06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (4437)

63. mál, fáninn

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á þskj. 136 flytjum við hv. þm. N.-Ísf. till. til þál. um notkun íslenzka fánans. Tilgangur till. er sá að auka sem mest rétta notkun íslenzka fánans, og ríkisstj. er með þessari till. falið að gera vissar ráðstafanir í þessu skyni. Enn fremur er ætlazt til þess, að ríkisstj. sé falinn undirbúningur löggjafar um íslenzka fánann.

Allar sjálfstæðar þjóðir eiga sín sérstöku þjóðarmerki, sem eru tákn hins sérstaka þjóðernis þeirra, fyrst og fremst fáninn. Þess vegna hefur fánabarátta víða orðið mikilvægur liður í sjálfstæðisbaráttu þjóðanna. Við Íslendingar eigum einnig okkar fánabaráttu. Við eigum okkar baráttu um endurbætt stjórnskipulag um miðja síðustu öld. Kröfurnar voru þá fyrst og fremst um að fá löggjafarvaldið inn í landið og sömuleiðis dómsvaldið og stjórn landsins. Og nú á síðustu árum hefur krafa okkar verið sú, sem vonandi er að verða að raunveruleika, að við tækjum öll okkar mál og æðstu stjórn landsins inn fyrir landsteinana.

Áður en stjórnarbótarmálið var langt komið, kom fánabaráttan inn í sjálfstæðisbaráttu okkar. Forystumönnum þjóðarinnar var það þegar ljóst, að þjóð, sem var að berjast til sjálfstæðis, hlaut einnig að berjast fyrir sérstökum þjóðfána. Þeim var ljóst, að ekki var unnt að sætta sig við, að erlendur fáni blakti yfir landinu, yfir höfnum, bryggjum og á skipum, sem siglt var af Íslendingum hér við land og á höfum úti og í erlendum höfnum, fáni, sem væri nokkurs konar innsigli þess, að við værum danskir borgarar, en ekki íslenzkir.

Ég mun nú ekki rekja ýtarlega sögu fánabaráttu okkar, en ég vil aðeins minna á, að í sambandi við þúsund ára þjóðhátíð okkar árið 1874 var komin alda um hinn bláa fána, þ. e. a. s. hvítan fálka í bláum feldi. Hann var dreginn við hún á Þingvallafundinum 1873 og blakti víða 1874 á þjóðhátíðinni. En nokkru síðar komu fram raddir um, að þessi fáni, hvítur fálki í bláum feldi, væri ekki heppilegur þjóðfáni. Og 1885 má segja, að fánabaráttan hefjist fyrir alvöru, þegar stjórnskipunarnefndin, sem starfaði í þinginu, lagði fram frv. um þjóðfána Íslands. Formaður og frsm. þessarar n. var Jón Sigurðsson frá Gautlöndum. 1. gr. þess frv. hljóðaði svo: „Ísland skal hafa sérstakan fána.“ Og síðan voru í frv. ákvæði um gerð hans. Gerð hans átti að vera svo, að hann átti að vera þrílitur. Í miðju átti að vera rauður kross með hvítum jöðrum. Í einu horninu átti að vera danski fáninn, því að þá vorum við óaðskiljanlegur hluti Danaveldis. En hitt af fánanum var hvítur fálki á bláum feldi. Þessi fáni var dreginn upp af Benedikt Gröndal og er á Þjóðminjasafninu. (Þetta form fánans var prentað með litum á þskj. nr. 423 1941). — Þetta frv. náði ekki fram að ganga þá. En upp úr þessu hefst fánabaráttan. Og þá komu nokkru síðar fram raddir, sem skáldið mikla, Einar Benediktsson, mun hafa átt hugmynd að og barðist fyrir af miklum eldmóði. Út í þá sálma skal ég ekki fara hér.

Það hefur um langan aldur verið deilt um gerð fánans. En það atriði liggur að sjálfsögðu ekki fyrir með þessari þáltill. Þess er þó rétt að geta, að gerð fánans, eins og hún er nú, var ákveðin 1915 með konungsúrskurði, en till. um gerð hans eru frá n., sem skipuð var 1913 og í voru þessir menn: Guðmundur Björnsson, sem var form., Jón Aðils, Matthías Þórðarson, Ólafur Björnsson ritstjóri og Þórarinn B. Þorláksson listmálari. — Síðan 1915 er fáninn óbreyttur, og 1918 er hann orðinn ríkisfáni, um leið og við fáum viðurkennt fullveldi okkar.

Þegar Íslendingar fengu sinn eigin fána, var það stórt spor stigið í sjálfstæðisbaráttunni. Og það var þá og er Íslendingum mikið gleðiefni að geta dregið að hún sinn íslenzka fána innan lands og utan, í höfnum og á höfum úti í stað fána annars lands. Því hefur verið lýst, hve mikið stolt hafi gripið íslenzka farmenn, þegar þeir gátu fyrst dregið upp fána hins fullvalda íslenzka ríkis.

