06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (4242)

51. mál, hafnargerð í Ólafsfirði

Bernharð Stefánsson:

Ég vil tjá hv. fjvn. þakkir mínar fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, og sömuleiðis vil ég þakka hv. formanni n. fyrir lofsamleg ummæli um Ólafsfirðinga. Út af þeim aths., sem komu fram í nál. og einnig í ræðu frsm. um það, að þetta ætti aðeins að vera bráðabirgðaráðstöfun og sjálfsagt væri, að fullnægt yrði síðar ákvæðum 2. gr. hafnarl. fyrir Ólafsfjörð, þá vil ég taka undir þetta. Ég gat um það hér við fyrri umr. þessa máls, að þetta væri hugsun okkar flm., og hafði það aldrei verið ætlun okkar að pretta ríkissjóð með þessari till., heldur að þetta gengi fyrir sig á eðlilegan hátt. Það yrði aðeins veittur þessi stuðningur í bili, af því að það atvik kom fyrir, sem Ólafsfirðingar gátu ekki vitað um fyrir fram, að þeir geta ekki í bili lagt fram þær tryggingar fyrir lánunum, sem gert er ráð fyrir í hafnarl. Ég tel alveg sjálfsagt, að þessum ákvæðum 2. gr. um tryggingar fyrir lánunum, sem ríkissjóður tekur ábyrgð á, verði fullnægt á sínum tíma.

Eins og formaður fjvn. sagði, þá eru til tvær leiðir í þessu máli; í fyrsta lagi, að sýslun. Eyjafjarðarsýslu breyti afstöðu sinni og veiti þessa ábyrgð, eða í öðru lagi hitt, að Ólafsfjarðarkauptún fengi bæjarréttindi. Og þá vil ég skilja það svo, að þar með væri fallin niður og ómerk orðin ákvæði hafnarl. um að áskilja ábyrgð sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Þegar kauptún er gert að bæjarfélagi, fær það algert sjálfræði í fjármálum sínum, þeim sem áður heyrðu undir sýslun. og sýslufélagið. Mér þætti vænt um að heyra álit stj. um það, hvort þetta væri ekki rétt skilið hjá mér.

Út af þeim brtt., sem þm. Barð. flytur á þskj. 150, skal ég ekki hafa mörg orð. Ég vil þá segja það fyrst, að í sjálfu sér vil ég ekki hafa neitt á móti því formi, sem hann vill hafa á þeim stuðningi til Ólafsfirðinga, að þingið veiti ríkisstj. heimild til að veita þeim ábyrgð til lánanna. En sannleikurinn er sá, að eftir viðtal við ýmsa menn hér á þingi, þá hurfum við frá því að hafa slíkt form, því að margir töldu það koma algerlega í bága við þá venju, sem þingið hefði haft, að fara að veita þessa ábyrgð, áður en fullnægt væri ákvæðunum um tryggingarnar. Við sáum okkur beinlínis ekki fært að bera till. fram í því formi, vegna þess að við bjuggumst við, eftir þær undirtektir, sem við höfðum heyrt, að slík till. mundi ekki fá náð fyrir augum þingsins. Þó að hv. flm. þessarar till., hv. þm. Barð., reikni hlutfallið eða hvernig eigi að skipta framlaginu, þá kemur það beinlínis ekki þessu máli við. Ábyrgðin er veitt eftir till. hans án ábyrgðar sýslun. Eyjafjarðarsýslu. Og það má kannske orða það svo, að þetta hefðum við flm. ekki þorað að fara fram á. — Hann sagði, að þessi till. væri ekki borin fram af neinni andúð til Ólafsfjarðar, og ég trúi vel, að svo sé ekki, og hef enga ástæðu til að væna hv. þm. um það, en ég held samt, að till. yrði samkv. þessu, er ég sagði, til þess að eyðileggja málið, þó að ég efist ekki um það, að hún sé borin fram í góðum tilgangi.

