10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (4316)

67. mál, norræn samvinna

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég flyt smábrtt. skriflega við brtt. á þskj. 197. Mér virtist hv. þm. Siglf. gjarnan vilja undanskilja Finna, þegar talað væri um Norðurlönd. Það er nú svo, að Finnar eru í samvinnu við Þjóðverja í baráttu gegn Rússum, en ástandið er þannig innan lands hjá Finnum, að við óskum, að þeir losni úr þeim fjötrum, sem þeir eru í, og verði frjálsir á ný. Ég held, að Finnar berjist nú nauðugir og þeim sé frekar stjórnað af öðrum en þeir séu sjálfráðir gerða sinna. Það væri því mjög óviðeigandi að undanskilja Finna um leið og við sendum hinum Norðurlöndunum kveðju, en eins og till. er orðuð á þskj. 197, er Norðurlöndum óskað sigurs og farsældar. Það mætti segja, ef Finnum væri óskað sigurs í baráttunni við Rússa, sem berjast við Þjóðverja, að við værum um leið að óska Þjóðverjum sigurs. Því ber ég hér fram skriflega brtt. við þessa till. Er hún á þá leið, að á eftir orðum brtt. á þskj. 197 „og óska þeim“ komi: „að þau megi sem fyrst losna úr þeim fjötrum, sem þau eru í, og verða alfrjáls að nýju“. Við hljótum allir að óska þess. Það væri alveg óviðeigandi að undanskilja Finna. Og ég held, að það væri mannlegast af okkur Íslendingum að segja sem ákveðnast, hvers við óskum.