10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (4343)

12. mál, virkjun Fljótsár

Frsm. meiri hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. — Þessi þáltill. hefur verið rædd í fjvn., sem gat að vísu ekki orðið alveg sammála um að mæla með henni. Ég veit ekki, hvort þeir hv. fjvn. menn, sem ekki gátu orðið sammála meiri hl. n., hafa nokkrar till. að gera um breyt. En um afstöðu meiri hl. n. er aðeins því við að bæta, að það stendur svo á um þessa virkjun, að það er mjög þýðingarmikið, að hún geti komizt áfram, en mjög bagalegt, ef ábyrgðin fæst ekki og virkjunin stöðvast, því að það kynni kannske að fara svo, ef ábyrgðin ekki fengist, að ekki fengist lán til virkjunarinnar í viðbót, sem nauðsynlegt er. Siglufjarðarbær er stór bær, og nú á tímum er ekki hægt að komast af í stórum bæjum án þess að hafa rafmagn. Á Siglufirði er verksmiðjuiðnaður allmikill, og ríkið rekur þar stórt fyrirtæki, síldarverksmiðjur ríkisins, og það er ekki lítils virði fyrir þær að hafa mikið rafmagn, bæði fyrir þá aukningu, sem kann að verða gerð á verksmiðjunum, og einnig til öryggis.

Enn fremur er á það að líta, að þegar svo langt er komið virkjuninni sem nú er, að það er þegar búið að leggja í hana 5 millj. kr., þá segir það sig sjálft, að bara af þeim ástæðum einum væri það mjög illt, ef hætta þyrfti við virkjunina að svo komnu, þegar svo mikið fé liggur í þessu fyrirtæki, en það á tiltölulega svo stutt í land að klárast, svo að hægt verði að taka virkjunina í notkun. Og sjá það allir, þó að sumir kynnu að líta svo á, að Siglufjarðarkaupstaður gæti fengið þetta lán án ábyrgðar ríkisins (PZ: Því var lýst í fyrra, að Siglufjörður gæti það.), þá er það þannig, að ef Siglufjarðarkaupstaður tæki þetta lán þannig, þá yrði það dýrara en ef bærinn fengi ríkisábyrgð fyrir því. Ég álít enga áhættu fylgja þessari ábyrgð fyrir ríkissjóð og að ríkissjóður hafi aldrei gengið í ábyrgð fyrir nokkru láni, sem minni áhætta hafi fylgt. Þetta er aðeins mitt persónulega álit, sem ég síðast tók fram. En ef um áhættu væri að ræða í þessu efni fyrir ríkissjóð vegna þegar ákveðinnar ábyrgðar, þá mundi það auka þá áhættu, ef dýrara viðbótarlán væri nú tekið heldur en fengist með ríkisábyrgð.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vildi mega treysta því, að hv. þm. geti fallizt á það, sem meiri hl. fjvn. leggur til.

Það kann að vera, að mörgum finnist, að nú verði ekki snúið við í þessu efni. En því verður þá varla neitað, að þessu máli var í byrjun hrint af stað meira af kappi en forsjá.