10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (4327)

67. mál, norræn samvinna

Brynjólfur Bjarnason:

Ég er nú einn af þeim, sem flytja till. á þskj. 147, einn af þeim, sem sæti áttu í skilnaðarn. Ég taldi það viðeigandi, að slík till. væri samþ., taldi það rétt og okkur til farsældar, hafandi þýðingu í utanríkispólitík okkar, um leið og við göngum frá sjálfstæðismálum okkar, enda þótt ég verði að segja, að ég taldi till. ófullnægjandi. Þegar rætt var um þessa till. í skilnaðarn., kom fram till. um, að í þessari ályktun Alþ. fælist samúðaryfirlýsing með frelsisbaráttu Norðmanna og Dana. Þetta var fellt af öllum, sem sæti áttu í n., nema sósíalistum. Nokkru síðar báru tveir hv. þm. sósíalista, hv. þm. Siglf. og hv. 2. landsk., fram till., sem er að vísu ekki eins að orðalagi, en hefur sama tilgang og er sama efnis. Eftir að sú till. kom fram, var haldinn fundur í skilnaðarn. og þess eindregið óskað, að við, sem eigum sæti í n. fyrir hönd Sósfl., beittum áhrifum okkar til þess, að sú till. yrði tekin aftur. Við svöruðum því, að við teldum það ómögulegt. Þegar slík till. væri komin fram á Alþ., væri ekki hægt sóma okkar vegna að taka hana aftur. Ég skal játa, að við hv. 2. þm. Reykv. gerðum enga tilraun í þá átt, vegna þess að við töldum það ósæmandi, á sama hátt og þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, eru ósæmandi og um leið furðulegar. Það er furðulegt, að hér á Alþ. skuli vera fjöldi þm., sem ekki vill óska Dönum og Norðmönnum sigurs í þeirri frelsisbaráttu, sem þeir heyja nú. Þetta er það, sem fram hefur komið. (BSt: Þetta er ósatt).

Vegna þess, að þm. eru ekki sammála um brtt., verður útkoman sú, að þeir óska Norðmönnum og Dönum ekki sigurs í frelsisbaráttu þeirra. Röksemd hefur komið fram við þessar umr. og kom þó enn skýrar fram í skilnaðarn.: Það má ekki gera upp á milli Norðurlandaþjóðanna. — Við skulum rekja, hvað í þessu felst. Það hefur stundum verið sagt, að norræn samvinna væri í því fólgin að halda skálaræður um allt nema það, sem máli skipti. Og það er hið sama, sem hér kemur fram. Það má segja allt í till. nema það, sem máli skiptir. Þegar grannþjóðir okkar, Norðmenn og Danir, standa í blóðugu frelsisstríði, einhverju því fórnfrekasta stríði, sem háð hefur verið á Norðurlöndum, þá má ekki lýsa yfir samúð með þeim í því stríði, þó að örlög okkar séu undir því komin, hvernig því lyktar. Það má alls ekki segja það í till., sem máli skiptir. Ég vil segja ykkur, hv. þm.: Ef við hefðum samþ. till. eins og hún var upphaflega og engin önnur komið fram, hefði það áreiðanlega þótt kaldranalegt á Norðurlöndum. Við skulum reyna að setja okkur í spor þeirra manna, sem heyja þetta frelsisstríð. Því hefði verið veitt athygli um allan heim. En hér hefur gerzt það, sem er enn þá meira. Hér hefur komið fram till. um að óska Norðmönnum og Dönum sigurs, sem ekki eru horfur á, að nái samþykki. Það er alþjóðlegt hneyksli. Rökstuðningur þeirra hv. þm., sem ekki vilja samþykkja slíka ósk, er sá, að með því væri verið að gera upp á milli Norðurlandaþjóðanna.

„Við viljum ekki aðeins óska Norðmönnum og Dönum sigurs,“ segja þeir, „heldur öllum Norðurlandaþjóðunum.“ Því er með öðrum orðum haldið fram, að aðrar Norðurlandaþjóðir eigi í frelsisstríði, sem sé sambærilegt við frelsisstríð Norðmanna og Dana. Það er víst enginn til, sem lætur sér detta í hug, að Svíar heyi frelsisbaráttu eins og Norðmenn og Danir. Það er beinlínis móðgun við Norðmenn að leggja frelsisstríð þeirra að líku við herbúnað Svía. Um Finna er það að segja, að við getum sannarlega óskað þeim alls góðs, en þeir heyja styrjöld gegn Ráðstjórnarríkjunum og um leið Noregi, sem við óskum eindregið sigurs. Hvernig er hægt að óska tveim þjóðum báðum sigurs, þegar þær eiga í styrjöld sín á milli? Það yrði eins og segir í hinu fornkveðna: — „Hér eigast þeir einir við, að ég hirði aldrei, þótt drepist“.

