15.06.1944
Neðri deild: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt þetta frv. og orðið ásátt um að mæla með samþykkt þess með þeim breyt., sem getur á þskj. 253. Flestar þessar breyt. eru orðalagsbreyt., en þó eru nokkrar efnisbreyt., sem eru ekki stórvægilegar. Vil ég skýra þær nokkrum orðum.

Fyrsta breyt. er sú, að úr 1. gr. falli niður orðin „ultramarineblár“ og „hárauðum“. — Við 1. umr. þessa máls skýrði hæstv. forsrh. frá því, að blái liturinn í fána þeim, sem prentaður var með frv., væri ekki nógu dökkur til að vera „ultramarineblár“. Sá litur er enn þá dekkri og hefur aldrei verið notaður í fánanum, svo að kunnugt sé. Ef ætti að nota hann, mundi blái liturinn verða dekkri en menn yfirleitt óska, og telur n. því rétt að fella þetta orð niður.

Við 2. gr. eru þrjár breyt. Í upphafi 2. gr. segir, að ríkisstj. og opinberar stofnanir, svo og fulltrúar utanríkisráðuneytis Íslands erlendis skuli nota þjóðfánann klofinn að framan: tjúgufána. Nm. þótti rétt að nefna hér þá virðulegu stofnun, sem við sitjum nú í, og orða þetta þannig, að ríkisstjórn, Alþ. og aðrar opinberar stofnanir, svo og fulltrúar o.s.frv. skuli nota tjúgufánann. Orðin „á alla vegu“ í 3. málsgr. 2. gr. falli niður. Í póst- og símafánanum hefur þessu ekki verið fylgt af þeirri eðlilegu ástæðu, að vegna merkisins fyrir ofan hafa þessi leiftur ekki gengið upp á við, heldur til hliðar. Er þetta gert í samráði við póst- og símamálastjóra. — Þá leggur n. til, að felld séu niður síðustu orð 2. málsgr.: „og gyllt merki æðsta valdsmanns þjóðarinnar yfir“ — og standi þar aðeins: Merki þessi eru silfurlit. — Þetta merki var kóróna, leifar frá konungdóminum og fellur nú burtu. Það er óráðið, hvernig bezt þykir að hafa það merki, sem forseti kynni að taka upp sem sitt einkenni, og hvort ástæða væri til að nota það á þessa fána. Er þetta í samræmi við ræðu hæstv. forsrh. við 1. umr. um þetta mál.

Við 4. gr. er gerð smá orðalagsbreyt.

Í 5. gr. eru ákvæði um notkun tjúgufánans. Þar eru talin upp þau hús, sem nota megi fánann á. N. þótti þetta óþarflega ýtarleg upptalning, enda er ekki hægt að miða þetta við eignarrétt húsanna sjálfra. Ef opinberar stofnanir eru í leiguhúsum, má að sjálfsögðu nota tjúgufánann. Það er ekki unnt að telja þetta upp mjög ýtarlega og bezt, að ríkisstj. setji reglur um það. 5. gr. orðist svo: Tjúgufánann má aðeins nota á húsum og við hús, sem notuð eru að öllu eða mestu leyti í þágu ríkis eða ríkisstofnana.

Við 6. gr. gerir n. brtt. um það, hvernig flaggi skuli komið fyrir á skipum eða bátum, til þess að gera ráð fyrir þeim möguleika, að skip sé þrímastrað. Enn fremur þótti n. rétt að setja ákvæði, þegar um smáskip eða báta er að ræða, sem hafa aðeins eitt siglutré, að þau megi draga fánann að hún á siglutrénu.

Í 7. gr. eru ákvæði um fánatímann, hvenær megi draga fánann fyrst að hún að morgni og hvenær skuli draga hann niður. Meiri hluta ársins mátti ekki draga hann að hún á landi fyrr en kl. 8 að morgni, og fjóra vetrarmánuðina ekki fyrr en kl. 9 að morgni. En það er ákveðið, að fáni skuli dreginn niður, er sól sezt, og þó ekki síðar en kl. 22, ef sól sezt síðar. Við athugun kemur í ljós, að þetta getur orðið óeðlilegt. Mönnum er það oft ekki ljóst, hvenær sólin sezt marga daga ársins. Sums staðar hér á landi er það kannske langur tími og erfitt að miða við það tímamark. Niðurstaðan varð því sú í n., að með forsetaúrskurði skuli kveðið á um, hve lengi fánum megi halda við hún, og um fánadaga.

