10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (4349)

12. mál, virkjun Fljótsár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál var hér til umr. á þinginu í fyrra, þá var ég einn af þeim mönnum, sem héldu því fram, að heppilegra væri að sjá Siglufjarðarkaupstað fyrir rafmagni á annan hátt en þann að ráðast í þessa Fljótaárvirkjun nú. Eins og hv. þm. muna, þá voru hinir í meiri hluta, sem vildu, að nú strax yrði byrjað á því að virkja Fljótaá, og þeir fengu sitt fram. Þá voru samþ. 1. um ríkisábyrgð fyrir láni til framkvæmdarinnar.

Ég tel, að það hafi nú birzt okkur allveigamiklar sannanir fyrir því, að minni hl. í þessu máli á næstsíðasta þingi hafði rétt fyrir sér og að þær eigi eftir að koma margar fleiri á næstu mánuðum. Hitt þykist ég líka vita, að sá meiri hluti, sem myndaðist í þessu máli á næstsíðasta þingi, muni halda sínu striki áfram út í vitleysuna, og við því verður eigi gert. Og það er að sjálfsögðu á þeirra ábyrgð, en ekki okkar hinna, sem vildum hafa aðra aðferð við það að veita Siglufirði rafmagn.