11.10.1944
Neðri deild: 63. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (4222)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins nokkrar aths. út af ræðu hv. 2. þm. Rang. í gær, þar sem hann var að tala um verðuppbæturnar. Varðandi þetta frv. er það að segja, að það þykir svo öruggt, að það nái fram að ganga, að það var samþ. sérstök þál., til þess að ekkert hlé yrði á uppbótagreiðslunum á milli. Hv. þm. sagði, að þessar uppbætur væru greiddar til þess að halda dýrtíðinni niðri, til þess að útgerðin gæti gengið áfram. Hann sagði, að ef vísitalan fengi að hækka óhindrað. Þá yrði það til þess, að allur rekstur útgerðarinnar stöðvaðist. Það hefur líka heyrzt hjá þessum bændafulltrúum hér á Alþ., að vísu ekki í þingræðu, heldur í einkaviðtölum og hér á göngunum, að það væri allt í lagi með landbúnaðinn, hann gæti gengið áfram, þótt vísitalan hækkaði, en það væri útgerðin, sem þyldi það ekki. Það er rétt, að þessir fulltrúar bændanna eru búnir að koma upp svo fullkomnu kerfi af verðlagsn. með einkaaðstöðu, að þær geta lengi haldið verði landbúnaðarafurða nægilega háu fyrir landbúnaðinn, en það er öðru máli að gegna með útgerðina, og því er henni hætta búin. En ef verið er að gera þetta fyrir útgerðina, hvers vegna er þá ekki farin sú eðlilega leið að hafa vísitöluna rétta og borga útgerðinni þessar 100 millj. kr. til þess að hún geti gengið? Ég er viss um það, að útgerðarmenn hafa ekki beðið bændafulltrúana að fara þessa leið til hjálpar útgerðinni. En þetta er ekki gert fyrir útgerðina, og það er svo merkilegt, að það kemur henni að sáralitlu gagni. Laun hjá útgerðinni eru að mestu greidd með aflahlut, en ekki nema að sáralitlu leyti eftir vísitölu nema helzt hjá togaraútgerðinni, og þó er þar einnig mikill meiri hluti launanna greiddur með aflahlut.

Nei, það þýðir ekkert fyrir bændafulltrúana hér að reyna að halda því fram, að þetta sé gert fyrir útgerðina, þetta er gert til þess að reyna að leyna því, hve landbúnaðurinn er langt á eftir tímanum. Þessir menn eru orðnir hræddir við sín eigin verk og eru að reyna að fela þau fyrir þjóðinni. Það, sem þeir telja sér ekki fært að láta neytendur borga beint fyrir afurðirnar, láta þeir ríkissjóð borga í uppbótum og taka það svo aftur af neytendunum með sköttum, og ástæðan fyrir því er sú, að það er nauðsynlegt til þess að tryggja nægilega sölu á afurðunum hér innan lands.

En verðlag á þessum vörum er nú svo hátt, að það er hreint brjálæði, sem verður ekki þolað lengur, það er svo fráleitt. Nú er ég sannfærður um það, að bændafulltrúarnir standa hér upp á eftir mér og segja það, að ég vilji láta bændur búa við sult og seyru. Ef fundið er að þessu verðlagsnefndafargani, þá er rokið upp til handa og fóta og sagt, að þetta sé fjandskapur í garð bænda. Ég veit ekki, hve lengi þessi áróður þeirra getur gengið, en hann byggist á mannfyrirlitningu þessara fulltrúa, á þeirri von þeirra, að bændur séu svo illa upplýstir, að þetta geti gengið í þá. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að það væri rangt hjá mér, að kaupgjald hefði fjórfaldazt, og hann nefndi eitt dæmi um vegavinnuna. Það mun vera rétt hjá honum. að kaup í vegavinnu hafi verið 90 aurar á tímann einhvers staðar á landinu fyrir stríð. En þetta var ekki þannig alls staðar á landinu, heldur mun það aðeins hafa verið á fáum stöðum. Hann tekur svo þetta einstaka tilfelli og fær þannig út, að kaupið hafi sexfaldazt. Þetta er ekki rangt hjá hv. þm., en það er hægt að fara svo með rétta tölu, að útkoman verði lygi. Ég gæti farið alveg eins að með landbúnaðarafurðirnar og fengið þannig út, að verð á þeim hefði ekki sex- til sjöfaldazt, heldur áttfaldazt. T.d. mun mjólkurlítrinn ekki hafa kostað nema 20 aura í Neskaupstað fyrir stríð, en nú kostar hann 1,70 kr. Það er þannig 81/2 sinnum hærra verð. Ef ég hefði nú farið eins að og þessi hv. þm., þá hefði ég því fengið út, að framleiðslukostnaður mjólkurinnar hefði margfaldazt með 8,5. Þetta er auðvitað jafnrangt eins og hitt, en hið rétta er, að kaupið hefur fjórfaldazt. en framleiðslukostnaður landbúnaðarafurða hefur sex- til sjöfaldazt. Þetta er meira að segja reiknað út af stofnun, sem ætti síður en svo að vera hlutdræg í garð bænda, en það er búreikningaskrifstofa ríkisins. Þessi skrifstofa gefur upp, að framleiðslukostnaður mjólkur hafi vaxið úr 18 aurum upp í 1,32 kr. á líter frá því fyrir stríð og að framleiðslukostnaður kjöts hafi á sama tíma vaxið úr 1,00 kr. upp í 6,82 kr. á kg. þannig að það er rétt, sem ég segi, en þessi hv. þm. fer með rangt mál.

