11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (4260)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en ræða hv. þm. Hafnf. gaf mér tilefni til að segja nokkur orð.

Hann lagði alla áherzlu á, að það væri aðalatriðið og eina atriðið, að þessi vegur kæmist sem fyrst áfram. Þess vegna væri enginn vandi fyrir hv. alþm. að gera það upp við sig, hvort þeir ætluðu að vera með þessari till. eða ekki, stefnan væri mörkuð og aðeins væri um það að ræða, hversu fljótt eða seint verkið yrði framkvæmt. En mér skilst hins vegar, að til sé einnig önnur hlið málsins, sem ræða beri, sem mér finnst vera aðalatriðið í þessu máli, en það er, hvort sú stefna sé rétt og þinginu samboðin, sem hér er verið að marka, að koma með till. eins og þá, er hér liggur fyrir, skömmu eftir að afgreidd hafa verið fjárl., sem eiga að gilda fyrir þetta yfirstandandi ár. Það er nýbúið að ganga frá og afgr. fjárl., sem voru nær 50% hærri en fjárlfrv. það, sem fjmrh. lagði fyrir þingið, fjárl., sem hann hefur margsinnis yfirlýst hér á Alþ., að afgreidd hafi verið með litlu viti og engri varfærni. En svo rétt á eftir er komið með 2 millj. kr. kröfu um nýtt framlag til þeirra sömu verklegu framkvæmda, sem veitt hafði verið til 250 þús. kr. á þessum sömu fjárl., eftir að það mál hafði verið þá mjög ýtarlega rætt í fjvn. Það er þessi stefna, sem gefur mér tilefni til að taka til máls, því að afgreiðsla sú, sem málið fær nú, hlýtur vitanlega að gefa fordæmi hér á Alþ. síðar meir og þá illt að standa á móti sams konar kröfum frá öðrum þm. og öðrum landshlutum.

Fyrsti flm. þessarar till. hefur haldið því fram hér, að engin vandræði væru að afla þess fjár, sem nauðsynlegt væri á móti þessu framlagi, það megi bara leggja á nýja skatta. Yrði sú regla tekin upp, mundi það leiða til þess, að Alþ., sem saman kynni að koma eftir afgreiðslu fjárl., færi að ákveða nýjar skattaálögur til þess að mæta nýjum gjöldum, þótt ekki væri um fjárlagaþing að ræða, og það til framkvæmda, sem þm. teldu ekki nauðsynlegar eða þyrðu ekki að koma fram með á sjálfu fjárlagaþinginu. Þessa hlið málsins finnst mér, að einnig ætti að ræða og það með meiri alvöru en mér hefur fundizt ríkja hér í umr. um þetta mál, og það alveg án tillits til þess, hvort framkvæmd verksins sjálfs er aðkallandi eða ekki.

Ég vil einnig benda á, að það er upplýst af sjálfum 1. flm. þessarar till., að fé það, sem veitt hefur verið til þessa vegar fyrir árið 1943, er ekki enn farið að nota, en það eru 250 þús. kr. Auk þess er óeytt frá fyrri árum öðrum 250 þús. kr., svo að alls munu vera til óeyddar 500 þús. kr. til vegaframkvæmda á þessu svæði. Ef fé þetta er til, og ekki hefur hingað til verið meira aðkallandi að leggja veginn en svo, að ekki hefur þótt ástæða til þess að nota framlagið, þá er það næsta óskiljanlegt, að verkið sé nú svo aðkallandi, að viðbótarframlag megi ekki bíða, þar til fjárl. fyrir árið 1945 verða rædd. Kæmi þá þessi till. til athugunar ásamt öðrum framlögum til vegagerðar.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að í þessi héruð, sem mér skilst, að eigi afkomu sína undir þessum vegi, hafa verið veittar 500 þús. kr. til ýmissa annarra vega. Ef þessi nauðsyn er svo sterk sem ýmsir hv. þm. hafa fullyrt, t. d. 1. þm. Arn., og áhuginn svo mikill hjá hinum ýmsu hreppum sem hann hefur hér skýrt frá, getur þá ekki komið til mála, að þessir þm. vildu athuga það, hvort þessir hreppar vildu ekki mælast til þess, að fyrrnefnd fjárframlög yrðu notuð til þess að leggja Krýsuvíkurveginn, í stað þess að leggja fyrir það fé, sem eftir þessu er ekki eins aðkallandi, og bíða síðan með þær vegagerðir, þar til fé hefur verið veitt á eðlilegan hátt í Krýsuvíkurveginn? Ég vildi aðeins spyrja um þetta til að sannprófa ummæli hv. þm. Ef þetta getur ekki komið til mála, er veila í rökum þeim, sem færð eru fyrir þessu máli.

