11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (4263)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins með örfáum orðum svara hv. þm. Hafnf.

Eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram, þá mun hv. þm. Hafnf. í ræðu sinni hafa átt við uppbæturnar til bænda, sem samþ. voru á sumarþinginu 1942, þegar hann var að tala um fordæmi fyrir þessari þáltill. Ég vildi taka fram einu sinni enn, að þar voru alveg sérstakar ástæður fyrir hendi. Þá höfðu nýverið komið fram kröfur frá Alþýðusambandi Íslands um að lögbjóða það, að ónýttir skyldu gerðir samningar, sem áttu að standa út allt árið. M. a. var farið fram á, að allt kaup í landinu skyldi hækka um 25% minnst. Það voru þvingunarráðstafanir frá þessum hring í landinu, sem gerðu það að verkum, að ekki var hægt að níðast svo á einni stétt í landinu, eftir að kaupgjald hinna hafði verið lögboðið á Alþ., að þessi eina stétt fengi ekki einnig bættan sinn hlut upp í sömu launakjör. En sú aðferð, sem til þess var höfð að bæta þessari stétt manna kjör sín til þess að gera henni ekki stórkostlega rangt til, hafði óhjákvæmilega stórkostlegan kostnað í för með sér, þar sem voru uppbæturnar á framleiðslu bændastéttarinnar. Fyrir beinan tilverknað verkalýðsins hækkaði þannig stórkostlega dýrtíðin í landinu. Og það datt engum samvizkusömum alþm. þá í hug að láta bændastéttina líða við það, að hún hafði ekki aðstöðu til að mynda um sig slíkan hagsmunahring sem hinar stéttirnar gerðu, eftir að lögboðið hafði verið, að samningar og lög, sem héldu dýrtíðinni í skefjum, skyldi hvort tveggja niður fellt. Hvort sem kosningar væru að fara í hönd eða ekki og hvenær sem eins stæði á, mundi ég tvímælalaust greiða slíkri till., sem þá var samþ., atkv. mitt til þess að rétta hlut bændastéttarinnar á móts við aðrar stéttir í landinu og teldi mig hafa brugðizt þingmannsskyldu minni, ef ég gerði það ekki.

Það var ekki á fyrra þinginu 1942, að rætt hafði verið um þessar uppbætur. Þá var ekki ákveðið neitt í fjárl. um það, hvernig farið skyldi með þessi mál, eins og þó gert var um Krýsuvíkurveginn á síðasta þingi. Það var algerlega nýtt viðhorf, sem skapaðist á sumarþinginu 1942 vegna nýrra lagafyrirmæla, sem knúin voru fram m. a. af Alþfl. og Sósfl. Og það hefði verið að bregðast skyldu sinni við þjóðina í heild, ef skorazt hefði verið undan því að fylkja sér utan um þá réttlætiskröfu og það réttlætismál, sem hv. þm. Hafnf. var að vitna til.

Um það, af hvaða hvötum hv. þm. Hafnf. flytur þessa till., vil ég ekki eyða mörgum orðum. Ég vil aðeins benda á, að upphaflega var þessi Krýsuvíkurvegur á fjárl. vegna þess, að til hans var veitt fé að mestu leyti af atvinnuþörf, annars vegar fyrir Hafnfirðinga og hins vegar af fylgisþörf fyrir Framsfl., til þess að hann héldi lífi. (PZ: Það er ósatt). Það er rétt. En ég álít, að þessi vegur þurfi að koma eins og aðrir vegir á landinu og sérstaklega úr því að byrjað er á að leggja hann. — En þetta, sem ég sagði, voru aðalástæðurnar fyrir því, að byrjað var að leggja veginn og að svo mikið fé var lagt í hann á sínum tíma. Ég er heldur ekkert að lá hv. þm. Hafnf. það, þó að hann vilji láta halda áfram með veginn og halda fram fjárframlögum fyrir sitt hérað. En honum ber þá skylda til að fylgja samsvarandi till. um framlög á vegafé úr ríkissjóði til annarra héraða. Og ég er viss um, að Krýsuvíkurvegurinn verður ekki númer eitt, ef óhlutdrægir menn eiga að dæma um það, hvar eigi að leggja vegi á landinu fyrst í næstu framtíð. Og ætti að láta eftir fyllstu sanngirni jafnmikið aukavegafé til annarra héraða á landinu fram yfir ákvæði fjárl. fyrir 1944, eins og hér er lagt til, að lagt verði til þessa vegar, þá væri fróðlegt, — ég segi ekki gaman, að sjá útkomu landsreikningsins á eftir. Það er ekki viðunanlegt, að svo miklar kröfur séu gerðar handa einum ákveðnum vegi í landinu sem hér er gert, en augunum jafnframt lokað fyrir eins mikilli þörf annars staðar. Og það er þetta fordæmi, sem ég minntist á í fyrri ræðu minni, að væri verið að gefa.

Ég varð alveg undrandi á því, þegar ég heyrði hv. þm. Hafnf. segja, að um þetta mál bæri ekki að spyrja vegamálastjóra ráða. Ég veit ekki betur en hv. þm. Hafnf. sé sem vitamálastjóri spurður ráða, hvenær sem er, þegar um það er að ræða að veita fé til vita. Og er það sjálfsagt. Og ég veit ekki betur en hann ráði langmestu um, hvort fé skuli veitt frekar í þennan vitann eða hinn, og a. m. k. mikið tillit tekið til þess, sem hann leggur til um það. Og vegamálastjóri er auk þess jafnan spurður, áður en fjárl. eru samþ., hve mikil þörf sé á framlagi vegafjár til þessa staðar eða hins. Á hann að sjálfsögðu að ráða miklu um það, hvernig bezt verður leyst sú togstreita, sem ávallt er hér á Alþ. um framlög til hinna ýmsu vega á landinu.

Ég hef ekki dregið í efa nauðsyn Krýsuvíkurvegarins, en ég vil þá fyrst láta leggja hann, er fé það er fyrir hendi, sem sanngjarnt er með tilliti til annarra héraða á landinu að taka til þess vegar.

Ég vænti þess, þegar menn greiða atkv. um þessa þáltill., að hv. þm. gleymi því ekki, að hér er farið inn á nýja stefnu með því að leggja til, að veittar verði 2 millj. kr. til sama verks og 250 þús. kr. eru ætlaðar til á fjárl. Það er ný stefna og alls ekki holl í fjármálum þjóðarinnar.