10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4345)

12. mál, virkjun Fljótsár

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég gat ekki né heldur hv. þm. S.-Þ. — orðið sammála hv. meiri hl. fjvn. í þessu máli. Þetta mál var sótt hér með miklu kappi, þegar ábyrgð vegna þessarar virkjunar var samþ. á Alþ. á næstsíðasta þingi, og þá var alveg neitað samvinnu við mþn. í raforkumálum, sem Alþ. hafði skipað um þau mál.

Fyrir fjvn. lá ekkert um það, hve mikið er búið að vinna af þessu verki og hve mikið er óunnið, og ekki heldur um það, hve miklu fé er búið að eyða í virkjunina. Þetta var allt í lausu lofti. Bara var farið fram á 8 millj. kr. ábyrgð alls, þegar þessi viðbótarábyrgð er veitt, en engin trygging sett fyrir því á nokkurn hátt, að verkið kostaði ekki miklu meira. Forstjóri rafmagnseftirlits ríkisins var kallaður á fund n. Hann vissi ekki neitt um þessa hluti. Ég bjóst við því, að í svona máli mundi hæstv. ríkisstj. sjá um það, að eftirlit væri haft með því, að af viti væri unnið að þessari virkjun eða a. m. k. sæmilega forsvaranlega, til þess að verkið kostaði ekki allt of mikið. Ekki heldur er það til staðar. Þessi virkjun er framkvæmd af Højgaard og Schultz, og kunnugir menn hafa sagt, að þar væri svo miklu ábótavant um vinnuaðferðir og svo mikil vöntun á verkfærum, að fyrir það mundi verkið verða dýrara en annars mundi vera. Ég tel óforsvaranlegt af því opinbera að láta slíkt viðgangast, þegar svona mikið er í húfi.

Ég veit, að það mun vera ætlunin að láta ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði borga brúsann, þó að þessi virkjun verði dýr, og því er haldið fram, að þær þurfi að nota mikið rafmagn. En þrátt fyrir það stendur hitt óhaggað, og ég vil beina því til hv. þm., að það er að mínu áliti mjög varhugavert, eins og gert var á næstsíðasta þingi, að ákveða, að ríkið gangi í ábyrgðir fyrir lánum til stórframkvæmda, án þess að hið opinbera áskilji sér rétt til þess að hafa tryggingu fyrir því, að verkið verði haganlega unnið. — Ég get því ekki greitt atkv. með því, að þessi ábyrgð verði veitt nú.