08.02.1944
Sameinað þing: 13. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (4338)

12. mál, virkjun Fljótsár

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Flm. þessarar till. gat ekki verið viðstaddur hér á fundinum, og hefur hann því beðið mig að fylgja till. úr garði með nokkrum orðum.

Eins og segir í grg., er till. komin fram samkv. beiðni bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar vegna þess, hve virkjun Fljótaár varð miklu dýrari en gert var ráð fyrir í upphafi.

Bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar hefur tilbúin ýmis gögn varðandi þetta mál, og var gert ráð fyrir, að þau gögn lægju hér frammi, þegar málið kæmi til umr. En það hefur nú farið svo, að þau eru ekki komin enn. Málið er þó svo skýrt, að ég býst ekki við, að til langra umr. komi, og held því, að það muni koma að fullu gagni, að þessi plögg verði send beint til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar. — Ég legg því til, að till. verði vísað til hv. fjvn. að lokinni umr. og plöggin send þangað, svo að n. geti athugað þau og unnið svo úr sem henni sýnist.