10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (4362)

32. mál, úrkomumælingar á hálendi Íslands

Sigurður Thoroddsen:

Ég skal vera stuttorður. Ég er hissa, að fjvn. skyldi ekki geta orðið samferða um þetta litla mál. Hv. formaður fjvn. setti það aðallega fyrir sig, að till. sama efnis hefði verið felld við afgreiðslu fjárl. í vetur. Þetta er rétt, en þá var farið fram á allmiklu hærri upphæð en hér um ræðir. Það þarf ekki að deila um nauðsyn þessa máls, því að umsögn þeirra sérfræðinga, sem hér eiga hlut að máli, sýnir, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða. Það hefur mjög mikið að segja, að hægt sé að áætla nærri réttu lagi, hvað mikil úrkoma er á hverjum stað, og með þessari byrjun væri t. d. hægt að setja upp mælingarstöðvar á þeim svæðum, þar sem virkjun fallvatna er fyrirhuguð á næstunni. Gætu með því fengizt veigamiklar upplýsingar. Úrkomumælingar eru nú til á láglendi, og með því að gera samanburð aftur í tímann mætti gera sér grein fyrir úrkomunni og rennsli í ám.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti, að till. verði samþ.