17.02.1944
Sameinað þing: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (4408)

38. mál, fjárskipti í Suður-Þingeyjarsýslu

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Eins og þessi till. ber með sér, hefur n. manna úr Suður-Þingeyjarsýslu snúið sér til þingsins með þetta mál og þá fyrst til mín sem þm. kjördæmisins.

Nú er svo komið, að hálf sýslan er undirlögð fjárpestina. Hefur hún herjað svo stórkostlega, að nærri mun láta, að helmingur bænda mundi ekki hafa atkvæðisrétt um niðurskurð, ef ákvæðið um, að þeir einir, er eiga 25 kindur og þar yfir, skuli hafa atkvæðisrétt, ætti að gilda. Virðist þó hins vegar ekki réttlátt, að þeir hafi ekki atkvæðisrétt, þar eð þeir, er fé eiga, munu í lengstu lög hika við að greiða atkv. með því, að bústofn þeirra verði skorinn niður, sem þó mun nú nauðsyn. N. leggur því til, að þeir, er misst hafa fé sitt, hafi einnig atkvæðisrétt, og óskar, að atkvgr. fari fram í vor.

Fyrir nokkrum árum var gerð tilraun með fjárskipti í einum hrepp, og þótt ekki geti talizt, að fullnaðarreynsla hafi enn fengizt, þá virðist svo, að bændur þar muni rétta við.

Ég legg hér ekki fram neina kostnaðaráætlun þessu víðvíkjandi. Það mun verða að vera samningamál við ríkisstj. og fjvn. Ég get ekki ætlazt til, að skaðinn verði greiddur að fullu, tel, að þar verði að gæta nokkurs hófs sem annars staðar.

Þm. mun kunnugt, hversu háttar í sveitum þessum. Ekkert er unnt að gera til að ráða bót á þessum sjúkdómi, og annar atvinnuvegur fyrir héraðsbúa mun ekki koma til greina. — Ég vænti því, að Alþ. taki á þessu nauðsynjamáli með skilningi.