12.06.1944
Neðri deild: 32. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Gunnar Thoroddsen:

Ég vil þakka hæstv. ríkisstj. fyrir flutning þessa frv. Eins og hæstv. forsrh. tók fram, hefur frv. legið fyrir þingunum 1941 og 1942 án fullnaðarafgreiðslu. Við fljótan yfirlestur hef ég fundið ýmislegt, sem ég tel þörf að breyta, en þar sem hæstv. ráðh. hefur minnzt á sumt af því, vil ég aðeins ræða tvö atriði: þynging refsinga fyrir svívirðilega meðferð fánans og ákvæði um fánadaga.

Í 12. gr. frv. hefur verið tekið fram, að enginn mætti óvirða þjóðfánann í orði né verki, og í 14. gr. eru lagðar 10–1000 kr. sektir við slíkum brotum, en engin frekari refsing. En í 95. gr. almennra hegningarl. segir svo eftir breyt. þeirra með l. nr. 47 frá 27. júní 1941, með leyfi hæstv. forseta: „Hver sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann þjóðhöfðingja þess, fána eða annað viðurkennt þjóðmerki, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum.“

Það virðist sjálfsagt, að einnig séu upp tekin ákvæði um refsing fyrir óvirðing íslenzka fánans. Aðfarir gegn honum geta orðið svo svívirðilegar, að algerlega brjóti í bág við réttarmeðvitund þjóðarinnar, ef þær eru látnar óhegndar eða menn sleppa með tiltölulega væga sekt. Hugsum okkur, að við stofnun íslenzka lýðveldisins fremdi einhver þá óhæfu að rífa þjóðfánann niður. Þá yrði það alþjóðarvilji að beita mun harðari ákvæðum en eru í 14. gr. frv.

Í þál., sem samþ. var 10. marz sl., var ríkisstj. m.a. falið að gefa út tilskipun um ákveðna fánadaga. Ég hef ekki orðið var tilkynningar frá henni um það mál. Ég er alls ekki að álasa ríkisstj. fyrir það, því að varla er að ætlast til, að hún vilji eiga eindæmi um það mál. En það eru vissir hátíðisdagar, sem sjálfsagt er að ákveða, og ekki rétt að fresta því.

Málinu mun verða vísað til allshn., og skal ég ekki ræða fleira að sinni.