því að vitað er, að á þeim stöðum er hugsað meira um að gefa fagrar yfirlýsingar, en hugsa flátt og hlaupa svo frá flestu, sem sagt er. — Finnst mér svo ekki ástæða til að ræða um þetta frekar, en vil taka fram að lokum, að ég er ekki samþykkur hv. þm. A.-Húnv. um, að það sé um að gera að flýta þessum málum sem allra mest, þar sem vitað er, að í sambandi við þetta mál er ýmislegt, sem þarf að leysa og bændur þurfa að fá tryggt, en hins vegar er ekki hægt að gera á skömmum tíma, t.d. varðandi tekjuöflun og að tryggja útgjöld, sem þessu eru samfara. Í þessu frv. hefðu átt að vera ákvæði um þessi efni, en þar sem svo er ekki, álít ég, að afgreiðsla þessa frv. eigi að bíða eftir því, að framan nefnd verkefni séu leyst, ef góður árangur á að nást. Legg ég því meiri áherzlu á, að málinu sé ekki hraðað, fyrr en önnur skilyrði, sem bændur hafa sett, fáist uppfyllt af Alþ.