07.03.1944
Sameinað þing: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (4392)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Það hefur orðið svo gott samkomulag um þessa till., að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að gera nokkra verulega grein fyrir meðferð n. á henni. Fjvn. var sammála um það, að till. ætti að samþykkja, hins vegar er sennilega enn ekki orðið samkomulag um það, hvernig breyt. skuli orðuð, og þó að n. hafi öll skrifað hér undir nál., sem gerir ráð fyrir, að till. sé umorðuð eins og greinir á þskj. 142, hafa þó þrír nm. skrifað undir með fyrirvara, og ég veit, að fyrirvari tveggja þeirra, sem undir skrifa, gildir það, eftir þeirra upplýsingum, að þeir vilja, að n. starfi kauplaust. En við 6 nm. töldum okkur ekki fært að vera með þeim í þessu, vegna þess að það er alls ekki áskilið í till., að það séu þingmenn, sem séu í n., og við álítum, að fjvn. hafi ekki til þess vald að úrskurða, að utanþingsmenn skuli starfa fyrir ríkið án endurgreiðslu, nema þeir séu því samþykkir sjálfir. Ég veit ekki um tilefni fyrirvara hv. þm. Ísaf., en aðalkjarninn er þessi, að n. leggur til, að till. verði samþ.