06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (4431)

59. mál, talsímaþjónusta í verstöðvum vegna slysavarna

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Það eru vafalaust allir á einu máli um það, að leitast beri við að koma slysavarnaþjónustu landsins í sem bezt horf og gera allt, sem hægt er, til þess að koma í veg fyrir slys.

En þessi þáltill., eins og hún er orðuð, er svo yfirgripsmikil, að ég ætla, að í sambandi við hana mundi vera um að ræða svo mikil fjárútlát eða ráðstafanir á fé, að það mun vera miklum mun meira en hv. flm. þáltill. kannske hafa gert sér grein fyrir. Ég ætla ekki að fara langt út í það mál hér, en aðeins geta þess, að með því að hv. 1. flm. hefur þegar gert það að till. sinni, að þessari till. sé á milli umr. vísað til hv. fjvn., þá mundi landssímanum og ráðun. gefast kostur á þar og þá að gera grein fyrir þessari hlið málsins og þá líka ásamt hv. fjvn. að leitast við að finna leið eða orðalag, sem líklegt væri, að gæti orðið þannig, að Alþ. gæti á till. fallizt. Landssíminn og ráðun. munu því nota tækifærið, sem gefst með því, að málið fer til hv. fjvn., ef það fer til þeirrar n., um að bera þar fram þær upplýsingar í málinu til skýringar, sem taldar verða nauðsynlegar.

En hitt vil ég segja aftur, að að sjálfsögðu ber að leita eftir því að leysa þetta mál á þann hátt, að það verði sem mest til þess að koma í veg fyrir slys.