Við 9. gr. hefur n. gert örlitlar breyt., — að sýnishorn skuli vera til á ýmsum stöðum og hjá öllum lögreglustjórum af réttum litum og hlutföllum þjóðfánans. Hefur það ósjaldan hent, að litirnir og hlutföllin hafi ekki verið eins og þau eiga að vera, en slíkt ætti ekki að eiga sér stað.

Við 13. gr. er brtt. um, að niðurlag gr. falli niður. Dómsmrn. getur um þetta mál sett reglugerð til að skýra ákvæði laga þessara, og er þetta að sjálfsögðu rétt og nauðsynlegt. En í niðurlagi gr. er rn. heimilað að setja „ný fyrirmæli, sem þörf kann að vera á að dómi reynslunnar“. Telur n. of langt gengið með þessu í þá átt að fela rn. löggjafarvald.

Við 14. gr. eru gerðar verulegar breyt. um refsiákvæðin. Í frv. er kveðið svo á, að brot gegn ákvæðum þessara laga varði sektum frá 10–1000 kr. Eru þar sérstök ákvæði um skipstjóra. Með sektum frá 500–5000 kr. eða fangelsi allt að 6 mánuðum skuli refsa skipstjóra, sem notar þjóðfánann ólöglega eða notar á sjó, þar sem íslenzkt vald nær til, nokkurn fána, sem hann á ekki rétt til að nota. Fyrir sum brot gegn l. þessum er ástæða til að beita þyngri refsingu en sektum, t.d. fyrir óvirðingu gagnvart fánanum. Þá gætu oft legið svo atvik til, að ástæða þætti til og nauðsynlegt að refsa með þyngra en sektum. Hins vegar virðist ekki sérstök ástæða til að hafa sérákvæði um skipstjóra, taka þá út úr og hóta þeim með þessum þungu refsingum. Raunar má það teljast alvarlegt brot, ef skipstjóri notar á skipi sínu t.d. erlendan fána, sem hann hefur ekki. rétt til að nota, en ekki virðist ástæða til að hafa um það sérstaklega þyngri hegningarákvæði en um sum önnur brot, t.d. óvirðingu gagnvart fánanum. Niðurstaðan varð því sú að orða þessar refsireglur á þessa leið: „Brot gegn 4. og 5. gr. og 1. málsgr. 12. gr. varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári“. Í þessu eru talin þau brot, sem gætu talizt sérstaklega alvarleg, t.d. ef tjúgufáni er notaður ólöglega af þeim, sem hafa ekki heimild til hans, og ef fána er sýnd svívirðing. Önnur smærri brot skulu varða sektum, t.d. ef fánastöng er ekki smekklega fyrir komið, fáni notaður of lengi, upplitaður eða slitinn. Í slíkum tilfellum er ekki ástæða til að hafa heimild til að refsa með fangelsi.

Við 15. gr. er svo ákvæði um, að felldur skuli úr gildi konungsúrskurður nr. 23 frá 5. júlí 1920, um konungsfána, og ríkisstjóraúrskurður nr. 119 frá 9. des. 1941, um sérstakan fána ríkisstjóra. Um fána hins væntanlega forseta er ekki talin ástæða til að setja ákvæði í l. Um það verður auðvitað hinn væntanlegi forseti að hafa mest ráð og áhrif, og að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því, að með forsetaákvörðun mætti setja reglur um slíkan fána, ef rétt þætti upp að taka. Þetta vildi ég taka fram til skýringar, ef einhverja kynni að undra, að ekki er sérstaklega rætt um forsetafánann.

Loks er bætt við síðast, að l. skuli þegar öðlast gildi. Í frv. er ekkert um þetta, og ættu þá l. ekki að öðlast gildi fyrr en þremur mánuðum eftir birtingu þeirra. N. telur æskilegt, að frv. verði staðfest 17. júní.

Ég vona, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta, og vænti þess, að ég hafi skýrt þær brtt., sem n. hefur gert. Undanfarið hefur farið vakningaralda um þjóðina að virða meira fánann en verið hefur, og það er von okkar, að sú vakning og virðingarauki megi haldast og festast við setningu hinna fyrstu íslenzku fánalaga.