Sannleikurinn er sá, að þátttaka Finna í stríðinu með Þýzkalandi þýðir hvorki meira né minna en það, að hún gerir Þjóðverjum mögulegt að halda Noregi herteknum, og ef Finnar semdu frið, gætu Þjóðverjar sennilega ekki haldið áfram hernaði í Noregi. Það er því ekki undarlegt, að í því sambandi hefur komið fram sú skoðun, sem lýsir sér í því, er talsmaður norsku stjórnarinnar, dr. Arne Ording, skrifar, en orð hans eru birt í blöðunum í dag. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Af hálfu norsku stjórnarinnar hefur það hvað eftir annað verið látið í ljós, að vér Norðmenn óskum eftir góðri sambúð í framtíðinni við finnskt lýðræðisríki, en það er að sjálfsögðu ómögulegt, ef Finnland heldur áfram þátttöku í styrjöldinni með því stórveldi, sem kúgar og arðrænir norsku þjóðina. Samband Finnlands við hin önnur Norðurlönd veltur á því, að Finnland komist að samkomulagi við hinn stóra nágranna sinn í austri. Finnland á nú tækifæri, sem kemur aldrei aftur.“

Ef það stríð, sem Finnar eiga nú í, er kallað frelsisstríð og menn óska þeim sigurs í því, þá þýðir það, að menn óska Noregi ósigurs. Þetta hljóta menn að sjá, ef þeir fást til að íhuga það, sem þeir eru að segja, en það er hverjum manni skylt að gera. Hér er auðvitað ekki um það að ræða að gera upp á milli vina. Hér er að ræða um tvær þjóðir, sem eru andstæðar, og sigur annarrar þýðir ósigur hinnar. Sigur Finna mundi þýða ósigur Noregs. Þó að Finnar séu okkur tengdir á annan hátt en aðrar Norðurlandaþjóðir, viljum vér Íslendingar, ég segi fyrir mig og mér er óhætt að segja fyrir minn flokk, eiga vinsamleg viðskipti við þá og óskum þeim friðar og farsældar og að þeim auðnist að semja frið við Ráðstjórnarríkin. En samkvæmt því, sem fram kom í grg. flm. fyrir till. þeirri, er hér hefur komið fram, er verið að skora á Finna að halda styrjöldinni áfram, þar sem hún er skoðuð sem frelsisbarátta. Þetta gerist á sama tíma og Finnar hafa friðarskilmála til athugunar og hinar Norðurlandaþjóðirnar hvetja þá til að ganga að þeim, auk þess sem það eru dálítið kaldranalegar móttökur við rússneska sendiherrann, sem nýkominn er hingað, að Alþingi Íslendinga óskar þess, að Ráðstjórnarríkin bíði ósigur fyrir Finnum.

Því hefur verið haldið hér fram í umr., að ef smáþjóðir heyi stríð, hljóti það að vera frelsisstríð. Ég vil þá spyrja: Eru Rúmenía, Ungverjaland og önnur leppríki Þýzkalands í frelsisstríði? Röksemdin er þessi: Þessum smáríkjum dettur ekki í hug að leggja út í stríð, nema það sé frelsisstríð, vegna þess að þau hafa ekki bolmagn til að vinna fríðindi frá sér stærri löndum. Við skulum athuga þetta. Hvernig er með leppríki Þýzkalands? Hvers vegna eru þau í stríði með Þjóðverjum, og hvers vegna reyna þau að tryggja sér sneiðar af þeim löndum, sem þau eiga í styrjöld við ásamt Þýzkalandi? Þau gera það vegna þess, að þau skoða þýzka herveldið nægilega öflugt til að vinna styrjöldina. Því er það, sem stundum er verið að segja, að Finnum hafi ekki verið sjálfrátt, er þeir fóru í styrjöldina, hrein fjarstæða. Þeim var eins sjálfrátt og Norðmönnum. Þeir gátu farið að eins og Norðmenn, og Norðmenn gátu farið að eins og Finnar og tekið höndum saman við Þýzkaland. En Norðmenn kusu heldur að fara að eins og Grikkir, Júgóslavar, Hollendingar og aðrar þær smáþjóðir, sem hafa tekið upp frelsisbaráttu móti Þjóðverjum.

Ef þessi brtt. verður samþ. eins og hún er borin fram af þessum þrem hv. þm., 1. þm. Reykv., 4. þm. Reykv. og þm. Str., þá er þáltill. orðin nokkuð mótsagnakennd og raunar hrein endileysa, sem er engin leið að samþ., auk þess sem þær umr., er hér hafa farið fram, hljóta að vekja hina mestu tortryggni gagnvart meiri hl. Alþingis Íslendinga. Ég vildi því fastlega skora á þessa þrjá hv. þm. að taka þessa till. aftur vegna sóma Alþ., áður en um hana verða greidd atkv. Ég vil jafnframt spyrja: Hvað meina þessir hv. þm. með frelsisbaráttu Norðurlanda allra? Ég vildi fá skýr og ákveðin svör við því. Meina þeir stríð Finna gegn Ráðstjórnarríkjunum og Noregi, eða meina þeir eitthvað annað? Þetta er nauðsynlegt að fá að vita, því að ekki er hægt að greiða atkv. um till. að öðrum kosti, svo óljóst sem orðalagið er. Um þetta er nauðsynlegt að fá skýra yfirlýsingu frá hv. flm. till.