En almenningur hefur, því miður, síðan við fengum viðurkenndan fána okkar, ekki sýnt fánanum þá virðingu, sem við hefði mátt búast, eins og eldmóðurinn var í baráttunni um að fá okkar sérstaka fána og með tilliti til þess, hvað öðrum þjóðum er þeirra fáni. Þessi þáltill. á að verða til þess, að menn verði hvattir til að auka notkun íslenzka fánans. Að því ber að stefna, að sem flestir hafi fánastengur á húsum sínum og dragi þjóðfánann upp við hátíðleg tækifæri og á hátíðlegum stundum. Þetta er ekki tildursmál eitt, því að fáninn hefur sína sögulegu þýðingu, og fáninn verður til þess að blása mönnum í brjóst aukna þjóðerniskennd og þjóðrækni. Þessi þáltill. fer fram á, að Alþ. samþ. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir þeirri ósk og áskorun til allra landsmanna, að efld sé og aukin notkun íslenzka fánans og virðing fyrir honum sem tákni hins íslenzka þjóðernis og fullveldis.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera eftirfarandi ráðstafanir í þessu skyni:

1. Að hvetja bæjarstjórnir, sýslunefndir og hreppsnefndir um land allt og sem flest félög og samtök, er vinna að menningar- og þjóðernismálum, til þess að beita áhrifum sínum í þá átt, að sem flestir Íslendingar eignist íslenzkan fána, komi sér upp fánastöngum og dragi íslenzka fánann að hún á hátíðlegum stundum.

2. Að hlutast til um eftir föngum, að jafnan sé fáanlegt í landinu við sanngjörnu verði nægilegt af fánastöngum og íslenzkum fánum í réttum hlutföllum og réttum litum.

3. Að gefa út tilkynningu um fánadaga, þ. e. þá hátíðisdaga ársins, sem sérstaklega er óskað, að allur landslýður dragi fána að hún.

4. Að vinna að undirbúningi löggjafar um íslenzka fánann.

Ríkisstjórninni er heimilt að greiða fé úr ríkissjóði til þess að standast kostnað við framkvæmd þessarar þingsályktunartillögu.“

Ef allar þessar sveitarstjórnir, sýslunefndir og bæjarstjórnir og öll þessi félög taka höndum saman um að vinna að þjóðlegri og virðulegri notkun íslenzka fánans, má vinna stórvirki á þessu sviði. Og ég vil sérstaklega geta um ein samtök, mjög fjölmenn, hér á landi, sem hafa sýnt íslenzka fánanum alveg sérstaka rækt og reynt að auka virðingu fyrir honum, sem eru íþróttafélögin og ÍSÍ.

Nú er það svo, að þeir menn, sem vilja hafa fánastengur á húsum sínum, þurfa langflestir að fá þær smíðaðar. Æskilegast væri, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að fyrirvaralítið væri hægt fyrir menn að fá keyptar fánastengur og helzt með kostnaðarverði.

Þá er farið fram á það í þessari þáltill., að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess, að jafnan sé fáanlegt í landinu nægilegt af íslenzkum fánum í réttum hlutföllum og réttum litum. En það hefur, því miður, oft verið svo, að þeir fánar, sem notaðir hafa verið hjá okkur, hafa ekki verið í réttum litum og réttum litahlutföllum. En um þetta þarf að gæta mestu nákvæmni.

3. liður þáltill., um fánadaga, er um, að ríkisstj. gefi út sérstaka tilkynningu um fánadaga, þ. e. þá hátíðisdaga ársins, sem sérstaklega er óskað, að allur landslýður dragi fánann að hún. Að sjálfsögðu mun það verða svo, að einstakir menn, fyrirtæki og stofnanir draga fána að hún, þegar sérstaklega stendur á fyrir þeim eða þegar hópar manna, sérstaklega félög, svo sem bæjarfélög eða sveitarfélög, hafa sinn tyllidag. En svo á að hafa daga, þegar öll þjóðin á að draga fánann að hún, svo sem t. d. 17. júní og 1. des., og e. t. v. kæmu þá fleiri dagar til greina. Tilgangurinn er, að ríkisstj. gefi út tilkynningu um slíkt til þess að kynna þjóðinni, að ætlazt sé til þess, að allur landslýður dragi upp fánann þá.

Í 4. lagi er ríkisstj. falið í þáltill. að vinna að undirbúningi löggjafar um íslenzka fánann.

