12.06.1944
Neðri deild: 32. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Þetta frv. er borið fram vegna fyrirmæla í samþykkt Alþingis frá í vetur, þar sem ríkisstj. var falið að leggja fyrir þingið frv. um þjóðfána.

Eins og tekið er fram í aths. við frv., hefur það legið fyrir þingunum 1941 og 1942. N. fjallaði um málið. Á þingi 1942 lagði allshn. til, að frv. yrði samþ. óbreytt í þeirri mynd, sem það hafði fengið 1941, en lengra komst málið þá ekki. Nú þótti stjórninni óvarlegt að fara að gera nokkrar breyt. á frv. frá því, sem tvær n. höfðu mælt með á tveimur þingum. Þó eru einstök atriði, sem gott kann að vera að taka til nánari athugunar.

Það má til að mynda benda á að athuga, hvort ekki svaraði betur annað orð en heiðblátt til þess, sem kallað er ultramarineblátt, hvort það sé ekki sæblátt (GSv: Rúmlega sæblátt). Það var lagt undir dóm litfróðra manna, hvort þessi litur fánans, eins og hann er í stjtíð. og hefur verið hafður, væri ekki ljósari, og þeir töldu hann ljósari en ultramarineblátt. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en athuga þarf það. Þá vil ég benda á s. málslið í 2. gr. frv. um tollfána og póstfána: „Merki þessi eru silfurlit og gyllt merki æðsta valdsmanns þjóðarinnar yfir.“ Meðan ekki er ráðið, hvernig það merki æðsta valdsmanns verður, er ekki hægt að segja svo í l., og þyrfti að ákveða um það merki um leið.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði um, hvenær fána skuli draga að hún og hvenær ofan. Ég hygg réttara að þrengja nokkuð þau takmörk. Það mun ástæðulítið og óviðkunnanlegt að láta fána vera uppi til kl. 22, þótt bjart sé. Örðugt er að fylgja því tímaákvæði að draga fána ofan, þegar sól sezt; því að margir eru þeir dagar, sem sól sést ekki.

Vitanlega væru mörg ákvæði, sem taka mætti upp í frv., en í 13. gr. er ákveðið, að dómsmrn. geti sett nánari reglur og fyrirmæli. Tel ég mjög hyggilegt að halda því ákvæði. Ég legg til, að frv. gangi til allshn. að lokinni umr. og fer því ekki nánar út í lagfæringar, sem æskilegar eru á frv.