06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (4241)

51. mál, hafnargerð í Ólafsfirði

Gísli Jónsson:

Út af ræðu hv. þm. Borgf. vil ég segja það, að þessi till. mín er ekki komin fram af andúð á málinu sjálfu. Hún er komin fram til að samrýma það tvennt að leysa úr vandræðum Ólafsfjarðar og brjóta þó ekki í bág við þær reglur, sem Alþ. hefur sett sér í þessum málum. Og ég hygg, að hefði till. mín legið fyrir hv. fjvn., áður en hún gaf sitt álit, þá hefði hún fallizt á hana. Ólafsfjörður fékk í fyrra sín hafnarl., og Alþ. hefur, eins og kunnugt er, tekið þá stefnu að neita engum um hafnarl., ef uppfyllt eru þau skilyrði, sem l. ákveða, en það er, eins og hér stendur á, að Ólafsfjörður leggi fram 3/5, sem ríkissjóður þó lánar, gegn ábyrgð sýslun. á móti 2/5 framlagi frá ríkissjóði. Nú hefur ekki verið hægt að uppfylla þau skilyrði í þessu tilfelli. En ef það væri uppfyllt, sem tilskilið er í l., þyrfti Ólafsfjörður ekki á hærri upphæð að halda en 120 þús. kr. Nú er ég ekki viss um, að dregið verði úr framlagi til hafnargerðar Ólafsfjarðar á næstu fjárl. Ég gæti a. m. k. frekar trúað, að þessi fjárupphæð, 200 þús. kr., yrði sett inn á næstu fjárl. Það er ekki ósennilegt. Það, sem Ólafsfjörð vantar, eru 200 þús. kr. Þar sem hann getur fengið lán, 120 þúsund kr., og 270 þús. kr. samkvæmt fjárl., þá hefur náðst sú upphæð, sem hafnargerðin í Ólafsfirði þarf alls til þess að bjarga sér út úr vandræðunum, sem hún á við að stríða. Samtímis er svo þeirri stefnu haldið fram, að veita ekki aðra upphæð á sama árinu en ákveðið hefur verið í fjárl. undanfarin ár.

Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að ef farið er inn á þessa braut, hvar er þá stíflan fyrir því, að aðrir komi á eftir? Mér er vel ljós þörfin um land allt fyrir auknar hafnarbætur og játa, að Alþ. á mjög erfitt með að uppfylla allar þær óskir og þarfir. En ég tel ekki nauðsynlegt að brjóta þær reglur, sem settar hafa verið, ef allt á ekki að fara í öngþveiti í þessum málum, og vil því leggja áherzlu á það, að till. mín er ekki komin fram af neinni andúð á málinu. Þess vegna vænti ég þess, að flm. dragi til baka sitt atkv. með þál. og till. verði samþ. hér eins og hún liggur fyrir á þskj. 150.