Á Alþ. 1941 flutti ríkisstj. frv. til 1. um þjóðfána Íslendinga. Það er vissulega kominn tími til þess, að við setjum okkar eigin löggjöf, þar sem bæði sé tekið fram um gerð fánans, notkun hans og annað, sem meðferð hans snertir. Þetta áminnzta frv. var samið samkv. þál., sem samþ. hafði verið þá árið áður, og sniðið í verulegum atriðum eftir fánalöggjöf Norðmanna og Svía. En þessar þjóðir báðar hafa ákvæði í stjskr. sinni um fánann og enn fremur sérstaka fánalöggjöf. Efni þessa frv. var í aðalatriðum þetta: Um gerð almenns þjóðfána, póst- og símafána, tollfána og hafnsögumannsfána. Þá var og í frv. bann við aukamerkjum á þjóðfánanum, ákvæði um fánastengur og á hvaða tíma mætti hafa fánann uppi. Þá var þar og ákvæði um, að sýnishorn af réttum litum fána skyldi vera til á vissum stöðum, sem dómsmálaráðuneytið ákvæði og auglýsti, bann við því að nota fána, sem væru upplitaðir eða slitnir, bann við að nota fánann án sérstaks leyfis í firmamerki, vörumerki á söluvarningi eða merki á umbúðum eða auglýsingu á vörum, o. s. frv. — Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. 1941. Það komst til n., en málið var ekki afgreitt frá þinginu. Það var síðan flutt árið 1942 af fimm þm. og komst til n. annað sinn, og nál. kom þá, þar sem mælt var með samþykkt frv. En það komst ekki einu sinni til 2. umr. í d. Síðan hefur þetta mál ekki verið flutt á hæstv. Alþ. En það er vissulega kominn tími til þess, að við setjum okkur fánalöggjöf. Ég ætla, að málið hafi dagað uppi vegna deilna um gerð fánans, hvort hann ætti að vera þrílitur eða eins og hann áður var. En við flm. þessarar þáltill. teljum, að ekki verði lengur dregið að setja löggjöf um þjóðfánann, og óskum þess, að sett verði fánalöggjöf, um leið og íslenzka lýðveldið verður stofnað.

Ég skal taka fram eitt atriði um nauðsyn á því að setja fánalöggjöf. Í íslenzkum 1. eru engin refsiákvæði gegn því að sýna íslenzka fánanum óvirðingu eða smána hann. Hins vegar eru í hegningarl. okkar lagðar þungar refsingar við því að smána fána erlendra ríkja. Það eru lagðar við því sektir, varðhald eða allt að 6 ára fangelsi. Svo mikils þykir við þurfa að vernda virðingu erlendra þjóðfána. En íslenzki löggjafinn hefur ekki enn sýnt íslenzka fánanum þá virðingu að leggja refsingu við óvirðingu á íslenzka fánanum.

Árið 1937 kom fram á Alþ. frv. til 1. um breyt. á og viðauka við hin almennu hegningarl., og við það kom fram brtt., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Hver sá, sem af ásettu ráði sýnir fána Íslands óvirðingu í orði eða verki, skal sæta sektum eða fangelsi.“ — Þetta mál dagaði þá uppi. Og þegar hegningarl. voru sett árið 1940, þá var ekkert slíkt ákvæði tekið upp í þau. Ég bendi á þetta til þess að sýna, hve rík nauðsyn er á að fá löggjöf um íslenzka fánann.

Ég býst við, að á því sé almennur áhugi í landinu að fá fánalöggjöf, og skal ég benda hér á eina samþykkt aðeins til dæmis um þetta. Það er samþykkt, sem gerð var á síðasta sambandsþingi ungra sjálfstæðismanna í júní sl., og bendi ég ekki á hana hér á nokkurn hátt til þess að koma pólitík í þetta mál, heldur til þess að sýna vilja nokkurs hluta íslenzkrar æsku, sem ég er viss um, að er í samræmi við óskir allra landsmanna. Samþykktin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandsþing ungra sjálfstæðismanna, haldið á Þingvöllum og Reykjavík 18. og 20. júní 1943, ályktar að skora á Alþingi að setja þegar á næsta þingi löggjöf til verndar íslenzka fánanum, sem meðal annars mæli fyrir um alla meðferð og notkun fánans í samræmi við þá virðingu og helgi, sem samboðin er hinu þjóðlega tákni sjálfstæðis og frelsis íslenzku þjóðarinnar. Jafnframt lýsir þingið þeim eindregna vilja ungra sjálfstæðismanna, að ákveðin gerð og lögun íslenzka fánans eins og hún er nú verði löghelguð í stjórnarskránni þannig, að aldrei geti orðið breytingar þar á, án þess að þjóðin í heild geti tekið afstöðu til þess við almennar kosningar. Skorar þingið á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa í milliþinganefnd í stjórnarskrármálinu að beita sér fyrir framkvæmd þessa, þegar hin víðtækari endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem nú er ráðgerð eftir stofnun lýðveldisins, kemur til framkvæmda.“

Ég ætla, að þær sömu skoðanir, sem koma fram í þessari ályktun, eigi sér ekki aðeins hljómgrunn meðal allrar íslenzkrar æsku, heldur alls þorra landsmanna. Og að setja ákvæði um íslenzka fánann inn í sjálfa stjskr. tel ég æskilegast, en það verður að bíða gagngerðrar endurskoðunar stjskr., sem síðar kemur til.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en von okkar flm. er sú, að þáltill. þessi nái samþykki og verði spor í áttina til þess að auka virðingu fyrir íslenzka fánanum og auka stórlega notkun hans meðal landsmanna. Það er von okkar, að innan skamms verði landið, hvenær sem tyllidaga þjóðarinnar ber að garði og sérstaklega þegar lýðveldið verður stofnað, baðað í fagurri fánabreiðu til marks um íslenzkt sjálfstæði og jafnframt til þess að halda vakandi tilfinningu Íslendinga fyrir þjóðerni sínu um allan aldur.