10.10.1944
Neðri deild: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (4219)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég hef leitt hjá mér þessar umræður, en mun þó ekki spinna lopann eins og hv. þm. Siglf. hefur nú gert með löngum ræðum. Mér hefur verið sagt, að umr. í gær hafi snúizt mikið um það, að þeir, sem kjötsölu hafi haft með höndum, hafi haldið kjötinu fyrir landsmönnum og neitað um, að það yrði borgað niður, og sagði hv. þm. Siglf. þetta sama í dag. Þess vegna stend ég hér upp til þess að mótmæla þessu, og þó að ég viti, að almenningur veit, hvernig þessu er farið, þá virðast margir hv. þm. ekki hafa réttan skilning á þessu. Það er vitanlega margt, sem kemur til greina í þessu sambandi, en það er þó sérstaklega eitt, sem ég vildi hér minnast á, ert það ex það, að á meðan verð á dilkakjöti verkaði svo mikið á verðlagsvísitöluna snemma í sumar, þá reyndist ekki fært að láta það koma á markaðinn. Það er kunnugt, að dilkar vaxa allt sumarið og að þeir vaxa meira í júlí heldur en í september, og af þeim ástæðum fer kjöt af þeim dilkum, sem slátrað er snemma, í hærra verð á sumrin heldur en á haustin, eða er 50% hærra í júlí heldur en í september, sem er bæði af því, að þá eru dilkarnir fullvaxnir, og af því að tíminn, sem fer í að koma þeim til slátrunar og slátra þeim, er mun dýrmætari á sumrin heldur en á haustin.

Ef slátrun hefði hafizt fyrr í sumar, hefði kjötið komið á markað verið um 50% hærra en nú. Það er því mjög fáfengilegt, ef menn eru að ásaka kjötverðlagsnefnd fyrir, að kjötið kom ekki fyrr á markaðinn en raun varð á, eins og hv. þm. Siglf. gerir, þegar þeim er þetta kunnugt.

Það er ekki gott til þess að vita, að á Alþ. skuli hafa náð sæti menn, sem eru svo skyni skroppnir að ætla, að með þessu sé kjötverðlagsnefnd að halda í kjötið við neytendur. En það er alltaf hægt að finna eitthvað upp til að deila um. Það er óþarft að fjölyrða frekar um þetta. Það er flestum ljóst, að það var ekki á valdi kjötverðlagsnefndar að senda kjöt á markaðinn í sumar. Ríkisstjórnin mundi aldrei hafa leyft það. Mundi hv. þm. Siglf. hafa samþ. það? Nei.

Ég get ekki skilið þýðingu þess að halda meira en klukkustundar ræðu hér á Alþ., eins og hv. þm. Siglf. gerði áðan. Er Alþ. stefnt saman, til þess að hv. þm. gefist kostur á að spinna lopann, eins og hv. þm. Siglf. gerði? Heldur þessi hv. þm., að slíkt hafi nokkur áhrif? Ég fullyrði, að slíkt hefur ekki nokkra minnstu þýðingu, hvorki nú né í framtíðinni. Engum dettur í hug að trúa fullyrðingum hans. Hv. þm. Siglf. sagði í ræðu hér á dögunum, að bændur væru búnir að fá 80 millj. króna í uppbætur. Það er stundum talið nokkuð mikið, þegar ýkt er um helming, og raunar ekki á færi annarra en þeirra, sem taka að sér hlutverk Leitis-Gróu. En hv. þm. Siglf. gerir það án þess að blikna eða blána. Það eru sem sé ekki 80, heldur 45 millj. króna, sem farið hafa í uppbætur og niðurgreiðslur innanlands og aðeins lítill hluti til bænda. Mest hefur farið til niðurgreiðslu vara á innlendum markaði. Þessar niðurgreiðslur eru ekki í þágu bænda, eins og hv. þm. Siglf. veit, helur til þess að halda niðri dýrtíðinni og í þágu atvinnuveganna. Hvaða atvinnuvega? Hann veit það ekki. Ég skal þá segja honum það. Það er í þágu útgerðarinnar og frystihúsanna. Það er vitað mál, að útgerðin mundi stöðvast og frystihúsin gætu ekki starfað að öðrum kosti. En bændur gætu samt sem áður framleitt og notað þann vinnukraft, sem þeir hafa yfir að ráða. Það er þess vegna allt öðru máli að gegna með bændur en þá, sem framleiða í stórum stíl. Þeir, sem hlustuðu á ræðu hv. þm. Siglf. áðan, gátu ekki gert að því að verða varir mótsagna hjá honum. Hann sagði, að það væri talin spilling að heimta 10% kauphækkun, en svo vill hann láta lækka framleiðslukostnaðinn. Það þarf sterk brjóst til að bera slíkt fram. Hvað gerir framleiðsluna dýra? Hv. þm. Siglf. veit það ekki. Þegar þessi hv. þm. talar um að lækka framleiðslukostnaðinn, talar hann um 10% kauphækkun. En honum er nauðsynlegt að vita, að framleiðslukostnaðurinn er svo hár vegna þess, að kaupið er skrúfað hátt.