Við ættum að geta verið hreinskilnir og leyft okkur að segja sannleikann hér í þingsölunum, þar sem enginn bóndi hlustar á okkur. Annars er það reglan hjá þessum flokkum bændanna, að þeir hafa lagt allt kapp á það að ná í útúrsnúningsmenn, og þeim hefur verið skjótur frami búinn í þeim flokki, og það er eðlilegt, að þeir flokkar, sem þurfa að bjarga sér á útúrsnúningum, þurfi mjög á þessum mönnum að halda, sem leika sér að því að fara þannig með réttar tölur að lygi komi út.

Hv. þm. talaði einnig mjög um stóla og fatasaum til þess að sýna árangurinn af kaupskrúfu kommúnista, sem hann kallaði svo. Það mun vera rétt hjá honum, að fatnaður sé dýrari. ef hann er framleiddur hér en ef hann er fluttur inn tilbúinn frá útlöndum. Þá er það einnig dæmið, sem hann tók um stólana. Það er mjög skemmtilegt að athuga það ofur lítið betur. Það mun vera rétt, að mikill hluti af verði stólanna liggur í vinnulaunum, en þessi vinnulaun eru svona há vegna þess, hve hátt verðið er nú á landbúnaðarafurðum. Segjum, að einn stóll kosti t.d. 500 kr. og að 400 kr. af því verði liggi í vinnulaunum, þá mun óhætt að fullyrða, að helmingur þeirra sé greiddur vegna þess, hve hátt verðið er nú á landbúnaðarafurðum. (SvbH: Væri þá ekki hægt að gefa stólana, ef landbúnaðarvörurnar kostuðu ekkert?) Það væri áreiðanlega hægt að selja þá mjög miklu ódýrari. ef skaplegt verð væri á landbúnaðarvörum. (SvbH: Vill þá ekki hv. þm. útvega fólk við landbúnaðinn fyrir ekki neitt?) Það er ekki vandamálið, heldur hitt að koma framleiðslunni í það horf, að búrekstur geti borið sig á sæmilegan hátt. Já, það er þetta dæmi með stólana, sem er mjög fróðlegt. Segjum, að við hinir svonefndu kaupkröfumenn teldum það eins mikla nauðsyn að framleiða stóla eins og fulltrúar bændanna telja kjötframleiðsluna. Þá myndum við, ef við færum að hætti bændafulltrúanna, bera okkur þannig að, að við myndum segja við húsgagnasmiðina: „Framleiðið þið stóla og ekkert nema stóla. Svo myndum við selja þá stóla innan lands. sem þörf væri fyrir, og við því verði, sem við teldum nauðsynlegt að fá fyrir þá. Afganginn myndum við svo láta flytja út og láta ríkissjóð borga nauðsynlegar uppbætur á þá til þess að tryggja stólasmiðunum nægilega hátt verð fyrir sína framleiðslu. Þannig er það haft með kjötið. Bændur eru látnir framleiða kjöt, og svo erum við látnir borga uppbætur úr ríkissjóði til þess að tryggja bændum það verð fyrir kjötið, sem talið er, að þeir þurfi að fá.

