23.02.1944
Sameinað þing: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (4371)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa till., þar eð það var tekið hér fram í gær, sem ég vildi einkum sagt hafa. Enn fremur mun málið eiga að fara til n., sem ég á sæti í.

Það eru nú um 30 ár síðan fyrst var farið að tala um endurbætur á þessum vegi, en ekkert hefur enn þá verið gert. Margar till. hafa komið fram, en lítið orðið úr framkvæmdum. Við búum enn við sama veginn og lagður var 1890. Fyrir 30 árum var vont að búa við þennan veg, en nú er það alls ófært. Það verður eitthvað að gera. Það hefur löngum verið mjög deilt um leiðina. Krýsuvíkurleiðin var í upphafi talin æskileg. Var af kunnugum fullyrt, að hún væri langbezta leiðin. 1936 kom fram álit, sem vegamálastjóri sendi samgöngumálan. Alþingis. Sú till. er ekki hliðholl þessari leið, Krýsuvík-Selvogur. Vegamálastjóri hefur alltaf haft ímugust á þessari leið af óskiljanlegum ástæðum. Þá átti að vera ófært að leggja veg þessa leið. Nú er þetta breytt. Nú er enginn vandi að leggja veginn, en nú er það snjórinn, sem á að gera þessa leið stöðugt ófæra. Kunnugir menn telja þessa leið fyrir allra hluta sakir hina beztu, m. a. af því, að hún liggur svo lágt og svo að segja á sjávarströndinni.

Nú liggur hér fyrir till. um að veita til þessara framkvæmda 2 milljónir króna, og er þess að vænta, að verkinu verði lokið á 1–2 árum, því að við, sem þurfum að ferðast þessa leið, allir, sem við hana eiga að búa, vitum, að ófært er að draga framkvæmdir lengur, svo knýjandi er þörfin. Þess vegna kom það mér mjög á óvart, þegar ég sá till. hv. 2. þm. Árn., sem miðar að því að setja fleyg inn í málið og drepa því á dreif, eins og oft áður, þegar þessar samgöngubætur hafa verið til umr. En þessi hv. þm. hefur öðru hverju átt sæti á Alþ. síðan 1919. Nú kemur hann með hóp af mönnum, sem vilja þetta mál feigt, og keppir þannig að eyðileggingu þess með öllum ráðum. Það er mjög undarlegt, að þetta skuli vera starf hans þessa dagana, þegar kjósendur hans eru að safna undirskriftum undir áskorun um, að þessi vegur komist sem allra fyrst á. Hann gerði að vísu þá játningu í gær, að hann væri í raun og veru fylgjandi Krýsuvíkurveginum. Þó vil hann reyna að eyðileggja, að málið nái fram að ganga. Það er öllum ljóst, sem lesið hafa till. þessa hv. þm., að hún er til þess eins fram komin að eyðileggja málið, og ekki annars. Mig undrar þetta alvöruleysi hv. þm., þar sem hann veit, hvernig ástandið er og hvað þörfin er brýn. Hann segir, að búið sé í 30 ár að skipa nefndir og rökræða málið, en ekkert hafi verið gert enn þá til að leysa þetta mál, og enn þá leggur hann til, að ekkert verði gert. Hann segir að vísu, að það eigi að skipa 5 manna n., og hann talaði um það í gær, að hann hefði mikla trú á sérfræðingum í þessum efnum. Og þessi n. á að skila áliti eftir þrjá mánuði um þessar 12 eða 13 leiðir. Form. n. á svo að vera vegamálastjórinn, sem hefur haft þetta mál með höndum í áratug og aldrei getað gert neitt. Hann hefur staðið á móti Krýsuvíkurleiðinni eins og hann hefur séð sér fært, hann hefur haft málið til meðferðar öll þessi ár og hefði vel getað látið hrinda því áfram, og ég hef enga trú á því, að málið leysist, þó að skipuð verði nú 5 manna n., þar sem vegamálastjóri væri form. — Ég held, að ég þurfi ekki að taka fleira fram um þetta. Ég er ekki á móti því, að þessi till. gangi til n., þar sem ég vona, að hún fái hæfilega ráðningu.