08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (4297)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að tala langt mál um þetta, þar sem ég er nýbúinn að gera grein fyrir málinu við fyrri umr. Nú hefur málið verið til meðferðar í fjvn., en n. ekki orðið sammála. Meiri hl. leggur til, að till. verði samþ., og eru í þeim meiri hl. fimm nm., en þrír nm. greiða atkv. gegn till. og leggja til, að málinu verði frestað, þar til þ. kemur aftur saman. Þeir, sem eru á móti till., eru hv. þm. Borgf., hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Dal. Hv. 1. þm. Rang. greiðir ekki atkv., en hefur skrifað undir með minni hl. með fyrirvara og mun væntanlega sjálfur gera grein fyrir afstöðu sinni.

Það er svo stutt, síðan þetta nál. minni hl. kom í mínar hendur, að ég hef ekki haft tíma til að lesa það til enda, en tek hér strax eftir, að minni hl. segir, að það sé mjög villandi, sem segir í grg. fyrir þáltill. þeirri, sem hér um ræðir, að kostnaður ríkissjóðs af þessum greiðslum hafi numið 225 þús. kr. síðastliðið ár. Mér þykir einkennilegt, að menn skuli leyfa sér að fara með slíka fjarstæðu, sem hægt er að reka ofan í þá þegar í stað, og ég vil fyrir mína hönd og meðflm. minna biðjast undan því, að okkur sé borið það á brýn í opinberum þingplöggum, að við förum með blekkingar, þegar við segjum eins frómt frá og verða má. Svo segir síðar í nál. minni. hl., að ekki sé enn búið að greiða uppbætur þessar að fullu fyrir síðastliðið ár. Mér kemur það ókunnuglega fyrir sjónir, því að við höfum tekið upp þá tölu, sem fjmrn. gaf okkur upp. Svo segir hv. minni hl.: „Í öðru lagi eru þessar upplýsingar villandi, hvort árið sem tekið er, af því að í þessum upphæðum felast ekki barnsmeðlög þau, sem greidd eru starfsmönnum við fjölmennar ríkisstofnanir“. En það er ekkert villandi við þetta, og það er tekið fram í grg., að þessar stofnanir hafi greitt starfsfólki sínu sömu uppbætur. Þetta er blekking frá hv. minni hl. við Alþ. að ætla að telja því trú um, að við höfum óhreint mjöl í pokanum. Í þessu sambandi vil ég taka fram, að það er ein skekkja í því, sem ég sagði við fyrri umr., að þessi fjárgreiðsla hefði aldrei verið í fjárl. Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið síðan, hefur þessi greiðsla verið á fjárl., en ekki hægt fyrir mig að vita það, þar sem greiðslan var ekki undir þessu nafni, heldur tekin inn á uppbætur, sem þar eru tilgreindar. Ég hafði ekki kynnt mér þetta, og ég fullyrði, að þetta hefur farið fram hjá öllum þorra þm. En þetta breytir ekki efni málsins. Hæstv. fjmrh. segir og hefur auglýst, að þessi greiðsla muni ekki fara fram og þingvilji sé fyrir því, en það hefur verið hæstv. fjmrh. sjálfur, sem hefur fellt þetta burt og tilkynnt fjvn., en hún ekki tilkynnt það Alþ. Og ef um blekkingu er að ræða, þá liggur hún í þessu, að það hefur verið samþ., án þess að vitað væri um efni málsins.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau rök, sem ég færði fram fyrir till. við flutning hennar, en legg áherzlu á eitt atriði, að hvað sem líður vilja manna til að lækka bæði verðlag og kaupgjald í landinu, sem ég lýsi mig samþykkan, verði ekki fram hjá því gengið, að óviðkunnanlegt er að taka út úr hóp manna og lækka laun hans, án þess að tilraun sé gerð til að láta þetta ganga jafnt yfir. Og þegar nú þessi fyrsta sneið er skorin af, sem gert er samkv. yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., þá er hún af þeim tekin, sem þyngsta hafa ómegðina, og mun það verða óvinsælt. Ég vil enn lýsa fylgi mínu við það, að launagreiðslur í landinu verði almennt lækkaðar, ef menn geta komið sér saman um það, en ég er ósamþykkur því og ég hygg, að meiri hl. Alþ. sé það líka, að krafsa svo ofan í að taka út úr einstaka menn og þá einkum ef það kemur niður þar, sem þörfin er mest á tekjunum, en það er hjá þeim, sem ekki taka þátt í framleiðslunni og engan stríðsgróða hafa, heldur stríðsfátækt. Og þegar svo er byrjað að reyta nokkra skildinga af þessum mönnum, geri ég ráð fyrir, að það verði óvinsælt að makleikum, auk þess sem það gæti ekki valdið neinu verulegu um það að koma á jafnvægi í þjóðfélaginu, þar sem um svo litlar upphæðir er að ræða. Ég vil enn fremur minna á, að Alþ. getur gert sitt í þessu máli, því að hér er um að ræða hagsmuni miklu fleiri en þeirra, sem ríkið launar, þar sem ýmsar aðrar stofnanir, þar á meðal bæjar- og sveitarfélög, sem hafa af sjálfum sér greitt þessar uppbætur, þær sömu og ríkið greiðir sínu fólki, munu vera ákveðnar í að láta þessar greiðslur falla niður, um leið og ríkið hættir að greiða þær sínu fólki. Þar af leiðir, að samþ. Alþ. ekki till. okkar á þskj. 116, þá er verið að svipta þessa menn launabótum, sem eru þeim mjög nauðsynlegar.

Ég skal svo ekki lengja þetta mál, en vænti þess, að Alþ. sýni eins og svo oft áður, að það vilji láta jafnt yfir menn ganga og vilji ekki skerða rétt eins fremur en annars.