06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (4418)

57. mál, gufuhverir

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Þáltill. þessi er flutt að tilhlutun bæjarráðs Reykjavíkur. Eru flm. hennar allir þm. kaupstaðarins. Fer hún í þá átt, að komið verði á samvinnu milli ríkisstj. og bæjarstj. Reykjavíkur um ýtarlega rannsókn á möguleikum til virkjunar á gufuhverum í Henglinum. — Því hefur oft verið haldið fram, að gufa þar gæti orðið að miklu gagni til upphitunar og eins til rafmagnsframleiðslu. Er sérstaklega mikilvægt að fá úr því skorið í sambandi við fyrirsjáanlega þörf á næstu tímum fyrir aukningu á raforku fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð, Suðurnes og allt Suðurlandsláglendið. Eins væri hugsanlegt, að af þessu gætu sprottið iðnaðarframkvæmdir og ýmislegt fleira. Hefur sérstaklega einn verkfræðingur, Gísli Halldórsson, hvað eftir annað ritað um málið. Um það hefur verið rætt, að ef þessu máli væri blandað saman við lausn annarra aðkallandi mála, þá gæti það orðið þeim til tafar. Nú er þetta mál tekið sérstætt, og á að láta fara fram vísindalega rannsókn á möguleikum á þessu svæði og ekki sett þannig fram, að það geti tafið fyrir öðrum framkvæmdum eða leitt til annars en að þetta verði athugað á þann veg, sem öllum má verða til góðs. Vona ég, að þetta mál nái fram að ganga ágreiningslaust.

Hv. þm. Hafnf. hefur flutt brtt. um, að sams konar rannsókn eigi sér stað í Krýsuvík í samvinnu milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og ríkisstj. Mæli ég með, að hún verði samþ., því að þar er um nauðsynjamál að ræða, sem getur komið ekki eingöngu Hafnarfirði að haldi, heldur einnig stærra svæði, ef möguleikar í Krýsuvík eru slíkir sem ýmsir vænta.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um till. Málið liggur ljóst fyrir. Einhver kostnaður verður af þessu, en naumast ýkja mikill. Ég sé ekki ástæðu til að vísa málinu til nefndar. Ég hef átt tal við ýmsa úr fjvn., sem sjá ekki ástæðu til, að málið fari þangað, og er það þó sú n., sem málið heyrði helzt undir. Ég vænti, að málinu verði sýnd sú velvild, að það verði nú samþ. til síðari umr.