Það er talað um ódýra ameríska framleiðslu, smjör, fatnað og fleira. Flokksbræður hv. þm. Siglf. hafa komið því til leiðar, að klæðskerar hafa gert verkfall. Þeim, sem reka saumastofurnar, finnst það ekki gera neitt til. Þeir hafa flutt inn föt frá Ameríku, sem eru ódýrari, eftir að lagt hefur verið á þau eins og lög heimila, en föt, sem hér eru saumuð. Er ekki rétt að minnast á amerísku fötin um leið og ameríska smjörið? Hvernig er það ekki líka með húsgögn frá Ameríku? Þegar búið er að borga tolla af þeim, eru þau samt ódýrari en vinnulaun við að smíða þau hér. Efni þarf ekki að reikna. Það gildir því hið sama um landbúnaðar- og iðnaðarvörur. Þetta þarf þessi hv. þm. að gera sér ljóst, þegar hann talar um dýrtíðina og orsakir hennar. Ef um hugarfarsbreytingu væri að ræða hjá honum og hann vildi vinna gegn dýrtíðinni, verður hann að vita, að iðnaðarframleiðslan hér á landi yfirleitt, hinn mikli kostnaður við hana, á mikinn þátt í því, hve mikil dýrtíðin er. Þegar þetta er orðið ljóst, mun ekki einu sinni hv. þm. Siglf. efast um, að dýrtiðin stafar af því, að kaupgjaldið er óhóflega hátt. Þá mundi þessi hv. þm. hætta að furða sig á dýrtíðinni. Ef kaupið lækkaði, mundi verð landbúnaðarafurða lækka um leið. Þá er enn ein fullyrðing hv. þm. Siglf., sem ekki fær staðizt. Hann talaði um, að þær millj., sem settar hefðu verið í landbúnaðinn, hefðu ekki komið að notum. Það er ekki rétt, heldur hafa þær orðið að miklu gagni. Þegar litið er yfir síðustu 10–20 ár, sést, að geysibreyting hefur orðið á íslenzkum landbúnaði. Það eru ekki meira en 20 ár síðan farið var að slétta túnin að ráði, og þótt fólkinu hafi fækkað í sveitunum, hefur framleiðslan aukizt. Það stafar af síaukinni ræktun og því, að vélar hafa verið teknar í þjónustu landbúnaðarins. Þetta sýnir, að bændurnir skilja. hvað þarf og á að gera. Þeir vita, að ekki er hægt að umbylta öllu á einu ári, eins og hv. þm. Siglf. vildi vera láta. Þeir vita, að ekki má brjóta meira land árlega en hægt er að vinna að fullu samsumars, og að ekki er hægt á fáum árum að gera túnin svo stór, að þau fullnægi heyskaparþörf þeirra. En þeim er ljóst, að þeir mega ekki hætta að auka túnin, fyrr en svo er komið.