Viðvíkjandi upphæðinni, sem hann tiltekur þar, þá er það að segja, að við settum í till. okkar upphæð allt að 200 þús. kr. og eftir beinni ráðleggingu hv. vitamálastjóra. Hann taldi, að það þyrfti fyrir þetta efni 190 þús. kr., sem Ólafsfirðingar hafa ekki ráð á að leggja fram í bili, öðruvísi en þeir fengju lán ellegar efnið fengist keypt með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í till. Ég er hræddur um, að þessi útreikningur þm. hafi verið byggður á eitthvað vafasömum forsendum. Það virtist vaka fyrir honum með flutningi þessarar till., að hjálpin væri veitt eftir sömu reglum og áður, en eins og ég hef sýnt, er það ekki, þar sem ábyrgð sýslun. vantar. Sú ábyrgð, sem Ólafsfirðingar báðu sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu um, var 400 þús. kr., og það er enginn kominn til að segja, að sýslun. hefði neitað um 120 þús. kr., eins og hv. þm. talaði um í ræðu sinni.

Hann átaldi það, að sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu hefði synjað um þessa ábyrgð. Ég skal ekki verja sýslunefndina og skal geta þess, eins og ég vék að við fyrri umr. þessa máls, að þá vakti það ekki fyrir sýslun. að tortryggja Ólafsfjörð eða snúast á móti málefnum hans varðandi hafnargerðina. Mér er kunnugt, að sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu hefur litið svo á í mörg ár, að löggjafarvaldið gengi allt of langt í því að áskilja sér í ýmsum efnum ábyrgð sýslufélaga. Og hann hafði vitanlega mælt fyrir þessari skoðun sinni í sýslun. En eftir því sem mér skilst á samþykkt sýslun., þá felst einnig í henni áskorun til Alþ. um að breyta ýmsum lagaákvæðum í þessu efni, og sýslun. mun hafa látið það ótvírætt í ljós, að hún mundi vilja taka á sig ábyrgð á hluta af því láni, sem til hafnargerðarinnar þurfti, og þá til annarra svipaðra framkvæmda í sýslunni, en taldi nauðsynlegt að neita þessari ábyrgð ákveðið, eins og hún lá fyrir, og til þess að koma hreyfingu á þessi mál, að kröfum um ábyrgð sýslufélaga væri frá hennar sjónarmiði meir stillt í hóf en gert hefur verið. Ég hef beðið um nánari skýringu á þessu, en ekki fengið hana. En ég get vel fallizt á, að það kunni að vera byggt á mjög heilbrigðri hugsun þetta, sem sýslun. Eyjafjarðarsýslu heldur fram, að áskilja nokkuð viðráðanlega ábyrgð sýslufélagsins, þegar svipað stendur á, til þess að ekki sé ráðizt í slíkar framkvæmdir, kannske í fljótræði og án þess sýslufélagið, sem hlut á að máli, geti risið undir þeim skuldbindingum, sem ætlazt er til, að það taki á sig. En sem sagt, ég er alveg sannfærður um, að þetta málefni verður lagað á einhvern hátt heima fyrir nú alveg á næstunni, og þess vegna er ég og við flm. þakklátir, ef hæstv. Alþingi vill nú að ráði hv. fjvn. veita þessa bráðabirgðahjálp, því að eins og hv. frsm. tók fram, er það í raun og veru engin ábyrgð, sem ríkissjóður tekur á sig samkv. till. okkar. Ég vil því samkv. því, sem mér kemur þetta mál fyrir sjónir, mælast til, að brtt. á þskj. 150 verði felld. Ég gæti að vísu sjálfur samþ. hana, ef upphæðin yrði hækkuð í 200 þús. kr., en þá gæti ég búizt við, að hún fengi minna fylgi á þingi með því móti, og þess vegna mæli ég með því, að hún verði felld, en aðaltill. samþ., eins og hv. fjvn. hefur lagt til.