11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (4264)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Emil Jónsson:

Herra forseti. — Mér er ekki heimilaður nema stuttur tími nú, þar sem ég hef talað tvisvar áður við umr., og skal því vera fáorður.

Hv. þm. Barð. vildi líkja því saman, að ég gerði till. um fjárveitingar til vita, og hins vegar, að vegamálastjóri væri nú að spurður í þessu máli. — Ef ég væri um það spurður, hve mikið fé ég vildi láta veita til vita, þá mundi ég ekki leggja til, að það væri 350 þús. kr., heldur 3 til 5 millj. kr., ef ég ætti kost á því. Það, sem takmarkar till. mínar og till. vegamálastjóra í þessum málum, er það, að Alþ. takmarkar, hve mikið fé skuli til þessara framkvæmda vera lagt. Við mundum verða glaðir yfir því, að Alþ. sæi sér fært að leggja sem mestar fjárhæðir til vegalagninga og vitabygginga.

Vegamálastjóri hefur verið spurður um Krýsuvíkurveginn, vegarstæði hans — (GJ: Sem hann hefur lagt á móti.) — sem hann lagði á móti þá, en ekki nú. Ég hygg, að fyrir málstað hv. þm. Barð. sé það hollast, að talað sé sem minnst um gang málsins og hann sé ekki rifjaðar upp. — En það er ekki ástæða til þess nú að spyrja vegamálastjóra um það, hvort leggja skuli 2 millj. kr. í þennan veg í ár. Hann hefur sagt sitt orð um veginn, og það á okkur að nægja.

Þá sagði hv. þm. Barð., að það væri mjög mikill vafi á því, ef óhlutdrægur maður ætti að dæma um, hvar fyrst ætti að kosta til að leggja veg nú, hvort Krýsuvíkurvegurinn yrði fyrir valinu. Það er sjálfsagt kjördæmi hans, sem hann á þar við, að hafi mikinn rétt á vegafé. En þetta kjördæmi, sem hann telur, að hafi orðið út undan við veitingu vegafjár, fær til, — ég vil ekki segja hreppavega, en til vega, sem eingöngu eru notaðir af 3 þús. manna, um 175 þús. kr. Ef veita ætti tilsvarandi til Krýsuvíkurvegarins, sem 60 þús. manna mundu nota, þá yrðu það yfir 3 millj. kr.

Þá segir hann, að öðruvísi hafi staðið á, þegar till. var flutt í Sþ. um landbúnaðaruppbætur 1942, því að Alþýðusambandið hafi þvingað fram breyt. á kaupsamningum og þetta hafi verið nokkurs konar afleiðing þess. — Við skulum sleppa þessu. En hefur hann ekki orðið var við till. fyrr um það mál? Mætti ráðleggja honum að fletta upp þingtíðindum frá árunum á undan og vita, hvort ekki eru þar till. í svipaða átt, sem hann sennilega greiddi atkv. með, en gengu að vísu kannske skemmra en 1942. Þær gengu lengra en þessi till., en hafa það sameiginlegt við till. 1942, að þar er óbundin upphæð.

Hann segir, að þessi vegagerð sé pólitísk samvinna Framsfl. og Alþfl., gerð til að lappa upp á það auma samkomulag 1936. Ég get ekki annað sagt en hann hefur leyfi til að koma með svona fullyrðingar eins og ýmsar aðrar henni líkar, svo sem söguna um Gústav Svíakonung, sem ég hef heyrt eftir honum, og mun álíka mikill sannleikur vera í báðum.