15.06.1944
Efri deild: 34. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég hafði búizt við, að þetta mál fengi hér þá þinglegu meðferð að fara til n. og yrði athugað þar. Með því að það er nú ekki, vildi ég benda á, að í 11. gr. virðist orðalagið vera þannig, að það þurfi breytingar við, en gr. hljóðar þannig: „Lög þessi ná til allra þjóðfána, sem notaðir eru á venjulegan hátt, svo að almenningur eigi kost á að sjá þá úti eða inni, en ekki til skrautfána, borðfána eða því um líkra fána, sem þó skulu jafnan vera gerðir þannig, að réttir séu litir og stærðarhlutföll reita og krossa“. Ég vildi því leggja fram brtt. þannig, að orðin: „til allra þjóðfána, sem notaðir eru á venjulegan hátt, svo að almenningur eigi kost á að sjá þá úti eða inni, en“ — falli niður. Ég skal geta þess, að ég átti tal um þetta við formann allshn. í Nd., sem féllst á, að þetta væri eðlileg breyt. N. hafði lítinn tíma til að athuga málið, enda þótt frv. hafi tekið miklum breyt. frá upphafi, eins og sést af þskj. 253, og bendir það til þess, að málið hafi fengið of lítinn undirbúning frá hæstv. ríkisstj. Ég hafði hugsað mér, að þetta gengi til n., en af því að það hefur ekki orðið, leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt.