10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (4360)

32. mál, úrkomumælingar á hálendi Íslands

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að hafa nema örfá orð um þessa till. Fjvn. hefur haft hana til meðferðar, og meiri hl. n., sex nm., leggur til, að hún verði samþ. óbreytt, en hins vegar hafa þrír nm. ekki talið beina þörf á að samþ. þáltill. eða efni hennar nú þegar, þó að ég haldi, að þeir muni að öllu leyti geta fallizt á þá nauðsyn, sem þáltill. fjallar um. En meiri hl. fjvn. lítur svo á, að það sé svo mikilsvert atriði að hefja nú þegar á þessu ári þessar úrkomumælingar á hálendi Íslands — með sérstöku tilliti til hinna miklu raforkuframkvæmda, sem fyrirhugaðar eru, — að sjálfsagt sé að efna nú þegar til þeirra og vinna það, sem mundi vinnast á því, fremur en beðið væri með þær athuganir, til þess að ákveða þær í sambandi við næstu fjárl. Till. gerir ráð fyrir að heimila stj. að verja 10 þús. kr. í þessu skyni.

Ég þarf ekki að fara orðum um málið sjálft. Þær þrjár stofnanir hér á landi, sem eru kunnugastar þessum málum, rafmagnseftirlitið, rafveitan og veðurstofan, hafa gefið umsögn sína um till., og fylgir hún með á þessu þskj. Leggja þær eins og meiri hl. fjvn. eindregið til, að till. verði samþ.