06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (4430)

59. mál, talsímaþjónusta í verstöðvum vegna slysavarna

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég skal takmarka mjög það, sem ég þarf að segja um þetta mál, því að í grg. fyrir till. er komið inn á flest þau atriði, sem hér koma til skjalanna.

Ásamt þm. S.-M. flyt ég þessa till. á þskj. 125 og ræði þar um sérstaka starfrækslu á talsímastöðvum í verstöðvum landsins, sér í lagi á aðalvertíðum í þjónustu slysavarna. Mér er það ljóst, að vel getur verið, að orðalag þessarar till. sé óákveðið og þyrfti að skýrast. Það er hér t. d. enginn munur gerður á verstöðvum, enda talað um verstöðvar yfirleitt um land allt. Og það er að vísu svo, að þessarar þjónustu er þörf, hvort heldur er vestan, norðan eða austan lands, ef ástæður standa til og hægt að koma henni fyrir. En ég tel, að þetta sé atriði, sem atvmrn. og stj. landsins munu bezt geta látið um fjalla og þær aðstæður, sem þar koma til greina. En hitt liggur í augum uppi, að það samband við talstöðvarbátana þurfi að vera kerfi á landinu til samvinnu um orðsendingar og fréttaflutning milli báta og lands, þegar um nauðsyn er að ræða á því, að hjálp sé veitt einhverjum bátum eða öðrum, sem kunna að vera í nauðum staddir. Það er sem sagt merkilegt mál, að þessu verði komið í kring og hinu í sömu till., að því fyrirkomulagi verði komið á, þar sem það er ekki fyrir, sem mun vera á mjög fáum stöðum, að ávallt sé unnt að ná gegnum landssímann til Slysavarnafélagsins á hvaða tíma sólarhringsins, sem er, og hvaða verstöð, sem um er að ræða. Í bréfi til mín frá póst- og símamálastjóra er svo að orði komizt um þessi mál, með leyfi forseta:

,,Þjónustu þessa verður að telja mikilvæga öryggisráðstöfun fyrir Vestmannaeyjabátana, þegar þeir eru á sjó, þ. e. a. s. frá því þeir fara í róður (kl. 2–3 að nóttu) og sömuleiðis eftir kl. 21 þau kvöldin, sem svo ber undir, að einhver þeirra er þá ekki kominn að, en þá (kl. 21) hættir hinni daglegu starfrækslu ritsíma- og loftskeytaþjónustu ritsímastöðvarinnar.“

Þetta, sem hér er sagt um Vestmannaeyjabátana, gildir náttúrlega um alla báta, og þess vegna er till. í því formi, sem hún er flutt. Nú, síðan þessi till. kom fram, hefur verið vakin athygli okkar flm. og mín sérstaklega, að í sambandi við slíka vörzlu sé þess að gæta, að í ýmsum verstöðvum úti á landi mun hafa verið fréttaflutningur beint frá Veðurstofunni hér beint til verstöðvanna um veðurútlitið, t. d. þrisvar á nóttu og tvisvar til þrisvar á daginn. Þessi skilaboð eða veðurfregnir, sem þannig hafa getað borizt, hafa þá verið lagðar fyrir símaverðina á hverjum stað og ekki annað fyrir formanninn að gera en snúa sér til þeirra, áður en hann býst til sjóferðar hverju sinni, til þess að vita seinustu fregnir frá Veðurstofunni. Á þetta var bent nú, eftir að till. þessi var lögð fram, og þess vegna ekki á það minnzt í till. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, áður en málið fer til n., að þessi möguleiki er til í málinu, að greiða sem sagt fyrir, að með sömu þjónustu er hægt að greiða fyrir veðurfregnum á réttum tíma til verstöðvanna. Fyrir stríð þóttu þær fregnir, sem sendar voru út að nóttu til, a. m. k. í Vestmannaeyjum, mikils virði. Sama var að segja um Ísafjörð, því að þann veðurspádóm fengu sjómenn, alveg rétt áður en þeir fóru á sjó.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta öllu meira. — Það hafa verið dálítil átök um það, hvort landssíminn ætti að bera uppi kostnað af þessu á þeim stöðvum, þar sem þessi talsímaþjónusta hefur verið framkvæmd, svo sem t. d. í Vestmannaeyjum að nokkru leyti. Ég tel það að vísu aukaatriði í þessu máli. Hins vegar vil ég benda á það, að ekki sýnist vera neitt fjarstætt, að landssíminn kosti þessa þjónustu, jafnvel þó að ég geti ekki neitað því, sem haldið hefur verið fram af símans hálfu, að um beinar peningatekjur af slíkum störfum er lítið að ræða nema á stöðum eins og t. d. Siglufirði, þar sem um háannatímann þarf oft að koma mjög mikilsverðum skeytum frá sér viðvíkjandi öðru en beinum slysavörnum. En hversu sem fer um fjárhagshlið málsins, þá erum við flm. þeirrar skoðunar — og vonum, að undir það verði tekið af hinu háa Alþ., — að það sé mjög mikilsvert, að skipulagi verði komið á slysavarnastarfið í sambandi við talsímaþjónustuna svo víða á landinu og í eins mörgum verstöðvum og unnt er.

Ég vil svo mælast til þess, að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.