Við hv. þm. Siglf. erum sammála um, að það beri að auka tæknina við landbúnaðinn. En við erum ósammála um, að það beri að svelta bændur, á meðan framleiðslumöguleikar þeirra eru að komast í viðunandi eða gott horf, láta þá deyja drottni sínum, ef svo vill verkast.

Hv. þm. Siglf. segir, að landbúnaðurinn beri sig, ef tækni sé nóg. En það nægir ekki, þótt vélar séu fyrir hendi. Kaup og fríðindi þess fólks, sem stjórnar vélunum, getur valdið því, að búin beri sig ekki, og þess vegna mun t.d. Hólsbúið á Siglufirði ekki bera sig. Svo ósanngjarnt getur kaupið verið. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. Siglf. álíti, að það stafi af því, að búinu sé svo illa stjórnað. Ég veit ekki, hvort hann álítur, að þetta sé orsök þess, að búið ber sig ekki, eða að kaup og fríðindi starfsfólks þess sé óhóflegt. En ef þetta er spegilmynd af því, sem verða á að hans dómi, þá gætu þær upplýsingar, sem hann óviljandi, gaf, orðið okkur til aðvörunar.

Hv. þm. Siglf. talaði um of mikla kjötframleiðslu og að það bæri að keppa að því, að ekki væri framleitt meira en það, sem fullnægði innlendum markaði.

Árið 1943 var slátrun óvenjulega mikil og meira flutt úr landi en nú. Nú verður slátrun mun minni, og getur hv. þm. Siglf. huggað sig við það, að framleiðslan heldur áfram að minnka, ef áhrifa hans og flokks hans gætir til muna. Hann getur setzt niður og reiknað út afleiðingar þess, ef ungbörn kaupstaðanna hætta að fá mjólk og bæirnir fengju ekki kjöt eftir þörfum. Hvað heldur hv. þm. Siglf., að það taki langan tíma að leggja sveitir þessa lands í eyði? Að því hlýtur að reka, ef áhrifa sósíalista gætir, og að því stefna þeir af ráðnum hug. En ég vona, að þjóðinni verði forðað frá því, og mun ég leggja mína krafta fram til að vinna móti áhrifum þeirra.

Af því að þessi flokkur er þetta stór og þetta margir, sem á þá hlusta, þarf ekki að óttast of mikla landbúnaðarframleiðslu næstu 2 til 3 árin. Svo mikið hafa sósíalistar fengið að gert. Hv. þm. Siglf. talaði um, að nauðsynlegt væri að færa byggðina saman. Þetta er nú ekki ný plata. Í stað þess að framvegis eins og hingað til verði blómleg sveitasetur í landinu, á að færa byggðina saman í þorp. Ég hef út af fyrir sig ekki á móti því, að þorp myndist í sveitum þar, sem aðstæður leyfa, en ég er andvígur því, að það sé gert á þann hátt, sem sósíalistar vilja. Ég vil ekki, að byggðirnar færist saman. Ég vil ræktun landsins og fylla í eyðurnar eins og mögulegt er. Á þennan hátt vil ég vinna að ræktun í byggðum Íslands. Þegar búið er að fylla í eyðurnar, sem nú eru óneitanlega alltof stórar milli íslenzkra sveitabæja, þá skapast skilyrði til þess að láta sveitafólkinu í té rafmagn og önnur þægindi.

Það getur ekki góðri lukku stýrt, ef farið er eftir till. hv. þm. Siglf. í þessu efni. Hann vill kúldra byggðinni niður í þorp, án þess að lífsskilyrði séu fyrir hendi. Þótt hann viti það ekki nú, þá verður hann að vita, að það er ekki nóg, þótt landið sé vel ræktað, það nægja ekki fáir fermetrar lands, þótt vel ræktað sé, til lífvænlegrar afkomu þeim, sem við það eiga að búa. Það er fullyrðing út í loftið, þegar hv. þm. Siglf. talar um, að hans flokkur vilji vinna fyrir bændur, en við ekki. Því trúir enginn maður, hvorki hér á Alþ. né annars staðar, að sósíalistar vilji skapa þeim, sem í sveitunum búa, viðunandi lífskjör, vegna þess að öll framkoma þeirra miðar að því að flæma fólkið burt úr sveitunum. Hv. þm. Siglf. trúir ekki þessari fullyrðingu sinni sjálfur, hvað þá aðrir.

