08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4299)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Við fyrri umr. málsins upplýsti ég það, að beinar greiðslur ríkissjóðs í sambandi við þetta hefðu árið 1942 numið 288 þús. kr., en 1943 hafa þær þegar numið 215 þús. kr. Ég álít, að það, að þessi upphæð er lægri 1943 en 1942, stafi af því, að ekki séu allar greiðslurnar komnar til útborgunar enn þá, því að það er að sjálfsögðu ekki ástæða að ætla, að þessar greiðslur verði lægri 1943 en 1942. Um kostnað hjá ríkisstofnunum, eins og pósti og síma, er mér ekki kunnugt og get þar ekkert fullyrt um neina fjárhæð, en þar er að sjálfsögðu um talsverða fjárhæð að ræða.

Að öðru leyti skal ég ekki fara frekar út í þetta mál, en get tekið undir þau rök, sem hv. þm. Borgf. flutti hér í þessu máli.