Um sjálft vegarstæðið vil ég ekki ræða. Ég er sammála hv. þm. Hafnf. um það, að stefnan er valin um þetta vegarstæði, og liggja til þess mörg rök, m. a. þau, að búið er að leggja mikið fé í þennan veg, sem kemur ekki að notum, fyrr en samband hefur fengizt austur yfir fjall.

Hitt er svo annað atriði, hvort þörfin sé svo mikil hér, að ekki hafi önnur héruð á landinu meiri þörf fyrir samgöngubætur. Þm. verða að meta, hvar þessi þörf er mest, og það hefur verið metið í fjvn. á síðasta þingi, að þörfin á Krýsuvíkurveginum væri ekki nema sem svaraði 250 þús. kr. af því fé, sem á sl. ári var veitt til vega á Íslandi.

Í ræðu hv. þm. Hafnf. kom það fram eins og þetta væri eini vegurinn á landinu, sem leggja þyrfti áherzlu á að gera. En þetta er auðvitað hinn mesti misskilningur. Þó að þar sé mikil þörf vegarlagningar, þá eiga ýmsir aðrir staðir við nákvæmlega sömu skilyrði að búa, eins og hv. þm. Hafnf. lýsti, því að þar verða menn að reiða til sín vörur á hestum og eru að flosna upp af jörðum sínum, af því að vegasamgöngur eru þar illnothæfar eða engar. Úr þessu þarf að bæta eftir því, sem fjárhagsástæður ríkisins frekast leyfa á hverjum tíma. En það er ekki hægt með nokkurri sanngirni að láta einn staðinn sitja á hakanum, en gera allt fyrir annan, meðan ríkissjóður hefur ekki ástæður til þess að byggja allt vegakerfið upp á einu eða tveimur árum. Og það ber ekki að gleyma því, að þessar sveitir á Suðurlandi, sem njóta Krýsuvíkurvegarins, þegar hann kemur, fá árlega mikið fé til viðhalds og lagningar vega á öðrum stöðum yfir þennan sama fjallgarð, sem er á milli þeirra og Reykjavíkur. Mér virðist það nokkur ljóður á þessu máli, að ekki er búið að taka nokkra ákvörðun um það, hvort þessi vegur um Krýsuvík eigi að vera aðalbrautin austur eða aðeins varabraut í neyð, eins og hér hefur verið látið í veðri vaka. Menn virðast ekki hafa komið sér saman um, hvar eigi að leggja þessa aðalsamgönguleið yfir fjöllin. Og mig furðar á því, að hv. þm. skuli ekki hafa fengið ummæli vegamálastjóra um þessa óvenjulegu kröfu um 2 millj. kr. aukaframlag til þessa vegar utan fjárl. E. t. v. er vegamálastjóri ekki alveg á sömu skoðun og hv. flm. þessarar þáltill. um svo mikla nauðsyn vegarins, að brjóta beri þess vegna alla þinglega meðferð á málinu. Ég er ekki að segja, að svo sé. En það hefði verið ákaflega æskilegt, að komið hefðu frá vegamálastjóra ummæli eða álit hans um, að hér væri um svo brýna þörf að ræða.

Hitt er svo annað atriði, eins og komið hefur fram við þessar umr. frá hv. 2. þm. Rang., að hér er kannske svo eða svo stór hundraðshluti af þessu máli ekkert annað en hagsmunamál einstakra manna vegna vissra kjósenda. Hv. 2. þm. Rang. var sárgramur yfir því að hafa ekki mátt vera með í að setja þessa beitu á öngul fyrir kjósendur sína austan fjalls. Og hv. þm. Hafnf. er ekki aðeins að berjast fyrir fólkið, sem á að nota þennan veg, heldur líka að berjast fyrir því, að hann geti bent á, að kjósendur hans geti fengið vinnu í þessum vegi, þegar þeir eru búnir að spenna kaupgjaldið svo hátt, að atvinnuvegirnir geta ekki veitt þeim „lifibrauð“. Ég er ekki að lá honum það, því að á því veltur þingsæti hans. En þessu á bara ekki að blanda saman við þörfina á veginum vegna þeirra, sem eiga að nota hann á eftir.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. fjvn. viðurkenni, að sú stefna sé rétt að samþ. með þál. stór fjárframlög aukalega, án þess að þau séu tekin upp í regluleg fjárl., eins og vera ber. Mér virðist lítill sómi að slíkri stefnubreyt., heldur geti hún leitt fjármálin út í ógöngur.