22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (4235)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. — Nál. á þskj. 1156 um þetta merkilega mál getur ekki styttra verið, og ég ætla, að framsöguræða verði einnig stutt.

Eins og sjá má á nál., þá skrifar meiri hl. nefndarmanna undir með fyrirvara, og við tveir hefðum raunar getað gert það líka, en við lítum svo á, að með samningi þeim, sem gerður var út af samþykktum búnaðarþings síðastliðið haust, hefði þetta verið ákveðið.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta, en mælist til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég vil þó geta þess, að fyrir hreina vangá hjá n. var ekki tekin til athugunar brtt. frá hæstv. landbráðh. En mér virðist brtt. svo sjálfsögð, að ég vildi leggja til, að málið yrði ekki tekið út af dagskrá vegna þessa, ef hæstv. ráðh. vildi mæla fyrir brtt.