Annars er þetta sífellda tal um of hátt kaupgjald einungis byggt á fjandskap við alla menningu. Þegar verkafólk hækkar kaup sitt. þá er þar með stuðlað að þjóðfélagslegri breytingu í átt til aukinnar menningar, þannig að fólk, sem ekki hefur getað lifað menningarlífi, það hefur nú fengið tækifæri til þess. En þá þykir einmitt mjög áríðandi að pressa þetta niður aftur. En það er tilgangslaust að ætla sér að reyna að lækka lífskjörin aftur. þegar þau eru einmitt að hækka og þau eiga að hækka. En það er auðskilið, að þetta sé eðlilegur tilgangur þeirra manna, sem eru að reyna að hylja það. hve landbúnaðurinn sé rekinn með úreltum tækjum og aðferðum. En það gengur ekki lengur, og fólkið í bæjunum er tilbúið til þess að leggja fram milljónir kr. til þess að hjálpa bændunum upp á sama sig og það stendur á sjálft. Það er sagt, að bændafulltrúarnir fyrirlíti bæjafólkið, og það kemur oft fram í ræðum þeirra og ritum. Þar er m.a. talað um neytendastyrki og annað slíkt.

Og þeir eru orðnir dauðhræddir um, að hrunið sé að koma yfir þessa bændur. sem þeir telja sig bera fyrir brjóstinu. Ég er sannfærður um það, að ef þessi fyrirlitning á bændum væri ekki svona rík hjá þeim, þá mundu þeir taka höndum saman við okkur og breyta skipulaginu á landbúnaðinum, svo að fólkið geti unað við það. Það er mikill vilji til þess að gera stórfelldar ráðstafanir í þá átt að skapa sveitaþorp, sem gætu veitt öll þægindi kaupstaðanna. En framkvæmdir í þessum málum hafa hingað til strandað á bændafulltrúunum. Þeir vilja hafa það þannig, að sveitafólkið sjái ekkert ókunnugt andlit nema einu sinni í mánuði og að það þurfi ekki að hagnýta sér þann hæfileika að tala, þá væri ekki hætt við, að það tæki þátt í pólitík öðruvísi en þeir vildu vera láta, því að þeir geta ekki unnt fólkinu þess að lifa eins og menn. Til þess að geta haldið þessu öllu í klemmu áfram eru þeir að reyna að skapa öfund hjá bændum til bæjafólksins, en þeir vinna ekkert með þeirri öfund. Það kemur að því, að bændur sjá gegnum blekkingavefinn og snúa baki við þessum herrum. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að ég vildi lækka vöruverðið á landbúnaðarafurðum strax, áður en bændur væru búnir að rækta, og láta þá svelta á meðan. Þetta er hinn herfilegasti útúrsnúningur. Ég tók það fram, að þessa tugi millj., sem nú væru veittir til landbúnaðarins, ætti einmitt að nota til þess að fyrirbyggja það, að bændur þyrftu að svelta á meðan verið væri að breyta skipulaginu. Ástandið er nú orðið þannig, að unga fólkið fæst ekki til að vera í sveitunum nema tíma og tíma, það neitar að þola það að geta ekki verið í samfélagi við annað fólk. Það er alveg sama, hvað við köstum mörgum millj. í landbúnaðinn, eins og hann er nú skipulagður, fólkið fæst ekki til að vera þar. Það á að skipuleggja og hjálpa bændum til þess að byggja sveitaþorp. Það er það, sem gæti rétt landbúnaðinn við. Það er haft eftir einum hv. þm. (þm. Dal.), að hann hafi sagt í samtali við menn, að það væri nauðsynlegt til þess að halda fólkinu í sveitunum að byggja bíó og danssali. Þetta er líka alveg rétt. Það er ekki nema eðlilegt, að unga fólkið í sveitunum vilji lifa menningarlífi, eins og annað fólk, og það verður að búa þannig að því, að það geti það. En bændafulltrúarnir hafa hindrað, að þetta væri hægt. Það hefur verið tekið fram, að þær millj., sem nú er kastað í landbúnaðinn, fara að því leyti til einskis, að þeir, sem fátækastir eru í sveitunum, fá minnst. Hins vegar hinir, sem hafa stórgrætt, fá 100 þús. í viðbót. Svona er farið að því að skipta þessu fé niður. Við höfum farið fram á að fá upplýst, hvernig fénu er skipt, en þá risa bændafulltrúarnir upp og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir, að verið sé að hnýsast í það, hvernig þessu fé sé skipt.

Það kom sér vel, að til skyldu vera ríkisbú á Íslandi, það virðist hafa komið sér sérstaklega vel fyrir bændafulltrúana. Þessir bændafulltrúar, sérstaklega framsóknarmenn. hafa í rauninni verið ráðandi fram á þennan dag s.l. 20 ár, og þeir hafa ekki haft áhuga á því, að ríkisbúin skiluðu arði, því að þá hefði ekki verið hægt að beita þessari röksemdafærslu og segja: Þarna er ríkisbú með fullkomnustu tækjum. Það ber sig ekki betur en svona. — Ríkisbúin eru þess vegna heppileg fuglahræða fyrir þessa bændafulltrúa til þess að vara bændur við því að leggja eyrun við öðru en því, sem þeir leggja til. þ.e. að engu verði breytt, allt verði látið sitja í sama horfinu og verið hefur.