Hann sagði, að það væri talin spilling að tala um 10% kauphækkun. Ég ætla ekki að ræða það mál mikið, þótt ég staðhæfi, að það sé spilling að tala um þessa hækkun með því kaupgjaldi, sem nú er. En þetta lýsir bezt hugarfari þeirra manna. sem standa fyrir því að spana fólkið upp til að koma með síhækkandi kaupkröfur. Það lýsir því bezt, hvert þessi flokkur, Sósíalistafl., er að fara, að hann skuli tala um 10% kauphækkun jafnframt nauðsyn þess að færa niður tilkostnaðinn við landbúnaðarframleiðsluna. Og um leið og hann talar um að færa niður tilkostnaðinn við framleiðsluna, verður öllum ljóst, að þetta er gert af eintómri hræsni. Þessi hv. þm. var að tala um þröngsýni bændafulltrúa. Hún lýsti sér helzt í því, að þeir skuli telja það spillingu, að enn sé heimtað hærra kaup. Það er nú meiri þröngsýnin! Það er ekki þröngsýni að nefna það spillingu að heimta hækkað kaup, eins og nú er komið: Hitt er þröngsýni, ef nokkur þm. telur það ekki leiða til vandræða að heimta hækkað kaup, því að það ætti öllum mönnum að vera ljóst, hvað af því mundi leiða. Hv. þm. kom með dæmi um það, hve verðlag væri orðið brjálað á landbúnaðarafurðum, að það hafi sexfaldazt frá því árið 1934, en kaupgjald hafi aðeins ferfaldazt. Ef ég hefði ekki hlustað á alla ræðu hv. þm. áðan, þá hefði ég haldið því fram, að hann hefði mælt af ókunnugleika eða honum orðið mismæli. En af því að ég heyrði, að öll ræðan var full af mótsetningum og fullyrðingum, get ég vel trúað því, að hv. þm. hafi komið með þessar fullyrðingar, þótt hann viti, að þær séu rangar. En ef ég er hér með rangar getsakir á hv. þm. og hann hafi talið sig fara með rétt mál, þá vil ég segja honum, að kaupið fyrir stríð var í vegavinnu 90 aurar um tímann í Rangárvallasýslu, en kvað nú vera kr. 5,40 um klst. og 6 X 0,90 eru kr. 5,40, svo að það er augljóst, að kaupið hefur meira en sexfaldazt. Ég held, að hv. þm. hafi vitað þetta áður. En hafi hann vitað það, þýðir ekki að koma með þá fullyrðingu, að verðlag hafi hækkað meir en kaupgjald. Það er tilgangslaust, ef menn geta margfaldað saman 6 og 9. Hv. þm. virtist öðru hverju hafa áhyggjur af því, að óánægja sé hjá bændum austanfjalls með samþykktir búnaðarþings og þetta frv. Ég get huggað hv. þm. með því, að það er óþarft að hafa áhyggjur út af þessu, þeir bændur austanfjalls, sem voru óánægðir, eru orðnir ánægðir með þessar samþ., því að bændur tilheyra ekki því fólki, sem vill koma atvinnuvegunum í strand, þeim, sem standa fyrir kaupkröfum. Bændur sýna þegnskap í því trausti, að aðrir komi á eftir, jafnvel þótt menn séu svo þröngsýnir að sjá ekki, hvað af því leiðir að heimta hækkað kaup. Ég sé, að það er komið fram yfir venjulegan fundartíma og forseti er farinn að horfa á klukkuna, og læt því máli mínu lokið í þetta sinn.