29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (4382)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég get alltaf gert ráð fyrir því, að þessi till. fari til fjvn., hvort sem umr. yrði lokið áður en till. yrði vísað til n. eða frestað. Ég læt það liggja milli hluta, en ég vona, að hæstv. forseti skapi till. möguleika til þess að fá úrslit; það er aðalatriðið frá mínu sjónarmiði.

Hv. 1. þm. Árn. taldi mikla nauðsyn á því að breyta orðalagi 3. liðs í till., og þetta getur verið álitamál. Enn fremur spannst nokkurt mál út af brtt., sem hér liggur fyrir um það, að í n. skuli eingöngu vera sérfróðir menn. Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., að það þarf fleira en sérþekkingu til þess að athuga þessa hluti, en ef það eru samvizkusamir og víðsýnir sérfræðingar, sem fjalla um þetta málefni, þá sé ég ekki betur en því sé nokkuð vel borgið í þeirra höndum, og auðvitað ber þeim skylda til að leita til allra þeirra manna, sem geta gefið mestar og beztar upplýsingar um snjóalög og annað, er viðvíkur þessum hlutum, og þar um eru kunnugastir. En ég vil virða ábendingar hv. 1. þm. Árn., og vel má vera, að þessi till. þurfi nokkra athugun í n., þó hann gerði nú nokkuð mikið úr því, hvað hún þyrfti mikillar lagfæringar, en þetta var frekar meinleysislega mælt hjá honum og af drenglyndi, og ég veit, hvernig á að taka því. Hins vegar hef ég ekki það sama að segja um þá, sem sendir eru austan yfir ár; þeir hafa stundum verið misjafnlega góðviljaðir. Við munum t. d. eftir Skammkatli í fyrndinni, þegar hann var sendur vestur yfir ár. Ekki var honum að treysta.