Við sósíalistar viljum, að bændur ákveði sjálfir, hvort þeir vilja hafa einkarekstur á búum sínum eða hvort þeir vilja reka þau í samvinnu við aðra bændur. Það er útilokað, að nokkur samvinna eða samyrkja geti átt sér stað um framleiðslu í sveitum eða blómgazt, nema því aðeins að bændurnir séu sjálfir sannfærðir um, að það sé það rétta. Það hefur því aldrei komið annað til greina af hálfu okkar sósíalista en að þessu yrði hagað á þennan veg. Því hefur hins vegar verið haldið fram af bændafulltrúunum, að við vildum taka af bændum jarðirnar og pína þá inn í ríkisbú, en þetta er hin mesta fjarstæða. En ég er sannfærður um það, að þegar bændur færu að búa við sömu félagslegu staðhættina og bæjarbúar; þá mundu þeir reka sig á það, að það er heppilegt að standa saman, og það er einmitt þetta, sem bændafulltrúarnir sjá. Þess vegna vilja þeir reyna að koma í veg fyrir, að þessi áform takist. Því hefur verið haldið fram hér, að burtstreymið úr sveitunum sé orðið fyrir ráð okkar kommúnista. Ég veit það, að bændafulltrúarnir trúa þessu ekki sjálfir. Þeir vita, að bæirnir, sem aldrei sjá önnur blöð en „Tímann“, tæmast alveg eins og hinir bara fyrir það, að fólkið vill ekki sætta sig við þann steinaldarhátt, sem ekki er samboðinn siðuðum mönnum. Unga kynslóðin neitar að sætta sig við þetta. Íslendingar hafa áður gert uppreisn. Fólkið gerði uppreisn, þegar það flýði til Ameríku. Þá var ekki neinn staður til á Íslandi, sem fólkið gat f,úið til, en nú getur fólkið farið til kaupstaðanna. En það var flóttinn frá atvinnuleysinu, sem neyddi fólkið til að flýja til Ameríku fyrir aldamótin.

Það stóð ekki á því hjá hv. 2. þm. Rang. að benda á úrlausn. Hann vildi þétta byggðina að mér skildist, og mér skildist, að þéttunin ætti að fara fram með þeim hætti að klessa niður nýbýlum hér og þar milli afdalakotanna, sem nú berjast fyrir tilveru sinni, oft með útslitnum gamalmennum. En þetta er einmitt það, sem þeir hafa verið að reyna að gera s.l. 20 ár. Þessir hv. bændafulltrúar hafa reynt svo margt til þess að bjarga landbúnaðinum, en það hefur allt snúizt öfugt í höndum þeirra. Það er rétt að minnast á karakúlhrútana. Hvað ætli þeir séu búnir að kosta landið margar millj.? Nú seinast hefur orðið að skera niður féð í þrem sveitum í Þingeyjarsýslu, og það eru afleiðingar af innflutningi karakúlhrútanna. Sömu söguna er að segja um allar umbótatillögur Framsfl. og bændafulltrúanna yfirleitt. Þeir hafa reynt að berjast á móti þróuninni, en þeim mun lengur sem þeim tekst að hindra þróunina, þeim mun tilfinnanlegra verður hrunið, þegar það kemur, þegar þróunin brýzt fram.

Ég vil ekki láta hjá líða við þessar umr. að taka það skýrt fram enn þá einu sinni, að þetta er engin lausn á málinu, þvert á móti hlýtur það að leiða til hruns fyrir landbúnaðinn. En þessir bændafulltrúar eru ekki viðmælandi, nema þeir fái 25 millj. í viðbót. Það verður að taka því eins og það er, og þó að við hefðum heldur viljað borga 25 millj. til þess að tryggja varanlega atvinnu, viljum við þó heldur greiða þessar 25 millj. til þess að reyna að skapa samstarf, sem er mjög nauðsynlegt til þess að skapa varanlega atvinnu. En eins og frv. þetta er nú mun ég ekki greiða því atkv., ég tel þó ekki ástæðu til að flytja brtt. á þessu stigi málsins, vegna þess að hv. fjhn. hefur frv. enn til meðferðar og athugunar, áður en það kemur til 3. umr., en þá mun ég flytja brtt. á nál. En eins og nú er komið málum, hef ég ekki talið ástæðu til að flytja brtt. og greiði því ekki atkv. með frv., eins og það er.