29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (4386)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Sigurður Bjarnason:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 8. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Árn. drápu á. Það er ekki ætlun mín, að sérfræðingar, sem kosnir yrðu í n. samkv. minni till., útilokuðu sig frá að kynna sér reynslu þeirra, sem bezt vita um, hvernig til hagar. Auðvitað eiga þeir að kynna sér málið sem vendilegast hjá þeim, sem þekkingu hafa til að bera, því að hvor hátturinn, sem hafður verður á, hvort sem n. verður skipuð sérfræðingum, eins og ég legg til, eða fulltrúum þingflokkanna kosnum á Alþ., kemur varla til þess, að þeir fari að stunda snjómælingar uppi á Hellisheiði. Auðvitað leita þeir sér þeirra upplýsinga, sem fyrir hendi eru, en sérfróðir menn hafa betri skilyrði til að vega og meta þær upplýsingar. Svo ekki fleiri orð um það. Ég óska þess, að hv. n. taki þessa brtt. til athugunar.