29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (4379)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Ég skal strax taka það fram um þessa skrifl. brtt., að ég hef persónulega ekkert við hana að athuga, og hef ég sagt það við hv. 2. flm., að ég mundi geta fallizt á hana, ef ég yrði ekki var við, að hún spillti, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla.

Ég hafði gert mér von um, að hægt væri að velja nefndarmennina hleypidómalaust. En það fór á annan veg. Blóðið reyndist heldur heitt, og hygg ég því, að þessi öryggistill. eigi rétt á sér. Þetta eru mínar undirtektir undir till.

Síðan ég ræddi síðast um þetta mál, hefur ekkert nýtt komið fram, nema að hitnað hefur í heyjum, eins og oft vill verða, ef arfi er látinn í hlöðu. Mér þykir miður, að hv. 1. þm. Rang. virðist hafa þótt við mig, og sagði hann, að ég hefði brugðið sér um heimsku. Þetta er fullkominn misskilningur. Ég sagði aðeins, að hann flytti þetta mál meira af líkams- en sálarkröftum, því svo var sem hún ætlaði að bugast undir megingjörðum líkamans, svo var hann rammefldur.

Hitt, sem komið gæti málinu við og alvarlegra er, var, að hv. þm. hélt því fram, að bæði Rangæingar og Árnesingar væru mér andstæðir í þessu máli. Ég verð að segja, að mér þykir mikið, ef þeir hafa skipt um skoðun í þessu efni, og líklegt þætti mér, að Rangæingar og Árnesingar mundu verða með hvaða vegabótum sem væri, því að það má hv. 1. þm. Rang., sem er læknir, vita, að sjúklingur leitar þangað, sem batavon er.

Viðvíkjandi því, að ég hafi beðið ósigur í þessu máli, er því til að svara, að þegar dæmt verður um þetta mál, verða það ekki okkar persónur, sem dæmt verður um, heldur hvort farið hafi verið rétt eða rangt að. Ég veit ekki betur en að ég hafi haldið á mínu máli og fyrir það verið á fundum dæmdur sem fjandmaður vegamála Sunnlendinga. Ég er með Krýsuvíkurveginum af því að hann er kominn svo langt á leið. En það er mergurinn málsins, að samgöngumál Sunnlendinga eru ekki komin í örugga höfn, þótt þessi vegur hafi verið samþ., og má í því sambandi benda á till. um Hellisheiðarveginn. Krýsuvíkurvegurinn kemur, þótt einhver kynni að mótmæla. Þess vegna ættu þeir, sem þykjast hafa á réttu að standa, að vera rólegir. En skoðanirnar eru skiptar, og djörfung vantar til framkvæmdanna. Ýmsir álíta þessar og aðrar hliðstæðar fyrirætlanir skýjaborgir. Til dæmis var það svo, þegar Gestur bróðir minn var að berjast fyrir hafnargerðinni og Jón Þorláksson fyrir járnbrautarmálinu. En þetta voru stórhuga menn, sem þorðu að setja skoðanir sínar fram. Nú er eins og menn þurfi að biðja um leyfi til þess að halda fram áhugamálum sínum hér á Alþ. Ég hef þó aldrei verið undir þessa reglu gefinn og mun því fylgja till. um fjárframlagið til Krýsuvíkurvegarins án þess að spyrja nokkurn leyfis.

Því hefur verið haldið fram, að ég væri fjandsamlegur samgöngumálum Sunnlendinga. Þeim, sem halda slíku fram, vil ég benda á, að nú fyrir rúmu missiri var flutt hér till. um steyptan veg yfir Hellisheiði. Flm. voru menn, sem ég veit, að eru velviljaðir því, að Krýsuvíkurvegurinn verði fullgerður. Ég var með þessari till., og vil ég spyrja, hvort það hafi spillt fyrir Krýsuvíkurveginum. Ég álít ekki, að svo hafi verið, en ég skil ekki málflutning þeirra manna, sem halda slíku fram.

Þessi till. er merkileg og gæti haft mikla þýðingu fyrir samgöngumál hér sunnanlands. Vil ég því ljúka máli mínu með þeirri ósk, að þm. taki rétta afstöðu til hennar.