10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (4334)

8. mál, magnesiumframleiðsla úr sjó

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þá till., sem hér liggur fyrir, enda ekki rétt að tefja gang þeirra mála, sem eru á dagskrá. — Allshn. er sammála um, að þetta mál sé svo mikils virði, að rétt sé að gera þær ráðstafanir, er felast í þeirri till., sem upphaflega var flutt hér, um að rannsaka möguleika á framleiðslu magnesíum úr sjó hér við land. Hins vegar hefur n. talið heppilegra að breyta orðalagi till. í það horf, sem það er á þskj. 203. Í upphaflegu till. var það þannig, að Alþ. ályktaði að fela ríkisstj. að láta rannsaka þetta, en í brtt. er því bætt inn í, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta rannsóknaráð ríkisins annast þessar rannsóknir.

Ég lít svo á, að í raun og veru felist ekki í þessu efnisbreyt. því að ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. hefði hagað framkvæmdunum á þennan hátt.

Þau verk, sem fyrir liggja, hygg ég, að séu í fyrsta lagi að afla tæknilegra upplýsinga um þá framleiðsluaðferð, sem hér er heppilegust, og í öðru lagi að athuga, hvort fyrir hendi eru hér í landinu þau jarðefni, sem þarf til þess að binda magnesíum, sem mun vera í sjónum hér við land eins og annars staðar. Það starf, sem rannsóknaráð ríkisins mun taka upp, mun einkum beinast að þessu tvennu fyrst í stað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið almennt; það er á byrjunarstigi og kemur sjálfsagt fyrir Alþ. aftur, og kemur þá til kasta Alþ. að taka ákvörðun um það, þegar lagðar verða fyrir þær athuganir og rannsóknir, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þessari till., ef samþ. verður.

Ég vil mæla með því fyrir hönd allshn., að till. verði samþ. með því orðalagi, sem er á þskj. 203.